Við ætluðum alltaf að kaupa okkur bát saman.
Litla trillu.
Þegar við vorum litlir höfðum við augastað á einni sem stóð lengi í fjörunni, þar sem trillukarlarnir settu báta sína upp fyrir veturinn.
Við snigluðumst oft í kringum hana. Strukum hana. Eins og við værum að gæla við hana.
Einn daginn var hún horfin.
Við vissum ekki hvað hafði orðið af henni.
Fyrr en á gamlárskvöld.
Þegar við stóðum við áramótabrennuna og horfðum á hana brenna upp, var eins og draumur okkar væri að brenna.
Hann brann þó ekki upp til agna.
Við sátum oft hér í eldhúsinu yfir kaffibolla, umluktir reyknum frá sígarettunni minni og pípunni þinni, og töluðum um að eignast trillu.
Lítinn bát sem við ættum sjálfir.
Og fara á skak.
Eða grásleppu.
Fundum aldrei neina trillu.
Sú eina sem við höfðum augastað á fór á áramótabrennuna forðum.
Myrkvuð ský
1
Mig er að dreyma!
Held ég.
Ég sit í hægindastólnum, sem ég fékk í afmælisgjöf fyrir löngu, hvíli fæturna á fótaskemlinum.
Stari út í loftið. Tel mér trú um að þetta sé draumur.
Að mig hafi dreymt þetta allt saman.
Sígarettan í hendinni er að brenna upp. Ég finn hitann frá henni á fingrunum.
Ég tek síðasta smókinn af henni, skola reyknum niður með hálfköldu kaffi úr stóra, rósótta
bollanum mínum. Hendi henni í öskubakkann á stofuborðinu. Legg bollann við hliðina á
öskubakkanum.
Klíp mig í handlegginn.
Vona að ég vakni. Hrökkvi upp af þessum andstyggilega draumi.
Þessari martröð.
Langar að vakna í rúminu mínu.
Eða kojunni.
Finna að allt er eins og það var.
Eins og það á að vera.
Ég klíp fast í handlegginn sem roðnar undan.
Það er sárt. Mjög sárt.
Þó er sárara að vakna ekki. Sannfærast um að þetta sé ekki draumur.
Vita að martröðin heldur áfram. Að ekki er hægt að vakna af henni.
Hendurnar falla máttvana niður á stólarmana og ég stari enn út í loftið.
Reyni að sannfæra mig um að þetta sé allt saman draumur.
Veit að það tekst ekki.
Mig er ekki að dreyma.
2
Þokast nær og nær myrku hyldýpi sem sogar mig til sín.
Ég stend við gímaldið.
Horfi niður.
Veit að falli ég ofan í það mun ég hrapa um alla eilífð.
Ég spyrni við fótum.
Reyni að streitast á móti.
Það er tilgangslaust.
Kraftur hyldýpisins myrka svo mikill að það sogar mig til sín.
Og ég kemst aldrei upp aftur.
3
Ég átti vin.
En hann er horfinn. Farinn og kemur ekki aftur.
Enginn hefur getað sagt mér hvers vegna.
Er ég sat við stórt skrifborð í hvítmáluðu herbergi, gegnt sálfræðingnum sem starði á mig eins og
hann reyndi að horfa inn í mig, þá spurði ég aftur og aftur:
Hvers vegna?
Hvers vegna?
Hann missti kjálkana niður á bringu og leit undan. Augu hans hvörfluðu að bókahillu við einn
vegginn. Eins og hann héldi að hann gæti fundið svarið þar.
Hann gat það ekki.
Hann leit til mín aftur. Starði á mig.
Ráðvilltur.
Lengi.
Eins og hann vissi ekki hverju hann ætti að svara.
Hann vissi það heldur ekki.
Ekki frekar en presturinn sem stóð við altarið og hélt ræðu til minningar um þig. Að baki hans altaristafla með mynd af Jesú gangandi á vatninu.
Ég vonaði að presturinn gæti svarað spurningu minni.
Hann gat það ekki.
Talaði aðeins um að „vegir guðs væru vissulega órannsakanlegir” og það væri svo margt sem við ekki skildum.
Ég hætti að spyrja.
Hætti að leita að ástæðum fyrir því að þú fórst frá mér.
Yfirgafst mig nóttina forðum.
Í storminum.
4
Siggi kokkur kemur í heimsókn.
Eina heimsóknin sem ég hef fengið lengi.
Veit ekki hvað langt er síðan einhver hefur heimsótt mig. Það gætu verið dagar, vikur, mánuðir.
Jafnvel ár.
Ég hef ekki hugmynd um það.
Hann gengur beint inn í eldhús og ég á eftir. Hann ætlar að setjast í stólinn þinn við eldhúsborðið.
Ég garga á hann. Segi honum að setjast annars staðar.
Hann horfir undrandi á mig meðan hann færir sig í stólinn við hliðina.
Segir samt ekkert.
Við fáum okkur kaffi. Svart. Bleksterkt.
Siggi kokkur hefur alltaf verið mikill kaffisvelgur. En núna drekkur hann ekki nema tvo og hálfan bolla. Segist ekki vera „rétt góður í maganum.”
Og reykir ekkert.
Ég spyr hvort hann sé hættur.
„Nei,” segir hann. „Ég gleymdi rettunum heima.”
Ég ota pakkanum mínum að honum, svo hann geti fengið sér eina.
Hann vill það ekki.
Segist reykja aðra tegund.
Hann er enn á sjónum og ætlar ekki að hætta strax.
„Kannski ef ég finn góða konu,” segir hann. „Eins og þú. Hún Lauga er fín. Er það ekki?”
Hann lítur kringum sig eins og hann leiti að henni.
Ég kinka kolli. Fæ mér sopa af kaffinu. Kveiki í annarri sígarettu.
„Maður kann svo sem ekkert annað. Getur ekkert annað.” Hann brosir. Er ánægður.
Ég hætti.
Gat ekki annað.
Hata hafið sem mér þótti áður svo vænt um.
Siggi segir að þeir sakni mín um borð.
„Ætlarðu ekki að koma aftur?”
Nei, ég fer aldrei á sjóinn aftur.
Get það ekki.
5
Við ætluðum alltaf að kaupa okkur bát saman.
Litla trillu.
Þegar við vorum litlir höfðum við augastað á einni sem stóð lengi í fjörunni, þar sem trillukarlarnir settu báta sína upp fyrir veturinn.
Við snigluðumst oft í kringum hana. Strukum hana. Eins og við værum að gæla við hana.
Einn daginn var hún horfin.
