Tjaldið er fallið.
Ég stend á sviðinu. Undrast lófatakið sem berst gegnum þykkt tjaldið.
Var frammistaða mín svona góð?
Ég veit að það er verið að klappa fyrir mér, því ég er eini leikarinn í sýningunni.
Tjaldið lyftist í ný. Ég geng fram á sviðsbrúnina og hneigi mig.
Lófatakið eykst enn þegar áhorfendur koma auga á mig.
Tjaldið fellur.
Fangaðarlætin aukast enn.
Tjaldið lyftist aftur og ég hneigi mig.
Handan flóðljósanna er salur fullur af fólki sem klappar fyrir mér
Flóðljós og fleiri sögur
FLJÓÐLJÓS
Gamli maðurinn sem gengur yfir torgið undrast og gleymir sér andartak þegar götuljósin kvikna og skína svo skært að það minnir eina helst á flóðljós.
Tjaldið er fallið.
Ég stend á sviðinu. Undrast lófatakið sem berst gegnum þykkt tjaldið.
Var frammistaða mín svona góð?
Ég veit að það er verið að klappa fyrir mér, því ég er eini leikarinn í sýningunni.
Tjaldið lyftist í ný. Ég geng fram á sviðsbrúnina og hneigi mig.
Lófatakið eykst enn þegar áhorfendur koma auga á mig.
Tjaldið fellur.
Fangaðarlætin aukast enn.
Tjaldið lyftist aftur og ég hneigi mig.
Handan flóðljósanna er salur fullur af fólki sem klappar fyrir mér.
Fólkið sem á leið um torgið staldrar við og horfir forviða á gamla manninn sem hneigir sig aftur og aftur. Eins og hann sé leikari í leikhúsi.
Hann er nú kalkaður þessi, hugsar fólkið með sér og brosir. Sumir geta ekki á sér setið og reka upp hláturroku.
Gamli maðurinn hrekkur upp, lítur skömmustulegur kringum sig og hraðar sér yfir torgið.
Tjaldið er fallið.
Fagnaðarlætin sem ég bjóst við að heyra láta á sér standa.
Ég stend á sviðinu og hlusta.
Hlusta með öllum líkamanum.
Bíð eftir lófatakinu. Fagnaðarlátunum.
En ég heyri ekki neitt.
Tjaldið lyftist á ný.
Ég geng fram á sviðsbrúnina og hneigi mig.
Býst við að heyra lófatak, en mér mætir aðeins þögnin.
Handan flóðljósanna er salur fullur af þegjandi fólki.
Gamli maðurinn arkar niðurlútur útaf torginu, og götuljósin minna ekki lengur á flóðljós, heldur venjuleg götuljós á torgi sem er fullt af háðsku fólki.
ÓVEÐUR
Það er kvöld og úti í kolsvörtu myrkrinu gnauðar vindurinn.
Eins og venjulega er ég einn.
Horfi á sjónvarpið sem hjálpar mér að muna hvernig annað fólk lítur út.
Við klettana langt fyrir neðan ólmast brimið.
Myndin er mjög spennandi. Athygli mín er öll bundin við hana. Ég reyni að átta mig á
endalokunum. Vona að það takist áður en tækið dettur út sem getur gerst á hverri stundu.
Helst vildi ég sjá myndina alla. Ef það tekst ekki verð ég að kalla einhvern upp í stöðinni á morgun og spyrja um endinn.
Ég ræð engu um það hvort sjónvarpið dettur út eða ekki. Það er í annarra höndum.
Úti í myrkrinu gnauðar vindurinn svo það hvín í öllu og næðir inn um óþétta gluggana. Í fjörunni langt fyrir neðan ólmast brimið og kastar sælöðrinu alla leið hingað upp.
Það er framið morð!
Ég hækka í tækinu til að yfirgnæfa veðurgnýinn.
En lætin í bílaeltingarleik í erlendri stórborg ná ekki að yfirgnæfa veðurhljóðin hér norðurfrá. Engu líkara en veðurofsinn verði enn meiri eftir því sem ég hækka í tækinu. Líkt og hann vilji ekki láta yfirgnæfa sig.
Það á að fremja annað morð.
Ég er viss um það. Sannfærður.
En þá dettur sjónvarpið út. Reyndar fer rafmagnið líka.
Ég teygi mig í vasaljósið sem ég veit nákvæmlega hvar er, enda var ég viðbúinn því að þetta gerðist.
Stend upp og fer út.
Vindurinn heilsar mér kröftuglega. Eins og hann taki í hönd mína og hristi mig allan til. Ég læt það ekki á mig fá enda vanur þessum harkalegu handaböndum vindsins, og held út í kofann þar sem ljósavélin er.
Ég vil koma vélinni í gang eins fljótt og ég mögulega get, svo ég nái kannski síðustu mínútunum af myndinni. Takist það þarf ég ekki að kalla einhvern upp í talstöðinni á morgun og spyrja um endinn.
Ég geng inn í kofann, loka á eftir mér og lýsi mér leið með vasaljósinu að vélinni.
Kofinn sem bæði er gamall og illa farinn, nær ekki að loka hvínandi vindinn úti svo hann æðir um allt.
Það er engu líkara en brimið langt fyrir neðan nagi klettana og ætli að halda því áfram þar til ekkert er eftir af þeim.
Þar sem ég bogra yfir vélinni sem ég þekki svo vel, heyri ég að hurðinni er hrundið upp.
Ég hrekk við.
En áður en ég næ að snúa mér í átt til dyranna skellast þær á ný.
Vindurinn, hugsa ég og sný mér aftur að vélinni sem ekki vill fara í gang.
Ég finn að einhver nálgast mig. Þó sný ég mér ekki við, því ég veit að hér á enginn að vera.
Nema ég.
Hér er enginn annar!
Hver ætti svo sem að vera á ferð hér á þessum tíma?
Enginn!
Samt veit ég að ég er ekki einn í skúrnum.
