UNDRUN Stendur undrandi í brú á skipi sem svífur um geiminn Ætlaðir þó ekki ekki í geimsiglingu heldur róa til fiskjar bara stutt frá landi samtLesa áfram „Skuggar í spegli -2022“
Beinagrind við rúmgaflinn-2020
ÓTTAST UM LÍF MITT
Óttast
um líf mitt
ef riddararnir
átta sig á
að sverðin
sem ég smíðaði
þeim eru styrkt
með bölbænum
Hanskarnir og fleiri örsögur- 2016
FLUGÆFINGAR
Ég fór upp á þak hæstu byggingarinnar sem ég fann í borginni. Rétti út
hendurnar og varpaði mér framaf en fann strax að tilraunin var
misheppnuð. Náði ekki að blaka höndunum nægilega hratt til að halda mér
á lofti og hrapaði því til jarðar.
Enn ein tilraunin sem misheppnast.
Þetta var sú þrítugasta og fimmta.
Allar hafa þær endað með fleiri en einu og fleiri en tveimur beinbrotum
ásamt djúpum skurðum hér og hvar um líkamann.
En ég gefst ekki upp.
Mér skal takast að fljúga.
Án titils -2016
Horfir-sögur -2015
KAFFIKONAN
Í svefnrofunum á morgnana vissi hún aldrei hvort hún var að vakna eða
sofna fyrr en hún fann kaffiilminn berast inn um gluggann til sín.
Dag nokkurn, þegar enginn kaffiilmur barst inn, vegna þess að gamla konan
á neðri hæðinni var dáin, lagðist hún aftur á koddann og hélt áfram að sofa.
Og svaf þar til önnur gömul kona flutti inn á neðri hæðina og fór að hella
upp á kaffi á morgnana
Lokaður lófi -2014
LOKAÐUR LÓFI
Sleppir lausum
orðunum
sem þú faldir
í lokuðum lófa
Leyfir
þeim að flögra
hvert
sem þau vilja
Í ókunnri borg-2012
RIGNING
Rigningin svo mikil
allt í einu að við
rennblotnum við það eitt
að ganga milli veitingastaða
þó stutt sé að fara
Ekkert okkar með
hlífðarföt enda
vorum við að fara
til útlanda
og þar á
að vera sól og blíða
alltaf
Um stundarsakir -2010
MAÐURINN GLOTTIR
Maðurinn
sem leggur
mótorhjóli sínu
skammt frá
glottir
þegar
hann sér
mig
túristann
sitja
við hliðina
á gamalli konu
og skrifa
Lesa áfram „Um stundarsakir -2010“Í lestarklefa með hjónum og lögreglumanni -2009
Í LESTARKLEFA MEÐ HJÓNUM OG
LÖGREGLUMANNI
(Ungverjaland 2002)
Sit í lestarklefa með hjónum og lögreglumanni.
Þau þrjú tala og tala saman.
Ég sit bara og skrifa og hlusta á þau.
Skil þó nokkuð.
Sérstaklega af því ég þarf ekki að taka þátt.
Þegar við nálgumst borgina Tata fer ég að skima kringum mig. Held við séum komin en ég hafi misst af ánni.
Stend upp og kíki út til að gá hversu langt við erum komin.
Konan spyr: „Hova tetszik utaszni?” sem þýðir náttúrlega: hvert ertu að fara?
Ekki erfið spurning en ég fer allur í kerfi og segist ekki skilja. Hún telur þá upp borgirnar sem eftir eru: Komarom, Györ og svo framvegis.
Þá átta ég mig og svara Komarom.
Það er næsta stöð, segir hún.
Meðan á þessu stendur horfir lögreglumaðurinn undrandi á mig.
Eins og hann hafi áttað sig á að ég skil eitthvað í ungversku.
Kannski finnst honum og þeim öllum, þetta skrýtið.
Ekki síst í ljósi þess að fyrr í ferðinni dró ég upp bók og fór að lesa.
Barnabók á ungversku.
Til þín brosa gráir steinar -2008
Á BARMINUM
Langaði
að breiða út
vængina
Varpa mér
niður í gljúfrin
Fljúga
í þeim miðjum
eins og
hver annar fugl
Samferðafólksins vegna
gerði ég það ekki