Við vissum ekki hvað hafði orðið af henni.
Fyrr en á gamlárskvöld.
Þegar við stóðum við áramótabrennuna og horfðum á hana brenna upp, var eins og draumur okkar væri að brenna.
Hann brann þó ekki upp til agna.
Við sátum oft hér í eldhúsinu yfir kaffibolla, umluktir reyknum frá sígarettunni minni og pípunni þinni, og töluðum um að eignast trillu.
Lítinn bát sem við ættum sjálfir.
Og fara á skak.
Eða grásleppu.
Fundum aldrei neina trillu.
Sú eina sem við höfðum augastað á fór á áramótabrennuna forðum.
6
Aftur og aftur hvarflar hugur minn til þín, þar sem þú liggur í kaldri og votri gröf þinni.
Þig langaði alltaf að komast niður og skoða hafið „að innan” eins og þú sagðir.
Nú ertu farinn þangað. Getur skoðað allt sem þig langar til þarna niðri.
Eftir sit ég í brúna leðurstólnum, sem þú gafst mér í afmælisgjöf, og hugur minn hvarflar aftur og aftur til þín.
7
Vildi að ég gæti stjórnað….
Að ég hefði stjórn á lífi mínu.
Eins og aðrir.
En ég hef það ekki.
Finnst sem einhverjir aðrir ráði mér og stjórni. Sendi að mér hugsanir sem þröngva sér inn í höfuð mitt.
Þær breiða smátt og smátt úr sér. Leggja allan líkama minn undir sig.
Ná valdi á mér.
Ég hlýði þeim.
Get ekki annað.
8
Langar að halda á eftir þér, vinur.
Leita að þér.
Finna þig.
Fylgja þér.
Stundum geng ég fram á brúnina. Stend kyrr og hlusta á brimið ólmast í fjörunni langt fyrir neðan.
Fuglarnir garga yfir höfði mínu. Eins og þeir vilji reka mig á brott.
Ég stend kyrr. Finn mjúkt grasið undir fótunum.
Stend kyrr og horfi á bátana líða um hafflötinn.
Stígi ég skrefi lengra flýg ég til þín.
Andvarinn mun lyfta mér til flugs, eins og fuglunum, og ég get flogið til þín.
En ég stíg ævinlega til baka.
Geng í mjúku grasinu frá brúninni.
Frá þér.
9
Fætur mínir sem brauðfætur. Þeir bera mig ekki.
Get rétt staulast inn í svefnherbergi og kastað mér upp í rúm, áður en þeir hrynja undan mér.
Teygi mig í sígaretturnar á náttborðinu. Kveiki í.
Reyki.
Fyrst eina.
Svo aðra og aðra.
Vona að ég geti reykt mig í hel sem fyrst.
Fyrir utan gluggann gnauðar vindurinn. Ég heyri hann hvína. Líkt og hann banki á gluggann og vonast til að sér verði hleypt inn.
Ég vil ekki fá heimsókn í dag.
Þykk gluggatjöldin dregin fyrir, svo herbergið er rökkvað.
Næstum myrkt.
Ég veit ekki hvort er dagur eða nótt.
Laugardagur eða miðvikudagur.
Janúar eða júlí.
Og mér er sama.
Alveg sama.
10
Stend við stiga og horfi upp í myrkt gímald. Virði fyrir mér tréþrepin sem greinilega hafa verið mikið notuð.
Velti fyrir mér hvað leynist þarna uppi.
Mig langar að ganga upp og athuga en óttast það sem hugsanlega leynist í myrku gímaldinu.
Óttast að fari ég upp muni ég aldrei komast niður.
Sannfærður um að ég hverfi inn í myrkt völundarhús, sem ekki er hægt að komast útúr.
Völundarhús myrkursins sem lokast hægt og hægt utanum mig.
Þar til ég kremst.
11
Að mér flykkjast myrkvuð ský.
Ég horfi á þau rífa sig laus frá skýjaflóka á himni. Taka stefnuna á gluggann minn og smeygja sér inn þó hann sé lokaður og glerið tvöfalt.
Það dimmir enn meira í litlu stofunni minni.
Ég sit stjarfur í leðurstólnum. Fylgist með myrkvuðu skýjunum flykkjast að mér.
Hnita þrengri og þrengri hringi um höfuð mitt og þrýsta að.
Þrýsta eins og fastreyrður trefill.
12
Man, rifja upp, að stundum þegar þér fannst sem allir hefðu yfirgefið þig og þú varst einn, þá
komstu til mín.
Settist ýmist við eldhúsborðið eða í stofuna. Sötraðir kaffi úr litlum bolla.
Talaðir við mig.
Ég hlustaði.
Yfirgaf þig aldrei. Fór aldrei frá þér.
Þú fórst.
Yfirgafst mig.
13
Finnst ég vera týndur.
Langar að finna mig aftur.
Er bara ekki viss um hvort það sé hægt.
Held að ég sé svo rækilega týndur að ekki sé nokkur von til þess að ég finnist.
Veit heldur ekki hvar ég á að leita.
14
Ég vildi að ég væri sterkur.
Svo sterkur að ég gæti brotið þykka eikarhurðina og gengið út.
Losnað héðan.
Ég vildi að ég væri sterkur.
Svo sterkur að ég gæti rifið niður steinsteypta vegginn. Stigið yfir brotin og gengið út um gatið.
Losnað héðan.
Komist burt.
Langt, langt burt.
Þangað sem hvorki finnast dyr né veggir, sem loka mann inni. Halda manni föstum.
Vildi að ég væri sterkur.
Svo sterkur að ég gæti farið með hönd mína inn í höfuðið og rifið út allar hugsanirnar sem herja á huga minn.
15
Vaki. Get ekki sofið. Bylti mér endalaust í rúminu. Verlaus sængin öll komin í kuðl.
Lít á klukkuna sem tifar hátt á náttborðinu.
Tifar endalaust.
Rís upp. Hljóðlega.
Vil ekki vekja Laugu sem sefur vært við hlið mér.
Fer fram.
Kveiki ekki. Rata í leðurstólinn í myrkrinu. Teygi mig í sígaretturnar á stofuborðinu.
Kveiki í.
Reyki.
Sígarettuglóðin glitrar í myrkrinu. Reykurinn liðast um stofuna. Hverfur út í myrkrið.
Hugsa um svefnpillurnar sem geðlæknirinn lét mig hafa. Annað gat hann ekki gert fyrir mig.
Ég veit hvar þær eru og hvað þær geta gert.