Ég veit líka að ég mun ekki sjá endalok myndarinnar, hvort sem ljósavélin fer í gang eða ekki; ég mun heldur ekki kalla í stöðina á morgun og forvitnast um endinn.
Ég veit að það verður framið annað morð.
LEIKRITIÐ:
STORMURINN
“Hafið, bláa hafið hugann dregur, –
hvað er bakvið ystu sjónarrönd?”
Innum opnar svaladyr á fjórðu hæð berst henni til eyrna ómur af söng. Henni bregður, því hún þekkir sönginn og veit hvað í vændum er: enn ein sýning á storminum.
Söngurinn þagnar.
En þessi þögn er aðeins lognið á undan storminum. Hin spennuþrungna þögn er ljósin í salnum hafa verið slökkt og tjaldið á leið frá.
Hún reynir að búa sig undir sýninguna. En tíminn er naumur, sem betur fer kann hún hlutverkið sitt mjög vel.
Hún stendur á miðju gólfi. Hlustar. Heyrir fótatak í stiganum og söng:
“Þangað liggur beinn og breiður vegur
bíða mín þar æsku draumalönd.”
Hvort tveggja færist stöðugt nær. Sýningin fer að hefjast.
Stormurinn skellur brátt á.
Dyrunum er hrundið upp.
Lognið er á enda. Sýningin er hafin.
Aðalleikarinn stormar inn á sviðið. Syngjandi:
“Beggja skauta byr
bauðst mér ekki fyrr.”
Konan stendur kyrr.
Skelfur. Eins og í henni sé sviðsskrekkur.
Hún undrast það.
Væri þetta frumsýning þætti henni í lagi að vera með sviðsskrekk en ekki núna eftir fleiri sýningar en hún getur talið.
Söngurinn þagnar.
Stormurinn fer um íbúðina. Æðir um hana alla.
Ískaldur. Nístandi.
Leitar.
Öskrar: “Hvar hefurðu falið það?”
Stormurinn berst til hennar, þar sem hún stendur enn á miðju stofugólfinu, hristir hana til.
Gargar: “Hvar?”
Hún þegir.
Henni er ekki ætluð nein setning í verkinu.
Hún horfir á hann.
Örugg. Því þetta fylgir allt handritinu.
Ennþá.
Stormurinn vex hratt.
Fyrr en varir er hann orðinn að öskrandi stormbeljanda.
“Hvar?”
Hann öskrar aftur. Hærra.
Hún horfir stöðugt á hann.
Stormurinn feykir henni um koll. Hún fellur í sófann.
Stormurinn æðir fram í eldhús.
Hún fylgist með honum þar sem hún liggur í sófanum. Veit að hann fylgir handritinu
nákvæmlega.
Handritinu sínu.
Stormurinn feykir upp hverjum skápnum á fætur öðrum. Endar á ruslaskápnum.
Lyftir pokanum úr fötunni.
Gargar: “Já, ég vissi það!”
Leikritið hefur náð hámarki.
Hann tekur flösku upp af botni ruslafötunnar.
Opnar hana og sýpur drjúgt. Um leið gengur stormurinn niður.
Eftir sopann hefst söngurinn á ný. Byrjar þar sem hann hætti áður.
“Brunaðu nú bátur minn.
Svífðu seglum þöndum.”
Aðalleikarinn röltir útaf sviðinu.
Storminn hefur lægt.
Konan liggur enn í sófanum. Hlustar á fótatakið og sönginn:
“Svífðu burt frá ströndum,
fyrir stafni haf og himininn.”
Hvort tveggja fjarlægist óðum.
Tjaldið fellur.
Sýningunni á storminum er lokið í þetta sinn.
HLUSTANDINN
Hann teygði sig í bjórkolluna á borðinu fyrir
framan sig, fékk sér sopa og sperrti eyrun.
Hlustaði á samræðurnar á næsta borði.
“Það kom einhver að rúminu mínu, renndi
höndunum undir líkama minn og lyfti mér upp.
Ofurvarlega og blíðlega. Samt vaknaði ég og
varð dauðhrædd er ég fann að ég lá ekki lengur í
rúminu..”
“Hver hefði svo sem ekki orðið hræddur?” mælti
sessunauturinn. “Ég hefði orðið það. Alveg
örugglega.”
Hlustandinn fékk sér annan sopa af bjórnum og
glotti.
“Ég öskraði, en sálfræðingurinn minn sagði að
það væru eðlileg viðbrögð við hræðslu. Sá sem
hélt á mér hefur líklega orðið hræddur við öskrið
því hann sleppti mér. Til allrar hamingju var ég
yfir rúminu og féll beint ofan í það.
Talsverða stund lá ég kyrr, meðan ég var að jafna
mig eftir þetta.
Þegar mesti óttinn var liðinn hjá fór ég að svipast
um eftir þeim sem lyfti mér upp úr rúminu.”
Hún tók sér málhvíld og saup á kaffinu.
Sessunauturinn greip tækifærið:
“Ekki hefði ég þorað að fara framúr! Ég hefði
breitt sængina yfir höfuðið og legið þannig til
morguns.”
Sú sem sagði söguna hélt áfram eins og hún hefði
ekki heyrt þetta:
“Ég leitaði um alla íbúðina en fann engin merki
um mannaferðir. Allir gluggar voru harðlokaðir
og ekkert hafði verið átt við dyrnar.”
Sessunauturinn saup hveljur af undrun og
skelfingu.
“Ég varð enn hræddari en áður og hef ekki þorað
öðru en sofa við ljós síðan.
Það hefur haft áhrif.
Ég hef ekki orðið vör við neitt aftur,” lauk hún
máli sínu og kláraði úr bollanum.
Fram á varir sessunautarins kom orð sem hún
þorði varla að sleppa frá sér. Líkt og óstýrilátar
varirnar gætu ekki myndað það.
Hlustandinn glotti kalt, lauk við bjórinn sinn og
hvarf í þann mund sem sessunauturinn hafði náð
að temja varirnar og mynda orðið.
JÁTNINGIN
Ég framdi þetta morð!
Ég veit að ég gerði það.
Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las um það í
blaðinu.
Trúið þið mér ekki?
Afhverju ætti ég að ljúga upp á mig morði?
Ég framdi þetta morð!
Ég veit að ég gerði það.
Þarf ég á athygli að halda og játa þessvegna á
mig morð sem ég framdi ekki?
Aldrei hef ég heyrt aðra eins vitleysu.
Jú, ég bý ein. Það er alveg rétt hjá þér. En að ég
játi á mig morð bara til að fá athygli er tóm
vitleysa.
Eins og þú veist sjálfur.
Já, já það má vel vera að ég sé veik. En ég er
ekki svo veik að ég játi á mig morð sem ég
framdi ekki.
Það gerir enginn, hversu veikur sem hann er.
Kannski ber það vott um alvarleg veikindi mín að
ég skuli koma hingað og játa. Líklega telduð þið
mig heilbrigða hefði ég ekki komið. Ef ég hefði
reynt að komast upp með morðið sem ég framdi.
Ég ætlaði líka að gera það.
Í tvo daga þjáðist ég af samviskubiti án þess að
vita ástæðuna. Það var svo heiftarlegt að ég þurfti
að gleypa margar svefntöflur til að geta sofnað.
Á þriðja degi þegar blaðið datt inn um
bréfalúguna hjá mér og ég rak augun í fréttina þá
opnuðust augu mín.
Bókstaflega.
Þá var hulunni svipt frá sjónum mínum og ég
mundi að það var ég sem framdi þetta morð.
Ég mundi hvernig ég læddist inn í húsið um
nóttina, náði í hníf í eldhúsinu. Hann stóð í
hnífastandi við hliðina á eldavélinni.
Þegar ég var komin með hann í hendurnar læddist
ég upp tréstigann. Gætti þess vel að ekki marraði
í honum.
Með hnífinn í hendinni gekk ég ofurvarlega upp
stigann og hélt þétt utanum hnífsskaftið.
Ég komst upp án þess að vekja fórnarlambið og
staðnæmdist við svefnherbergisdyrnar. Lagði
eyrað að þeim og hlustaði. Heyrði nákvæmlega
það sem ég vildi heyra: háværar hrotur
fórnarlambsins sem svaf fyrir innan dyrnar.
Grunlaust um örlög sín.
Ég opnaði og læddist inn í myrkrinu. Er ég kom
að rúminu reiddi ég hnífinn og stakk.
Aftur og aftur.
Dreif mig síðan út. Þá skipti engu máli hvort ég
fór hljóðlega eða ekki. Ég hafði myrt eina íbúa
hússins og því heyrði enginn til mín.
Ég fór heim og sofnaði.
Morguninn eftir þegar ég vaknaði var ég með
nagandi og nístandi samviskubit, án þess að gera
mér grein fyrir hversvegna.
Eftir að allt rifjaðist upp fyrir mér hvarf
samviskubitið ekki.
Annars hefði ég ekki komið hingað.
Í einfeldni minni hélt ég að ég gæti þaggað niður
í samvisku minni.
En ég gat það ekki, og er því hingað komin til að
játa á mig morð.
Morðið sem ég framdi!
Trúið þið mér ekki?
Ég hef lýst fyrir ykkur í smáatriðum hvernig ég
framdi morðið en þið trúið mér samt ekki!
Það má vel vera að þetta standi allt í blaðinu. En
ekki er minnst á að ég hafi læðst upp stigann svo
ekki marraði í honum; staðið við svefnherbergis
dyrnar og hlustað á hrotur fórnarlambsins.
Þetta veit enginn nema ég sem framdi morðið.
Tilbúningur?
Lygi?
Nei, þetta er satt.
Ég framdi þetta morð.
Þið verðið að trúa mér.
Ég framdi þetta morð.
Ég veit að ég gerði það!
SNJÓTEPPIÐ
Ég sé ekki út úr augunum fyrir þykku, hvítu
hríðarteppinu sem vefst sífellt þéttar að
mér.
Samt held ég áfram göngu minni.
Ég má ekki nema staðar.
Ekki aftur.
Ég man að ég gerði það síðast.
Fyrir löngu.
Stormurinn gnauðar úti í myrkrinu svo hvín og
ýlfrar í óþéttum gluggum litla bæjarins.
Heimilisfólkið situr í baðstofunni.
Þögult.
Sinnir vinnu sinni og reynir að halda á sér hita
með því að vefja teppagörumum þéttar að sér.
Ég verð að finna mér húsaskjól. Hlýja baðstofu
og ekki væri nú verra ef þær væri ung heimasæta,
tilbúin að verma kaldan kroppinn minn.
Ég er þrátt fyrir allt sá sem ég er.
Svipaðar hugsanir flugu um kollinn á mér síðast
þegar ég var á ferð í svona veðri.
Fyrir löngu.
Þá gafst ég upp.
Er þetta húsgafl sem ég snerti með útréttum
höndunum?
Getur verið að ég hafi fundið bæ?
Síðast fann ég engan bæ. Sá ekkert og fann
ekkert nema þetta hvíta, kalda teppi sem vafðist
þétt að mér.
Þá gafst ég upp.
Það geri ég ekki núna.
Ég hef fundið bæ.
Það er drepið á dyr.
Fólkið í baðstofunni kippist við. Lítur óttaslegið
hvert á annað og úr svip þess má lesa: ég ætla
ekki að ljúka upp.
Allir vita að enginn maður er á ferð í svona veðri.
Við fjórða högg rís húsbóndinn á fætur. Leggur
frá sér vinnu sína og heldur fram göngin. Til
dyra.
Loks er dyrunum lokið upp. Í gættinni stendur
hár og þéttvaxinn maður. Skeggjaður.
Ég heilsa.
Hann tekur ekki undir kveðju mína. Horfir
aðeins út í hríðina.
Er bóndi opnar dyrnar blasir við honum hvít
hríðarmuggan og snjóflygsur festast í skeggi
hans.