Hendi sígarettunni hálfreyktri í öskubakkann. Rís upp úr stólnum. Það brakar hátt í leðrinu og andartak óttast ég að Lauga vakni.
Hún gerir það ekki.
Geng inn í eldhús. Opna skápinn þar sem svefntöflurnar eru.
Skrúfa frá krananum.
Tek tvær töflur úr glasinu. Skola þeim niður með vatni.
Vona að þær dugi.
Til að sofna.
16
Helli á kaffi. Set tvo bolla á borðið.
Eins og þú hafir brugðið þér frá.
Andartak.
Kannski skotist út í búð eftir mjólk í kaffið.
Eða værir væntanlegur á hverri stundu.
Eins og þú hefðir hringt og boðað komu þína og ég vildi hafa kaffið tilbúið.
En þú kemur ekki.
Bollinn stendur óhreyfður á borðinu og kaffið í honum kólnar.
Ég sit á kollinum. Hvíli olnbogana á vaxdúknum og drekk úr bollanum mínum, með rósótta
mynstrinu.
Augu mín föst við bollann þinn. Horfi á drykkinn svarta kólna í honum. Sé hvernig smátt og smátt hættir að rjúka úr honum.
17
Við ólumst upp við hafið. Vöknuðum til þess á morgnana, lékum okkur við það á daginn og
sofnuðum útfrá því á kvöldin.
Sátum á stóra steininum í fjörunni.
Hlustuðum á sjávarniðinn. Veltum fyrir okkur hvort hafið yrði aldrei þreytt á að berja alltaf á sömu steinunum í fjöruborðinu.
Ár eftir ár.
Fylgdumst með bátunum sigla inn og út úr höfninni. Töluðum við karlana sem stundum gáfu okkur fisk.
Hafið.
Ég hélt alltaf að það væri vinur okkar.
Við vorum vinir þess.
Það sveik okkur.
Báða.
18
Ég sekk.
Sekk í botnlaust dýpi. Líkt og steinn sem varpað er í vatn.
Líkt og þú er þú flaugst útbyrðis með netinu sem vafðist um ökla þinn.
Ég gat ekkert gert.
Ég sekk.
Sekk endalaust í botnlaust hýldýpið og kemst aldrei upp aftur.
19
Lauga stendur í dyrunum. Horfir á mig stingandi augnaráði þar sem ég ligg í rúminu og stari upp í loftið.
Hún er í svarta leðurjakkanum sínum. Hárið fellur niður á axlirnar.
Í annarri hendi heldur hún á ferðatösku.
„Ég er farin!” segir hún. „Þetta er ekki hægt.”
„Jæja,” segi ég áhugalaus, reisi mig upp í rúminu og teygi mig í sígarettu.
Hún lokar um leið og ég kveiki í.
Ég lygni aftur augunum, soga reykinn djúpt að mér og heyri útidyrnar skellast á hæla henni.
Þegar ég kem fram sé ég að hún hefur tekið allt sitt dót. Ekki skilið neitt eftir.
Ég veit að hún er farin og kemur ekki aftur.
Aldrei.
20
Mér er illt.
Mér er illt í hjartanu.
Brjóst mitt er galopið.
Og í hjartastað stendur hnífur sem snúið er hægt.
Hægt.
21
Hár og grannur sálfræðingurinn sem situr gegnt mér við stórt skrifborð í hvítmáluðu herbergi, segir að ég verði að rífa mig upp. Ég megi ekki sökkva dýpra.
Ég sit í óþægilegum tréstól með tágasetu og horfi undrandi á hann.
Segi að mig langi að sökkva til botns. Eins djúpt og ég kemst og koma aldrei upp aftur. Grafa mér holu á botninum og hreiðra um mig.
Dvelja þar til eilífðar.
Hann hlustar ekki.
Stendur upp meðan ég tala, gengur að glugganum og dregur hvíta rimlagardínu frá. Sest í stólinn sinn á ný og endurtekur að ég verði að rífa mig upp, að ég megi ekki sökkva svona djúpt.
Hann hlustar ekki.
Vill ekki heyra það sem ég hef að segja.
Ég rís á fætur og geng út.
Finn augnaráð hans á bakinu.
Hann hlustar ekki.
22
Heyri bíl renna hjá fyrir utan gluggann.
Langar að fara út og stilla mér upp á miðri götunni.
Finna bílinn skella á líkama mínum.
Keyra yfir mig.
23
Afhverju fórstu án mín?
Er ég horfði á eftir þér fljúga útbyrðis öskraði ég á þig.
Bað þig að koma aftur.
Þú heyrðir ekki í mér fyrir stormbeljandanum.
Ég gat ekkert gert.
Stóð bara á dekkinu og fann storminn æða um andlitið og sjávarlöðrið ganga yfir mig.
Ég öskraði.
Reyndi að öskra þig til baka.
Það tókst ekki.
Og þú fórst.
Hvarfst í háar öldurnar. Þær gleyptu þig og skila þér aldrei aftur.
24
Ligg á botni djúprar og myrkrar holu. Veit af stiga sem liggur upp. Sé hann glitra í myrkrinu. En í honum eru engin þrep.
Ég reyni að klifra upp eftir honum.
Það tekst ekki.
Þetta er eins og þegar ég var í sveitinni hjá Kidda frænda í gamla daga.
Krakkarnir sendu mig niður í gryfju til að ná í eitthvað sem þau sögðust hafa gleymt.
Ég fikraði mig niður tréstigann. Alveg niður á botn. Um leið og ég var kominn niður horfði ég á stigann hverfa. Þau drógu hann upp. Lokuðu dyrunum.
Skildu mig einan eftir í djúpri og myrkri gryfjunni.
Ég komst ekki upp fyrr en Kiddi frændi kom og opnaði. Lét stigann síga niður til mín.
Ekki veit ég hver getur látið stiga með þrepum síga niður til mín, svo ég komist upp úr djúpri og myrkri holunni.
25
Frá því ég man eftir mér hef ég búið við hafið.
Sjávarniðurinn vakti mig á morgnana og svæfði mig á kvöldin.
Það fyrsta sem ég sá er ég leit út um gluggann minn á morgnana var hafið. Mér fannst það alltaf heilsa mér.
Bjóða mér góðan daginn.
Bjóða mér einnig góða nótt á kvöldin og svæfa mig.
Þannig var það.
Þannig er það ekki lengur.
Nú get ég ekki sofnað fyrir hávaðanum í hafinu.
Það hefur breyst úr vini í stórt öskrandi skrímsli sem nýtur þess að halda fyrir mér vöku.