Hann lokar og snýr til baka.
Heimilisfólkið lítur á hann er hann gengur í baðstofuna.
Hann mælir ekki orð, heldur starir á fleti sitt.
Sest og tekur til við vinnu sína á ný.
Enginn segir eitt einasta orð.
Hann sagði ekkert!
Lokaði og skildi mig eftir hér úti í hríðinni sem
sífellt þéttist og vefst fastar og fastar að mér.
Eins og þá.
Fyrir löngu.
Þegar ég gróf mig í fönn og hugðist bíða þar til
hríðinni slotaði. En kalt snjóteppið vafðist fastar
og fastar að mér svo ég lokaðist inni í því.
Ætlar þessi bóndadurgur að láta það gerast aftur
núna?
Veit hann ekki hver ég er?
Heimilisfólkinu dauðbregður þegar enn á ný er
barið að dyrum.
Það er ekki um að villast, hugsar það og enginn
rís á fætur til að opna sama hve oft er barið.
Það lýkur enginn upp fyrir mér. Þó ég berji aftur
og aftur og fastar í hvert skipti.
Mér er ekki hleypt inn.
Ég stend fyrir utan og kalt snjóteppið þrengir
stöðugt að mér.
Það vefst þéttar og þéttar um mig.
Og ég veit að brátt næ ég ekki andanum.
Eins og þá.
Fyrir löngu.
Öldum.
DRAUMURINN
Mig dreymir að til mín kemur kona sem ég veit
að ekki af þessum heimi heldur öðrum.
Hún sagði til nafns og bað mig að muna það. En
um leið og ég lauk upp augunum var nafni hennar
stolið úr huga mér.
Ég hef ekki með nokkru móti getað rifjað það
upp!
“En nafnið hlýtur að vera það mikilvægasta í
draumnum,” segir rödd fast við eyra mitt. “Það
er alltaf þannig þegar mann dreymir fólk af
öðrum heimi.”
Það getur verið, svara ég þrjóskulega. En ég man
það ekki. Því var stolið úr huga mér, eins og ég
sagði. Auk þess: ef það skiptir verulegu máli
kemur hún aftur.
Það er ég viss um.
Ég fer í draum.
Klæðist mínu besta skarti.
Segi til nafns, því í fjölskyldunni er óskírt barn
sem verður gæfubarn beri það nafn mitt.
Segi konunni að hún megi alls ekki gleyma nafni
mínu.
“Hvað manstu þá úr þessum draumi,” mælir
sama röddin en aðeins fjær eyra mínu en áður.
Hve vel og glæsilega búin konan var. Á höfði sér
bar hún kórónu sem glitraði og ég er sannfærð
um að var úr gulli. Hún var einnig í glæsilegum
gullofnum kjól.
Þegar ég tala til hennar veit ég að hún heyrir
ekki orð af því sem ég segi. Hún starir hugfangin
á klæðnað minn.
Tekur ekki eftir neinu öðru.
Röddin mælir þriðja sinni og er nú svo fjarlæg að
ég greini varla orð hennar:
“Þekktirðu hana?”
Nei. En ég er sannfærð um að ég kynnist henni
þegar hún kemur í draum minn aftur, til að minna
mig á nafn sitt.
Þá ætla ég að muna það.
Ég veit að hún býst við að ég komi í draum sinn á
ný og árétti nafn mitt.
Það geri ég ekki.
Og barnið fær ekki að bera það.
ÉG VILDI AÐEINS HEYRA ORÐ HANS
Brennheit eyðimerkursólin svíður hörund mitt.
Rífur upp skinnið á öxlunum, handleggjunum,
fótunum, andlitinu og bakinu. Ég skorpna í
munninum. Líkt og munnvatnskirtlarnir þorni.
Hætti að starfa. Og tungan límist föst við góminn.
Eina hugsun mín er að komast í vatn.
Ég þramma eftir sandinum. Sjóðheitum. Hann
brennir mig í iljarnar, svo á þær koma blöðrur.
Stórar blöðrur sem springa og brennheitur
sandurinn á greiðan aðgang að sárum iljum
mínum.
Í fjarska heyri ég í vatni. Eina hugsunin að losna
úr þessari eyðimörk og drekkja mér í vatninu.
Í brjósti mínu vaknar tilhlökkun og spenningur.
Tilfinningar sem legið hafa lengi í dvala.
Hef ekki fundið fyrir þeim síðan ég sat uppi á
hæðinni í kuflinum og bandskónum.
Sat einn uppi á hæð og horfði niður í þröngan og
djúpan dal sem var fullur af fólki.
Athygli allra beindist að ungum manni,
síðhærðum og skeggjuðum, sem talaði og talaði.
Látlaust. Fólkið stóð í dalnum og hlustaði. Nam
hvert einasta orð hans. Drakk þau í sig.
Þá vaknaði spenningurinn í brjósti mínu.
Ég fékk óviðráðanlega löngun til að heyra orð
þessa unga manns. Heyra hvað hann var að
segja öllu fólkinu sem stóð kyrrt og hlustaði á
hvert einasta orð af vörum hans.
Ég hníg niður. Andlit mitt skellur þungt í
brennheitan sandinn.
Vatsniðurinn enn hærri en áður.
Ég stóð upp. Tók stafinn minn. Studdi mig við
hann og hélt af stað niður hæðina. Niður í
dalinn. Til fólksins sem stóð hreyfingarlaust og
hlustaði á unga manninn.
Mig langaði að heyra í honum.
Ég fetaði mig hægt og varlega niður bratta
hæðina. Íhugaði hvert skref. Gætti þess að mér
skrikaði ekki fótur.
Stefndi niður í dalinn. Til fólksins. Til hans.
Ég skríð í átt að vatnsniðnum sem enn hækkar.
Fólkið í dalnum varð stærra og skýrara fyrir
sjónum mínum eftir því sem ég nálgaðist.
Ég ligg í sandinum. Reyni að mjaka mér áfram.