En hávaðinn í hafinu er ekki eingöngu fyrir utan gluggann minn.
Heldur hefur hann þrengt sér inn í húsið.
Inn í mig.
Þar rís hann og hnígur endalaust með hljóðum sem tæta hlustir mínar og halda fyrir mér vöku heilu næturnar.
26
Stór, loðinn hrammur, líkt og bjarndýrshrammur, leggst á höfuð mitt.
Hann strýkur yfir ljóst hárið og rennur niður hnakkann.
Á hálsinn.
Ég óttast að hann herði að.
Læsi klónum í háls minn. Finn fyrir þeim hárbeittum klóra hörundið.
Ég óttast.
En hrammurinn hverfur jafn skyndilega og hann kom.
Ég sit eftir með óttann og rauðar rákir á hálsinum.
27
Geng framhjá húsi þínu. Sé ekki betur en það sé hnípið.
Líkt og höfuð þess hangi niður á bringu.
Að það hafi ekki kraft til að horfa beint fram eða líta til himins.
Eins og það var vant.
Niður veggi þess streyma stór og þung tár.
Vatnsdropar sem glitra og glóa í sólskininu.
Ég veit að það hugsar um þig.
Það saknar þín.
Eins og ég.
28
Enn einu sinni þrengir sólin sér inn gegnum rifu á gluggatjöldunum og slær mig svo harkalega utanundir að ég hrekk upp af léttum svefninum, sem ég er búinn að eltast við alla nóttina.
Ég get varla beiðið eftir að sólin hverfi og nóttin komi á ný.
Vona að ég nái þá fyrr í skottið á svefninum og geti haldið mér fast í það.
Efast reyndar um að það takist.
29
Það er eins og við höfum aldrei kynnst.
Bara þekkst.
Alltaf.
Eins og einn daginn hafi ég gengið út á götu eða niður í fjöru, hitt þig og þekkt þig.
Vitað allt um þig.
Og þú um mig.
Kannski kynntumst við einhverntíma. En ég man ekki eftir því.
Mér finnst sem við höfum aldrei kynnst.
Bara þekkst.
Ég man ekki eftir mér án þess að hafa þekkt þig.
30
Dyrnar lokaðar.
Einu tengslin við það sem fyrir utan er.
Stend stundum fyrir innan dyrnar og horfi út.
Fylgist með fólkinu sem gengur hjá án þess að vita af mér.
Horfi á sólina líða um himininn. Mjaka sér örhægt áfram og senda mismunandi birtu á rúðurnar mörgu og litlu í hurðinni sem alltaf er lokuð.
Og hugsanlega læst.
31
Ég er einn.
Lauga er farin.
Ég lái henni það ekki.
Það hefði ég líka gert í hennar sporum.
Hún er farin og kemur aldrei aftur.
Hún mun ekki framar liggja við hlið mína í rúminu.
Strjúka yfir ljósan koll minn.
Hún tók allt sitt.
Allt sem tilheyrði henni.
Það er ekkert hér lengur sem minnir á hana.
Eins og hún hafi aldrei verið hér. Hjá mér.
Hún er farin.
Ég undrast mest hvað hún þoldi lengi við.
Ég hefði ekki getað verið svona lengi.
Hefði verið löngu farinn.
Hugsanlega fer ég líka.
Þegar ég þoli ekki lengur við þá fer ég
Það gerði hún.
32
Minningarnar spretta upp úr leyndum skotum hugans.
Staldra við andartak.
Krefjast skoðunar.
Ég velti þeim á alla kanta. Tek þær upp eina af annarri og skoða eins vel og mér er unnt.
Smátt og smátt dofna þær.
Ég reyni að halda þeim í lófa mínum. Kreppi hnefann utanum þær.
Vona að þær hverfi ekki alveg.
Er ég opna lófann á ný eru þær horfnar. Farnar eins og þær hafi aldrei verið.
Eftir er aðeins dauft ljós.
Skíma.
Eða bergmál af einhverju sem var.
Einhverju sem er farið og kemur ekki aftur.
Daufur ómur sem lækkar stöðugt og ég hleyp herbergi úr herbergi til að reyna að greina hann.
Næ honum aldrei.
Hann hverfur.
Slokknar.
Deyr út.
Eins og þú sem hvarfst.
33
Sátum á túninu aftan við gömlu hvítmáluðu timburkirkjuna. Krossinn á turninum teygði sig til himins. Eins og hann væri á leið upp í himnaríki.
Hölluðum okkur upp að kirkjugarðsveggnum. Slitum upp strá sem við stungum upp í okkur og tuggðum.
Horfðum út á fjörðinn.
Á hafið sem bjó yfir svo mörgum leyndarmálum.
Þráðum að kynnast hafinu.
Finna hvernig það er að láta það vagga sér til og frá. Sjá hvað hægt væri að draga upp úr djúpum þess.
Glíma við það.
Uppgötva leyndarmál þess.
Við vorum sannfærðir um að þau myndu ljúkast upp fyrir okkur um leið og við færum á sjóinn.
Héldum að við gætum lesið öll leyndarmál hafsins eins og bók.
Við gátum það ekki.
Hafið býr enn yfir jafnmörgum leyndarmálum og þegar við sátum á túninu aftan við kirkjuna og horfðum á það.
34
Að mér steðja sífelldar ógnir.
Rísa upp úr fylgsni sínu og gera hverja grimmilegu árásina á fætur annarri.
Jafnt að nóttu sem degi koma þær og herja á mig.
Ég fæ ekkert að gert.
Mig langar að finna fylgsni þeirra. Bera eld að því og brenna það til kaldra kola.
Veit bara ekki hvar ég á að leita.
Sálfræðingurinn við skrifborðið stóra, segir að ég skuli „ekki hafa áhyggjur” þetta lagist.
Ógnirnar, sem sífellt sækja að mér, hverfi. Gufi bara upp.
„Einn daginn þegar þú vaknar,” segir hann „verða þær farnar, horfnar og þér finnst sem þær hafi aldrei verið. Þannig er þetta alltaf.”
Hann brosir.
Eins og sá sem veit allt um ógnirnar sem herja í sífellu á mig.
En hann veit ekkert.
Og ég trúi honum ekki.
35
Ávallt er ég fletti dagblöðunum og renni augunum yfir minningargreinarnar, velti ég fyrir mér hvort og hvernig verði skrifað um mig.
Og hverjir munu gera það?
Kannski Lauga.
Siggi kokkur gæti hugsanlega rifjað upp þann tíma þegar ég var með honum á sjónum.
Verst að þú ert farinn.
Þú hefðir örugglega skrifað minningarorð um mig.
Eins og ég skrifaði um þig.
Óvíst að um mig verði skrifað.
Það veit hvort sem er enginn að ég lifi
Og hví ætti þá einhver að kæra sig um að vita af mér þegar ég hætti að lifa?
Hverf héðan.
Eins og þú.
36
„Djöfull er að sjá þig maður!”
Er úti í sjoppu að kaupa sígarettur.
Siggi kokkur stendur við hlið mína. Rær fram og aftur eins og hann sé úti á sjó og stigi öldurnar.
„Þú ert að hríðfalla, drengur!”
Siggi er líka að kaupa sígarettur.
Hann er alltaf jafn pattaralegur.
Lítill og þéttur.
En ég að hríðfalla.
Vonandi fell ég sem fyrst.
37
Þú ert horfinn á vit djúprar ævarandi þagnar, sagði presturinn í kirkjunni.
Þagnar sem lykur um þig í kaldri og votri gröf.
Ég sit einn í þögninni sem þú skildir eftir.
Ég man þögnina sem fylgdi orðum þínum.
Vissi að hún yrði rofin fyrr eða síðar.
Þögnin sem þú skildir eftir verður aldrei rofin.
Hún fylgir mér alltaf. Hvert sem ég fer.
Ég kemst ekki undan henni.
Þó presturinn hafi sagt að „alltaf kæmi maður í manns stað” og brátt hyrfi þögnin sem þú skildir eftir.
Hún gerir það ekki.
Hún fylgir mér.
Ávallt.
Hún hverfur aldrei.
Hún er of djúp og hávær.
38
Kannski ætti ég að fara líka?
Hugsa stöðugt um það meðan stari út um gluggann. Á hafið sem er stillt og slétt núna en getur fyrr en varir rokið upp eins og skapbráður maður.
Það er engin önnur leið.
Ég þrái aðeins svefn.
Langar að leggjast niður og sofna.
Sofa.
Vakna aldrei.
Gæti farið niður í sandfjöruna. Lagst í sandinn og sofnað.
Sofið þar til eilífðar.
Smátt og smátt mun ég grafst í mjúkan sandinn.
Hverfa inn í hann.
39
Lauga skildi ísskápinn eftir fullan af mat.
Samt hríðfell ég.
Það segir Siggi kokkur.
Ég er klaufi að elda. Kann það varla.
Langar heldur ekki til þess.
Lauga er góður kokkur.
Hún eldar ekki framar fyrir mig. Hún er farin og ísskápurinn er fullur af mat, sem skemmist smátt og smátt.
Opnar líklega ísskápinn brátt og æðir að mér.
Fellir mig endanlega.
40
Ligg í rúminu.
Reyki.
Askan fellur á sængina. Liggur þar grá á hvítu sængurverinu.
Rifja upp.
Líf sem ég veit ekki hvort hefur verið lifað. Eða hver lifði því.
Hef þó óljósan grun um að ég hafi lifað því sjálfur.
Finnst sem þetta séu mínar eigin minningar.
Mitt líf.
Sígarettan brennur upp. Ég hendi henni í yfirfullan öskubakkann.
Veit ekki hvort hún lendir í honum eða á borðinu.
Kannski fellur hún á gólfið og glóðin læsir sig í slitin gólfborðin. Verður að eldi sem magnast og teygir sig í rúmið.
Sængina.
Mig.
Þá þarf ég ekki lengur að velta fyrir mér lífi sem ég efast um að hafi verið lifað.
41
Fundum tóma olíubrúsa úr málmi. Fórum með þá heim til þín og niður í kjallara.
Klipptum þá í tvennt. Gerðum úr þeim báta. Negldum spýtu í miðjuna eins og þóftu. Bundum band í hana.
Fórum niður í fjöru. Settum steina í bátana til að halda þeim stöðugum. Ýttum þeim á flot og
drógum með.
Vorum að æfa okkur áður en við færum á sjóinn sjálfir.
Við fætur okkar ólmaðist hafið. Skvettist á strigaskóna okkar.
Rennbleytti þá.
Okkur var sama.
Við vorum á sjónum.
42
Með hverju skrefi þokast ég lengra og lengra inn í myrkrið.
Eins og ég gangi niður langan og þröngan stiga. Niður í lest.
Og báturinn hendist til svo ég má hafa mig allan við að detta ekki niður.
Myrkrið þéttist eftir því sem ég kem neðar í lestina sem virðist óendanlega stór og djúp.
Líkt og ég sé kominn mörg hundruð metra undir sjávarmál.
Dagsbirtan fyrir ofan minnkar sífellt.
Myrkrið lokar mig inni svo ég sé ekki glætu.
43
Er ég vakna eftir langa og svefnlitla nóttina, bíða skelfingarnar mín.
Og óttinn sem svaf aðeins örlítinn blund, rís upp og ræðst að mér á ný.
Stærri og sterkari en nokkru sinni fyrr.
Hann rís upp úr fleti sínu um leið og ég opna augun. Stendur yfir mér.
Yfirgnæfandi.
Ógnvekjandi.
Andartak.
En kastar sér svo yfir mig.
Ræðst á mig.
Nær á mér heljartökum og heldur þeim allt til kvölds.
44
Eftir að þú varst farinn stóð ég einn eftir við borðstokkinn.
Horfði á hafið. Öldurnar sem risu og hnigu. Brotnuðu á bátnum.
Ég leitaði að þér í sjónum. Vonaðist til að sjá koll þinn skjótast upp úr öldurótinu.
Hönd þína veifa til mín.
En ég sá þig hvergi.
Sá ekkert nema myrkar öldurnar.
Dökkt og grimmilegt hafið.
Þú varst farinn.
Ég vissi það.
Vildi samt ekki trúa því.
Hélt í vonina um að þú hefðir komist í annan bát eða jafnvel synt til lands.
Ég vildi trúa því.
Vissi varla af mér fyrr en ég vaknaði hérna í rúminu mínu.
Rámar þó í að hafa farið í land og verið leiddur inn í lögreglubíl.
Lauga sat við rúmstokkinn. Hélt í aðra hönd mína. Þegar hún sá að ég opnaði augun hallaði hún sér fram svo hárið kitlaði mig næstum í andlitið.
Ég hélt að þetta hefði allt saman verið draumur.
Vonaði það.
Spurði Laugu hvort mig hefði verið að dreyma.
Hún leit undan. Eins og hún gæti hvorki né vildi svara.
Ég spurði aftur.