Í áttina að vatnshljóðinu. En sandurinn er gljúpur
og rennur undan mér.
Ungi maðurinn benti upp í hlíðina. Fólkið sneri
sér við.
Horfði í átt til mín.
Á mig.
Maðurinn benti með vísifingri á mig. Hrópaði
eitthvað sem ég heyrði ekki.
Fólkið horfði á mig. Ég fann augu þess brenna
sig inn í hörund mitt.
Ég hélt áfram. Fikraði mig niður í dalinn.
Ég ligg hreyfingarlaus í sandinum. Heyri hvernig
vatnsniðurinn fjarlægist. Þokast burt.
Fólkið í dalnum ókyrrðist eftir því sem ég
nálgaðist. Fór að tvístíga. Eins og það væri
óþolinmótt.
Maðurinn ungi hélt hendi sinni stöðugt útréttri
og beindi fingri sínum að mér.
Fólkið tók að hreyfast. Mjakaði sér hægt út úr
dalnum.
Ég ligg milli tveggja hóla í sandinum. Eins og ég
sé ofan í dal. Djúpum dal. Sólin skín enn heitar
uppi yfir höfði mínu. Tætir skinn mitt og hörund.
Kvelur mig.
Þegar ég kom loks niður í sléttan dalbotninn var
allt fólkið horfið. Nema hann.
Hann stóð enn með útrétta hönd og benti á mig.
Með vísifingri hægri handar.
Ég nam staðar. Horfði á hann.
Hann horfði á mig.
Þegar ég fór að þoka mér í átt til hans hvarf
hann.
Líkt og hann gufaði upp.
Um leið lagðist spenningurinn í brjósti mínu í
dvala.
Dalurinn þröngi breyttist í eyðimörk. Stóra og
ógnvekjandi.
Ég ligg ofan í dal. Brennheitur sandurinn svíður
hörund mitt.
Vatnsniðurinn horfinn. Þokaðist hægt á brott uns
hann hvarf.
Ég ligg í sandinum og bíð.
Bið þess að sólin þurrki mig endanlega upp.
Ég sem vildi aðeins heyra orð hans.
FERÐIN
Rútan rann af stað og á mig sveif svefnhöfgi. Ég
sofnaði vært og svaf allt þar til harðir og rykugir
malarvegir tóku við af malbikinu.
Það var eins og tekið væri í öxl mína og ég
hristur kröftuglega til.
Ég glaðvaknaði.
Horfði út og reyndi að festa augun á landslaginu
sem þaut hjá.
Rútan nam staðar við afleggjara að sumarbústaðarhverfi.
Ung stúlka, líklega um tvítugt eða þar um bil,
steig inn. Hún skimaði andartak um rútuna, kom
auga á mig og stefndi rakleiðis að auða sætinu
við hlið mína. Þó mörg önnur sæti væru laus.
“Laust?” spurði hún stutt í spuna en þá
kurteislega.
“Gjörðu svo vel,” sagði ég og rétt leit á hana.
Tók eftir stórum sakleysislegum augum sem
störðu á mig.
Rútan hélt af stað á ný. Ég sneri mér að
glugganum og reyndi að fanga landslagið.
Þessi augu létu mig ekki í friði. Þau vitrtust hafa
greypst inn í huga minn við þetta örstutta tillit.
Mér fannst ég sjá þau í hverjum hól og hverjum
steini sem rútan fór fram hjá.
Hreyfingar bílsins urðu mýkri og þýðari svo ég
sofnaði.
Ég svaf dágóða stund.
Er ég opnaði augun blöstu við mér starandi augu
hennar.
“Ég hef leitað óralengi að þér,” sagði hún og tók í
vinstri hönd mína.
Ég lyftist upp. Sveif hærra og hærra.
Hún líka.
Það var eins og hún togaði mig með sér upp.
Ég leit niður og sá líkama okkar sitja
hreyfingarlausa í sætunum.
Hún sleppti hendi minni.
Fór til baka.
Hvarf inn í líkama minn.
Ég dróst niður, þó ég vildi helst svífa sem lengst
burt.
Ég dróst að líkama hennar. Hvarf inn í þennan
unga og fagra kvenlíkama.
Er ég hafði komið mér fyrir í honum fann ég
hvernig hann eltist og hrörnaði. Í andlitið komu
hrukkur, pokar undir augun, maginn varð
skvapkenndur og ég fann fyrir óteljandi sárum á
fótunum.
Rétt áður en augun hættu að sjá, varð mér litið á
manninn við hlið mína og horfði á glottandi
andlit hans.
Andlitið mitt.
LEITIN
Hún hvarf. Rétt eins og hún hefði gufað upp.
Við urðum að leita að henni. Skipulögðum
leitarflokka sem flugu af stað í skyndi.
Hún hefði aldrei farið án þess að láta okkur vita.
Ég átti bágt með að trúa því að hún hefði bara
farið. Stungið af. Eins og sumir héldu fram.
Það gat ekki verið.
Það var ekki henni líkt.
Það var augljóst að eitthvað hafði komið fyrir.
Við urðum að finna hana.
Án hennar gátum við ekki lifað.
Leitarflokkarnir dreifðu sér víða og leituðu
hennar um allt.
Án árangurs.
Á hverju kvöldi fljúgum við sem erum í
leitarflokkunum heim á ný og gefum stjórnendum
skýrslu um hvar við leituðum og hvað við sáum.
Stjórnendurnir vilja fá að vita allt sem gæti gefið
minnstu vísbendingu um dvalarstað hennar. Við
megum ekki skilja minnsta smáatriði útundan.
Verðum að segja frá öllu sem fyrir okkur bar
þann daginn.
Leitin hefur enn ekki borið árangur. Því miður.
Það virðist sama hvert við fljúgum og hve
nákvæmlega við tökum eftir, hún hefur ekki
fundist.
Mér vitanlega hefur heldur ekki komið fram ein
einasta marktæk vísbending.
Við erum jafnlangt frá því að finna hana og
daginn sem við uppgötvuðum að hún væri horfin.
Upp eru að vaxa kynslóðir meðal okkar sem ekki
vita að hverju verið er að leita.
Vita einungis að verið er að leita einhvers.
Þeim fækkar einnig óðum sem muna eftir henni,
því leitin hefur tekið talsverðan toll. Margir sem
leggja upp að morgni snúa ekki aftur að kvöldi.
Þannig hefur það verið allt frá upphafi.
Það styttist óðum í þann dag að við, sem munum
eftir henni og vitum hvers leitað er, hverfum af
sjónarsviðinu og yngri kynslóðir taki alfarið við
leitinni. Þá er borin von að hún beri nokkurn tíma
árangur. Þá verður leitað leitarinnar vegna en
ekki til þess að finna hana sem yfirgaf okkur einn
daginn án þess að láta okkur vita.
Ég er að verða elsti þátttakandinn í leitinni og
sennilega sá eini sem enn hefur skýra mynd af
henni í litlum kollinum.
Þrátt fyrir það hefur mér ekki verið boðið sæti í
stjórn leitarinnar.
Kæri mig heldur ekkert um það.
Ég vil frekar fljúga og leita hennar.
Finna hana.
Því án hennar getum við ekki lifað af til
langframa.
Á ÞVÆLINGI
Regnið stingst í andlit hans, líkt og hárbeittar
nálar. Þunn fötin veita litla vörn fyrir regninu.
Þau eru orðin gegndrepa og klessast þétt við
grannan líkamann. Milli vara hans hangir
krumpuð sígaretta. Rennblaut og líflaus. Fram úr
andlitinu gægjast skeggbroddar.
Þau standa tvö uppi á hæð og virða landið fyrir
sér. Horfa á litla fallega á sem liðast og bugðast
sem hlykkjóttur ormur eftir þröngum dalnum
Þau fylgjast með flugi fugla í fjarska.
Láta sig dreyma um nálæga framtíð.
Hann situr á krá. Milli varanna ný sígaretta.
Glóðin lýsir sem eðalsteinn í rökkrinu.
Fingur annarrar handar gæla þunglega við
handfang bjórkönnunnar sem stendur á borðinu.
Hin hvílir í kjöltu hans.
Skýin þykkna og dökkna. Líða hratt yfir himininn
og hella úr sér.
Áin vex. Verður mórauð og ljót.
Hrifsar með sér allt sem fyrir verður:
Hús. Skepnur. Konu.
Allt og skilar aldrei neinu aftur.
Hann rennir augunum til. Reynir að sjá út um
óhreinar rúðurnar.
Hann stendur upp og gengur út. Myrkrið gælir
við hann með köldum og nöktum fingrum sínum.
Rigningin skellur á honum af slíkum krafti að
hann brotnar niður. Fellur á kné og hylur
andlitið í höndunum. Grefur það eins djúpt í þær
og hann getur.
Hann gengur inn í stóra blokk. Lyftan ber hann
upp á sjöundu hæð.
Við honum blasir langur brúnn gangur.
Við enda hans íbúð sem honum finnst hann
kannast við.
Hann hellir á kaffi og fer með það út á svalir.
Það hættir að rigna og hlaupið rénar. Stórfljótið
verður aftur að lygnri og friðsælli á. Skýin þjóta
brott og sólin brýst fram.
Vermir.
Það er stytt upp og kominn heiðskýr dagur.
Hann sest í stól og kveikir í nýrri sígarettu.
Klárar kaffið og hendir hálfreyktri sígarettunni í
bollann.
Hann rís upp. Styður sig við svalahandriðið og
festir augun á fuglum úti við sjóndeildarhring.
Hann klifrar upp á handriðið.
Baðar út höndunum. Lætur sig falla.
Útréttar hendurnar verða að vængjum og hann
flýgur til fuglanna.
Vonast eftir vináttu þeirra.
SKUGGINN
Fátæklega klæddur maður með sítt og illa hirt
skegg gengur inn á leiksvæðið mill blokkanna.
Hann stefnir rakleitt að bekk undir einu trénu.
Sest.
Lætur augun hvarfla um svæðið. Rennir þeim
yfir leiktækin og börnin. Festir þau að lokum á
steinsteyptu planinu rétt við bekkinn.
Horfir á flökt skugga af tré sem bærist í golunni.
Klefinn minn var svo þröngur að ég gat einungis
tekið þrjú skref áður en ég var kominn að
dyrunum. Sneri síðan við, tók þrjú skref að
glugganum sem var með svo þéttum rimlum að
ég sá varla nokkurn skapaðan hlut út.
Það er engu líkara en skuggarnir af trénu séu
lokaðir inni í þröngu búri sem þeir komast ekki út
úr. En eru ólmir af þrá til að losna.
Er klefadyrunum var loks lokið upp og mér sagt
að ég mætti fara, réð ég mér varla og hljóp um
allt.
Hljóp um alla borgina þar til ég kom hingað.
Settist á bekkinn og virti fyrir mér skuggann af
trénu sem ólmast eins og hann þrái að komast
burt. Sleppa frá steinsteypunni og hlaupa frjáls
um allt.
Fátæklega klæddur maðurinn rís á fætur. Stendur
kyrr andartak og horfir á skuggann af trénu sem
hann sat undir.
Gengur svo rösklega á brott.
LJÓSIÐ
Hann stendur við gluggann í svefnherberginu.
Horfir út.
Festir augun þó ekki á neinu. Lætur þau hvarfla
til og frá.
Hann lítur til himins.
Kemur auga á ljós sem hreyfist hratt eftir
himninum.
“Komdu og sjáðu ljósið,” segir hann stundarhátt.
Konan sem liggur í tvíbreiðu rúminu hrekkur
upp.
“Æ, nei. Eru þetta ekki bara bílar?” muldrar hún.
“Nei, þetta eru ekki bílar, heldur undarlegt ljós á
himninum.”
Hún lokar augunum. Heyrir varla það sem hann
segir.
Hann horfir enn til himins.