Að lokum hristi hún hausinn örlítið og hvíslaði næstum: „Nei, þig var ekki að dreyma.”
45
Það hringir aldrei neinn.
Það kemur aldrei neinn.
Fæ ekki einu sinni bréf.
Hversu langt er síðan ég hef heyrt skellinn í bréfalúgunni og séð móta fyrir bréfberanum sem ýtir umslagi með nafni mínu utaná, innum bréfalúguna?
Það er orðið svo langt síðan ég hef heyrt hvella hringinguna í símanum að ég efast um að ég þekki hana lengur.
Gæti haldið að það væri vekjaraklukkan eða reykskynjarinn og ekki hreyft mig.
Dyrabjallan er örugglega orðin föst af notkunarleysi.
Þekki ég engan sem getur hugsað sér að koma eða hringja í mig?
Mamma. Pabbi.
Hvenær heyrði ég síðast frá þeim?
Ætli hún gangi enn um húsið með rósóttu, rauðu og hvítu svuntuna og á háhæluðu skónum?
Og hann stöðugt að taka af sér gleraugun, strjúka yfir grátt skeggið og setja þau upp aftur.
Eru þau á lífi?
Er ég á lífi?
46
Sátum á stóra steininum í fjörunni. Hátt yfir höfði okkar skein sólin. Sendi geisla sína niður til
okkar. Baðaði okkur.
Spegilslétt hafið glitraði.
Fuglarnir svifu allt í kringum okkur. Steyptu sér niður að okkur.
Eins og þeir ætluðu að ráðast á okkur.
Við töluðum um hafið.
Alla fiskana sem við ætluðum að veiða.
Öll þau furðudýr sem við héldum að við myndum draga úr hafinu.
Töluðum um hafið sem tók þig og dró þig niður til fiskanna og allra furðudýranna sem við veiddum aldrei.
47
Klöngrast um stórgrýtið.
Kem að grasbala og ánni sem rennur um hlíðina.
Krýp á bökkum hennar.
Sting höndunum í kalt vatnið.
Finn strauminn leika um þær.
Beygi mig niður og sting höfðinu ofan í vatnið.
Eins djúpt og það kemst.
Og mig langar að halda því þar.
48
Við, þú og ég, lyftumst upp.
Líkt og við hefðum vængi og svifum yfir þögul og hljóðlát vötnin.
Horfðum á þau langt fyrir neðan.
Sáum hávært öskrandi hafið sem brotnaði á skerjum.
Hafið sem hrifsaði þig til sín.
49
Báturinn var varla kominn út úr höfninni í fyrsta túrnum okkar þegar við fórum að finna til
óþæginda í maganum.
Héldum að veltingurinn myndi þrýsta maganum upp úr okkur og hann gæti hangið út úr munninum á okkur.
Gömlu jaxlarnir gerðu grín að okkur. Spurðu „hvurslags aumingjar” við eiginlega værum.
„Drullusjóveikir á sléttum sjó.”
Okkur fannst þetta ekki vera sléttur sjór.
Við höfðum rangt fyrir okkur. Áttum eftir að komast að því. Þegar við lentum í stormum og óveðri
„Þið endist ekki lengi,” sögðu jaxlarnir gömlu.
Orð þeirra stöppuðu einungis stálinu í okkur og við vorum ákveðnir í að sýna þessum körlum að við gætum þetta alveg.
Eins og þeir sjálfir.
Við vorum reknir áfram í fyrsta túrnum.
Urðum að vinna. Eins og aðrir.
Stóðum á dekkinu með hnífa í höndunum og gerðum að.
Köstuðum okkur að borðstokknum til að æla.
Heyrðum hláturinn í þeim gömlu hljóma í eyrum okkar.
Okkur datt samt ekki í hug að hætta.
Það kom aldrei til greina.
50
Lauga var þín áður en hún varð mín.
Við hittum hana á skemmtistað einu sinni er við vorum í landi.
Hún kom auga á þig og sveif til þín.
Heilsaði og rifjaði upp gömul kynni.
Þið voruð hætt saman.
Við þekktumst lítillega.
Ég og hún.
Síðan þið voruð saman.
Við dönsuðum. Lengi.
Þú fórst heim með annarri.
En við, ég og Lauga, fórum heim.
Sváfum saman.
Nú er hún farin og kemur ekki aftur.
Aldrei.
51
Nóttin var myrk.
Ljósin uppi í mastri lýstu niður á dekkið svo við sáum hvað við vorum að gera.
Öldurnar ólmuðust við skipsskrokkinn. Sendu löður sitt yfir okkur.
Við máttum hafa okkur alla við að standa í fæturna.
Þú stóðst fyrir framan og fylgdist með netinu renna út.
Ég stóð fyrir aftan og fylgdist með.
Ég sá þig flækjast í netinu.
Fljúga útbyrðis.
Hverfa.
Ljósunum var beint að sjónum en þú varst horfinn.
Hvarfst og sást ekki meir.
52
Minningarnar svífa að mér.
Líkt og þær komi fljúgandi utan úr tóminu og sveimi kringum mig áður en þær skjótast inn í koll minn og taka sér bólfestu þar.
Minningar sem ég vissi ekki að væru til.
Né hverjum tilheyra.
Ég veit ekki hvort þetta eru mínar minningar eða einhvers annars.
Stundum held ég að einhver hafi búið þær til og sent mér.
Þær taka sér bólfestu í mér.
Reyna að sannfæra mig um að ég hafi lifað þær.
Fyrir löngu.
Ég get samt ekki verið viss um að þessar minningar, sem stöðugt herja á huga minn séu mínar eigin.
53
Ég er brotinn. Í marga parta.
Brotin liggja um öll gólf. Eins og glervasi hafi dottið niður úr hillu og brot hans dreifst um allt.
Ég geng milli brotanna. Beygi mig niður. Tek eitt upp. Lyfti því varlega í lófa mínum. Líkt og ég sé hræddur um að missa það. Brjóta það í enn smærri brot.
Skoða það.
Tek upp fleiri.
Reyni að setja þau saman.
Þau passa ekki.
Hvernig sem ég reyni að raða brotum mínum saman passa þau alls ekki.
Efast um að hægt verði að púsla mér saman aftur.
Ætti kannski að sópa þeim saman og henda þeim í ruslið.
Þau eru hvort sem er gagnslaus.
54
Er ég stóð á dekkinu í myrkrinu, baðaður sterku vinnuljósinu í mastrinu og horfði á eftir þér fljúga útbyrðis, hverfa, var engu líkara en myrkvuð ský kæmu æðandi að mér og smeygðu sér inn í mig.