“Ég hef aldrei séð neitt í líkingu við þetta.”
Hún er þreytt.
“Þetta er hvítt skært ljós sem þýtur yfir himininn.
Það er eins og ….”
Hann þagnar. Hefur gleymt líkingunni sem hann
ætlaði að nota.
“Eins og ….”
Hann reynir að rifja hana upp.
“Blys?” muldrar hún í spurnartón milli svefns og
vöku.
“Einmitt!” hrópar hann dálítið vonsvikinn. Hún
hefur alltaf verið klárari en hann í líkingunum.
“Nákvæmlega eins og hvítt skært blys.”
En það var ekki þessi líking sem hann ætlaði að
nota. Það var einhver önnur. Stærri. Flóknari.
En hann getur alls ekki munað hana.
“Er þetta þá ekki bara flugvél?” tautar hún.
Hann horfir á ljósið. Hugsar.
“Nei, þetta er ekki flugvél.”
“Fljúgandi diskur þá?” tuldrar hún dálítið
háðslega
Hann starir á ljósið meðan slitrur úr
sjónvarpsþætti sem hann sá fyrir löngu, skjótast
um hug hans. Þar var því spáð að næstu herrar
jarðar yrðu geimverur.
“Já, þetta er fljúgandi diskur. Fullur af
geimverum sem ætla að gera innrás á jörðina!”
Ljósið færist neðar og neðar.
Nálgast jörðina.
“Komdu og sjáður,” hrópar hann.
Hún kemur ekki. Er horfin. Á vit stjarnanna.
Hann tekur ekki eftir neinu nema ljósinu sem
nálgast jörðina æ meir.
“Hann er að lenda. Diskurinn er að lenda.”
Ofsahræðsla grípur hann.
“Þeir ætla að lenda á planinu hjá skólanum.
Þaðan ætla þeir að gera árásina!”
Hann fylgist með ljósinu þar til það hverfur úr
augsýn.
“Það verður að veita þeim mótspyrnu,” hrópar
hann af eldmóði.
Hann þýtur niður í kjallara, finnur haglabyssuna
sína og skot.
Æðir út.
Tekur stefnuna á skólann.
“Nú skal barist!” hrópar hann og sveiflar
byssunni kringum sig. Eins og hann sé að gefa
fylgdarmönnum bendingu um að fylgja sér.
Í fáeinum gluggum kviknar ljós. Fólk þokar
gardínum varlega til hliðar og gægist út.
“Er hann nú endanlega orðinn geggjaður?”
hugsar það og skríður aftur í mjúk og hlý ból sín.
Hann æðir í átt að skólanum.
Hrópandi og gargandi.
Reynir að hvetja menn til að fylgja sér. Taka þátt
í baradaganum.
Hann nálgast skólann.
Einn.
Hún liggur steinsofandi í rúminu.
Er horfin á vit stjarnanna og vill helst aldrei snúa
til baka.
Hún heyrir ekki daufan dynk sem berst utan úr
myrkrinu.
TÚNIÐ
Ég verð að fara!
Ég sá köttinn á túnininu í morgun.
Þá hafa þeir fundið mig. Ég er ekki lengur
óhultur hér. Ég hef svo sem átt von á þessu
síðastliðin þrjú ár. Satt að segja bjóst ég við þeim
fyrr.
Þeir hafa fundið mig. Ég verð að fara.
Alltaf þegar kötturinn birtist eru þeir ekki langt
undan.
Í morgunn var hann kominn inn á túnið sem
stígurinn liggur eftir. Mér sýndist hann enn
stærri og feitari en þegar ég sá hann síðast.
Kindurnar tíu sem verið hafa á túnininu síðan ég
kom hingað fyrst stóðu allar í einum hnapp og ég
sá ekki betur en þær skylfu af hræðslu.
Ég varð dauðskelkaður og hljóp eftir stígnum.
Hef aldrei verið eins feginn að komast inn í
verksmiðjuna.
Ég verð að fara!
Þeir hafa fundið mig.
Þeir reyndu að gera útaf við mig í kvöld þegar ég
var á leið heim úr vinnunni.
Þeir sátu fyrir mér á túninu. Margir saman. Hef
aldrei séð þá svona marga.
Ég var rétt kominn inn á stíginn sem ég geng
alltaf eftir, bæði kvölds og morgna, þegar ég tók
eftir þeim: Litlum þústum með glóandi augu sem
voru eins og gullmolar í myrkrinu.
Þeir voru svo margir að ég gat ekki talið þá.
Miklu fleiri en venjulega. Hingað til hafa þeir
aðeins verið fimm til sex en núna voru þeir
ótalmargir.
Ég nam staðar og skalf af hræðslu. Þó ég hafi
margoft staðið frammi fyrir þeim er ég alltaf jafn
hræddur við þá.
Óttast í hvert skipti að þeim takist ætlunarverk
sitt: að gera útaf við mig.
Einn þeirra stóð beint fyrir framan mig og starði
hatursfullu augnaráði á mig. Ég starði á móti, á
gular glyrnur hans.
Ekki frá því að hann hafi reynt að dáleiða mig.
Hinir voru allt umhverfis mig og þokuðu sér
sífellt nær og nær. Biðu merkis um að ráðast á
mig.
Drepa mig.
Loks var merkið gefið: hátt og skrækt hvæs.
Djöfullegt hvæs.
Þá var sem ég hrykki upp úr leiðslunni. Ég
öskraði af öllum kröftum og hljóp af stað eins
hratt og ég gat.
Þeim dauðbrá öllum. Héldu líklega að ég yrði
auðveldari bráð. Þeir hrökkluðust langt út á
túnið. En ég hljóp hingað heim. Dauðfeginn að
hafa enn einu sinni sloppið frá þeim.
En nú vita þeir hvar ég er og geta aðra tilraun til
að gera útaf við mig hvenær sem er.
Ég get ekki verið hér lengur.
Þeir hafa fundið mig.
Ég verð að fara.
Á morgunn.