Fylltu mig af myrkri svo nú finnst hvergi ljósgæta í líkama mínum.
Aðeins myrkur.
Myrkur sem hefur heltekið alla tilveru mína.
55
Þétt grasið vafðist um fætur okkar er við gengum um hlíðina í átt að tindinum sem gnæfði upp úr skýjunum. Reyndi að halda okkur föstum.
Við rifum okkur lausa og héldum göngunni áfram.
Ætluðum okkur á tindinn.
Náðum honum þó aldrei.
Það var engu líkara en hann þokaðist sífellt lengra og lengra frá okkur. Takmarkið varð alltaf
fjarlægara og fjarlægara.
Við tylltum okkur á stein í miðri hlíðinni. Horfðum löngunaraugum á tindinn í fjarska.
Hristum höfuðið svo til samtímis og héldum til baka.
Gáfumst upp í þetta skiptið.
Létum okkur dreyma um að ná tindinum síðar.
Það síðar kom aldrei.
56
Við vorum ekki háir í loftinu þegar við fórum að angra skipstjórana. Gengum á milli þeirra og
spurðum hvort þeir vildu taka okkur.
Þeir brostu að okkur og hristu höfuðið. Sögðu okkur að bíða nokkur ár enn og tala þá við sig aftur.
Við biðum.
Höfðum nógan tíma.
Töluðum við þá aftur.
Allir hlógu og þverneituðu okkur um pláss.
Aðeins einn sagðist skyldu taka okkur þegar við værum orðnir aðeins eldri.
Við þurftum að bíða enn.
Þegar okkur fannst við vera orðnir nógu gamlir fórum við til hans og spurðum enn.
Skipstjórinn, maður á miðjum aldri með svart skegg og gleraugu, horfði talsverða stund á okkur.
Eins og hann væri að mæla okkur út.
„Ég var víst búinn að lofa ykkur plássi,” sagði hann svo. „Mér sýnist þið vera orðnir nógu stórir.”
Við fórum í næsta túr.
57
Stundum langar mig að láta glóð sígarettunnar falla á sængina.
Leyfa henni að vera þar í friði. Liggja undir sænginni og horfa á glóðina magnast.
Verða að loga.
Loka augunum og finna hitann verða meiri og meiri.
Vita að fyrr eða síðar læsast logarnir um mig.
Brenna mig.
Mig langar…
58
Gengum niður í fjöru.
Stóðum í fjöruborðinu.
Fundum kaldan sjóinn á berum fótunum. Eins og hann gældi við tær okkar.
Horfðum á brimið brotna á skerinu fyrir utan.
Þú sagðir mér sögu af litlum árabát sem steytti einu sinni á þessu skeri.
Sat þar fastur.
Mennirnir þrír sem voru um borð náðu ekki til lands, þó stutt væri.
Þeir brotnuðu niður með bátnum.
Fuglarnir breiddu út vængi sína, sneru baki í þig og lyftu sér til flugs.
Svifu burt frá þér.
Frá okkur.
Eins og þú flaugst frá mér.
59
Ég fer út.
Geng stefnulaust.
Tek ekki eftir neinu í kringum mig.
Hrekk upp við bílflaut.
Lít við og sé stóran flutningabíl koma æðandi á móti mér.
Stend á miðri götunni og horfi á hann nálgast.
Hann æðir í átt til mín.
Reiður bílstjórinn steytir að mér hnefa og öskrar á mig.
Spyr hverslags helvítis asni ég sé að standa svona á miðri götunni.
Hvort ég ætli að drepa mig.
Mér er alveg sama hvað hann segir.
Ég geng áfram.
Stefnulaust.
Helst sem lengst.
Eins og ég geti gengið burt frá sjálfum mér.
60
Ég er þreyttur. Óskaplega þreyttur.
Langar að liggja í rúminu, horfa upp í hvítt loftið, pakka mér vandlega inn í sængina mína, og hvíla mig.
Lengi.
Helst aldrei að rísa á fætur aftur.
Liggja endalaust í rúminu.
Hvíla mig á sjálfum mér.
61
Ég fór einn túr eftir að þú fórst.
Gat ekki meir.
Svaf varla og martraðir sóttu að mér þá stuttu stund sem ég náði að blunda.
Var einn á dekkinu þegar verið var að leggja. Stóð í miðri trossunni og netið vafðist um fótinn á mér. Skarst djúpt í holdið.
Ég dróst út með netinu.
Eins og þú.
Fann hafið lykjast um mig.
Sökk dýpra og dýpra.
Hrökk upp rennblautur.
Eins og ég hefði raunverulega sokkið til botns.
Og var helaumur í ökklanum.
Við minnstu hreyfingu dallsins fannst mér sem hann ætlaði að leggjast á hliðina. Eða fara alveg á hvolf.
Ég var allan túrinn sannfærður um að við myndum allir farast.
Hverfa í hafið.
Týnast.
Eins og þú.
Ég hætti eftir þennan túr.
Gat ekki meir.
Og fer aldrei aftur á sjóinn.
62
Stend upp úr leðurstólnum.
Fer inn í eldhús.
Helli kaffi í bollann minn.
Geng með hann að eldhúsglugganum.
Horfi út.
Lít til himins.
Af gömlum vana. Eins og ég sé að gá til veðurs.
Sé aðeins hóp fugla er myrkva útsýnið til himna. Svo ég sé ekki skýjafarið.
Mér er líka sama hvernig veðrið er.
Það skiptir mig engu máli lengur.
63
Eitt sinn hélt ég að svefninn færði mér frið.
En það er liðin tíð.
Í hvert sinn sem ég festi svefn, þó ekki sé nema skamma stund, finn ég saltan sjóinn steypast yfir mig og ég sekk til botns.
Kemst ekki upp.
Eins og einhver togi mig niður.
Sjórinn umlykur mig.
Þrýstir sér að mér og inn í mig. Smeygir sér allsstaðar.
Hrekk upp með saltbragð á vörum.
Sængin í kuðli úti á gólfi.
Verð að þamba vatn og reykja til að losna við saltbragðið.
Finn þó keiminn af því lengi á eftir.
64
Fyrir utan gluggann minn leika sér tvö börn. Áhyggjulaus.
Hróp þeirra og köll berast inn til mín þar sem ég ligg í rúminu undir glugganum.
Þau eru glöð og ánægð.
Eins og við vorum þegar við vorum litlir og lékum okkur saman.