Ef þeir koma þá ekki í nótt og drepa mig.
Þeir geta það. Þeir vita hvar ég er.
Ég er ekki óhultur hér.
Ég verð að fara.
Strax!
GÖNGUFERÐ
Fyrir miðju er bekkur með örmum, við hlið hans
græn ruslafata, ljósastaur fyrir aftan.
Bekkurinn gæti staðið á grasi eða malbiki, jafnvel
á hellulagðri gangstétt.
Tveir gamlir menn nálgst bekkinn. Koma sinn úr
hvorri áttinni. Annar, sem er með grátt skegg, frá
hægri. Hinn, sem er skegglaus, frá vinstri. Þeir
ganga rólega og horfa kringum sig, eins og þeir
séu að virða umhverfi fyrir sér.
Þeir koma svo til samtímis að bekknum, sá
skegglausi þó heldur fyrr, leggja aðra hönd á
arma hans, færa sig framfyrir og setjast. Báðir
hvíla þeir handlegg á armi bekkjarins.
Góða stund sitja þeir þegjandi á bekknum og
stara framfyrir sig. Líkt og þeir séu dúpt sokknir
í hugsanir sínar og viti ekki hvor af öðrum.
Loks fer sá skeggjaði að ókyrrast. Eins og hann
sé uppiskroppa með hugsanir. Hann mjakar sér
til á hörðum bekknum, hallar sér fram, horfir til
jarðar, hvort sem undir er gras, malbik eða hellur.
Lítur til himins eins og hann gái til veðurs.
Sá skegglausi situr hreyfingarlaus. Virðist eiga
nægar hugsanir til að halda sér uppteknum.
Sá skeggjaði gjóar augunum í átt að þeim
skegglausa. Ræskir sig til að ná athygli hans.
Það tekst ekki.
Sá skeggjaði horfir stöðugt á þann skegglausa,
meðan hann segir:
“Er þetta ekki hann Jón?”
Sá skegglausi sýnir engin viðbrögð. Líkt og hann
hafi ekki heyrt spurninguna.
Sá skeggjaði endurtekur: “Jú, þetta er minn gamli
vinur Jón.”
Þá er eins og sá skegglausi átti sig. Hann snýr sér
ofurhægt að þeim skeggjaða:
“Jú, það er rétt hjá þér, Guðmundur minn, ég er
hann Jón.”
Guðmundur, sá skeggjaði, brosir þegar hann sér
að hann hefur náð sambandi við Jón, þann
skegglausa.
Þeir rísa á fætur, Guðmundur heldur á undan (svo
lítið reyndar að einungis munar sekúndubrotum);
snúa hvor að öðrum, taka eitt skref og standa þétt
hvor við annan. Faðmast.
Jón: “Jæja vinur, það er langt síðan við höfum
sést.”
Guðmundur: “Já það má nú segja.”
Þeir losa faðmlagið og setjast á bekkinn, þétt
saman svo minnir á elskendur.
Guðmundur: “Við höfum víst ekki sést síðan við
vorum ungir og kátir menn.”
Jón brosir, að þessum orðum eða hugsun sinni:
“Nú erum við einungis kátir.”
Þeir hlæja stórkarlalega en mistekst að fela óttann
við ellina eða eftirsjána eftir þeim tíma er þeir
voru ungir.
Við sem sitjum í myrkrinu og horfum á þá, vitum
að þeir eru fullir eftirsjár og að þeim þykir sárt að
vera “einungis kátir.”
Enn sára þykir þeim þó að draumar þeirra frá
þeim tíma er þeir voru “ungir og kátir” skuli ekki
hafa ræst. Eða þeir ekki haft kjark til að láta þá
rætast.
Guðmundur horfir á okkur, eins og hann lesi
hugsanir okkur: “Aðstæðurnar leyfðu það ekki.”
Jón horfir líka til okkar og kinkar ákaft kolli.
Annaðhvort til að sannfæra okkur eða sjálfan sig,
um að Guðmundur hafi rétt fyrir sér.
Jón: “En við erum sáttir, þrátt fyrir allt.”
Nú er það höfuð Guðmundar sem gengur í sífellu
upp og niður.
Við sem sitjum í myrkrinu og fylgjumst með
þeim látum sannfærast. Í bili. Sum okkar kinka
jafnvel kolli.
Þeir sitja talsverða stund á bekknum. Virðast
ræða saman en við heyrum ekki til þeirra. Þó
grunar okkur að þeir séu að rifja upp gömul
kynni, því andlit þeirra ljóma og við og við reka
þeir upp háværan, stórkarlalegan hlátur, líkan
þeim sem fyrr var getið.
Að því kemur þó að þeir virðast uppiskroppa með
umræðuefni og þagna.
Þegar þeir hafa setið þegjandi á bekknum
smástund fer Jón að ókyrrast. Hann stappar
hægra fæti í jörðina, hvort sem undir er gras,
malbik eða hellur. Ber hönd að höku sér og
strýkur. Hafi hann gleraugu er hugsanlegt að
hann lagfæri þau, ýti þeim lengra upp á nefið eða
taki þau jafnvel af sér og strjúki augun,
annaðhvort vegna kláða eða til að þurrka tár.
Guðmundur tekur eftir þessu óþóli Jóns: Jæja,
best að fara að rölta heim á leið, það tekur alltaf
góða stund.”
Hann brosir þvinguðu brosi. Rís á fætur. Réttir
Jóni, sem einnig er staðinn upp, höndina. Jón
tekur í hana, þéttingsfast og hristir ákaft.
Jón: “Jæja, gamli vinur, vertu nú margblessaður.”
Eins og þetta sé þeirra hinsta kveðja.
Þeir losa handtakið og halda áfram göngu sinni.
Guðmundur, sá skeggjaði, fer til vinstri, en Jón,
sá skegglausi, til hægri.
Þegar þeir eru horfnir kvikna ljósin og við, sem
höfum setið í myrkrinu og fylgst með gömlu
mönnunum, förum hvert í sína áttina.