Vildi að við værum enn litlir og gætum leikið okkur saman hér fyrir utan og það væri einhver annar sem lægi í rúminu og hlustaði á okkur.
En það er ég sem ligg hérna og hlusta á börnin leika sér fyrir utan gluggann.
65
Ég fell.
Hríðfell.
Það segir Siggi kokkur sem alltaf tútnar meira og meira út.
Ég kann ekki að elda.
Lauga gerði það meðan hún var hérna hjá mér.
En hún er farin og kemur ekki aftur.
Siggi er ágætur kokkur. Minnir mig.
Oft var sagt að hann borðaði helminginn af því sem hann eldaði. Hann sagðist alltaf þurfa að
smakka.Það er því ekkert undarlegt að hann tútni stöðugt út.
Ég hef ekkert að smakka.
Enda kann ég ekki að elda.
Svo ég fell.
Hríðfell.
66
Við ætluðum alltaf á sjóinn.
Vorum alla tíð heillaðir af hafinu.
Allt frá því við vorum smápollar dró hafið okkur að sér.
Og við drógumst að því.
Héldum að við gætum sigrast á hafinu.
En það sigraði okkur og tók þig frá mér.
Dró þig til botns.
Skilar þér aldrei aftur.
67
Finnst þú vera við hlið mína.
Standir fyrir aftan mig og fylgist með mér.
Ég lít kringum mig en sé þig hvergi.
Þú ert ekki hér.
Ertu enn á hafsbotni, grafinn í sand sem heldur þér föstum?
Eða breyttist þú í fugl sem sveimar um veröldina og skoðar allt sem við ætluðum að skoða saman?
Flýgur frá einni borg til annarar.
Eins og við ætluðum að flakka milli borga.
Töluðum svo oft um að fara og setjast upp í lest og láta hana flytja okkur til einhverrar borgar.
Bara eitthvert.
Fara þar út. Þvælast um borgina og skoða það sem hún hafði upp á að bjóða.
Halda svo áfram.
Nú þarft þú enga lest til að komast milli staða.
Ef þú ert fugl.
68
Á náttborðinu við hliðina á sígarettupakkanum og kveikjaranum tifar vekjaraklukkan.
Telur augnablikin sem verða alltaf færri og færri.
Eins og stundaglasið sé að renna út.
Stundaglasið mitt.
Undrast reyndar hvað það er stórt.
Það virðist aldrei ætla að tæmast.
69
Fæ loksins heimsókn.
Presturinn bankar uppá.
Ég bíð honum inn. Helli á kaffi.
Hann sest við eldhúsborðið. Leggur fíngerðar hendur á það og spennir greipar. Líkt og í bæn.
Horfir á mig. Fylgist með mér taka bolla úr skápnum og leggja á borðið fyrir framan hann.
Hann spyr hvernig ég hafi það.
„Djöfullegt,” svara ég.
„Jæja,” segir hann. „Það er ekki nógu gott.”
Hann þagnar. Fær sér sopa af kaffinu og einn sykurmola.
Horfir á mig.
„Þú ættir að koma í kirkjuna við tækifæri. Kannski á sunnudaginn. Það gerir þér örugglega gott.”
Ég segi ekki neitt. Sit bara með kaffibollann fyrir framan mig og horfi á hann.
Hlusta á hann tala um guð og þig.
Segir að þú sért hjá guði og þér líði vel, eins og öllum sem hjá Honum eru.
„Í himnaríki líður engum illa.”
Hann lítur á mig.
Stendur upp og tekur í hönd mína. Þakkar mér fyrir kaffið.
Fer.
Og mér líður jafndjöfullega og áður.
70
Þegar ég fer, þá fer ég og kem ekki aftur.
Aldrei.
Eins og þú.
Eins og Lauga.
Hvorugt ykkar kemur aftur til mín.
Þú fórst í hafið og kemst ekki þó þú vildir.
Hún fór og ætlar ekki að koma aftur.
Hún sagði það sjálf.
71
Sit einn við eldhúsborðið.
Drekk kaffi.
Reyki.
Man hve oft þú sast andspænis mér við borðið. Kaffibollinn týndist í stórum lófa þínum er þú barst hann upp að vörunum og dreyptir á.
Lagðir hann frá þér og straukst hönd gegnum þykkt svart hárið sem var eins og myrkur á
vetrarkvöldi.
Nú sit ég einn við borðið.
Reyki.
Drekk kaffi.
72
Myrkvuð ský svífa að mér.
Sveima umhverfis mig.
Þrengja hringinn smátt og smátt.
Vefjast um mig.
Loka mig inni í sér.
Halda mér föstum.
Ég fálma með höndunum, reyni að ná taki á skýjahulunni svörtu.
Langar að festa hendur á þeim.
Rífa þau sundur.
Komast út.
Hendurnar renna gegnum mjúk en þétt skýin.
Ég næ ekki handfestu.
Þau herða tak sitt sífellt.
73
Gengum í blautu grasinu og fundum rigningarúðann á andlitum okkar.
Rök fötin límdust við líkama okkar.
Á öxlunum hvíldu veiðistangir.
Við stefndum að ánni þar sem fiskarnir byltu sér og syntu mót straumnum.
Við tylltum okkur í blautt grasið.
Beittum.
Horfðum á ána líða hjá áður en við renndum fyrir fiskinn.
Hann vildi ekki taka hjá okkur í þetta skiptið.
74
Ég lifi í myrkri.
Endalausu myrkri.
Jafnvel um hábjartan daginn þegar sólin skín á alla aðra er myrkur kringum mig.
Eilíft endalaust myrkur.
75
Afhverju fórstu án mín?
Þú hefðir vel getað beðið eftir mér.
Það lá ekkert á.
En þú fórst.
Þú skildir mig eftir.
Einan í þögninni.
Myrkrinu.
76
Myrkrið hverfur andartak og á augnalokunum glitrar ljósgeisli.
Líkt og sólin þrengi sér gegnum þykk gluggatjöldin.
Ég lýk upp augunum.
Blindast.
Loka þeim á ný. Opna aftur.
Sé ekkert nema myrkrið.
Endalaust myrkrið sem sífellt þéttist.
Herðir tök sín.
77
Er staddur við stórfljót sem æðir áfram. Yfir allt sem fyrir verður. Hrífur allt sem á leið þess verður og skilar engu til baka.
Ég stend á bökkum þess og horfi á gruggugt vatnið æða til sjávar.
Langar nær svo það geti hrifsað mig til sín og borið mig þangað.
78
Lékum okkur í fjörunni.
Stukkum milli sleipra steinanna. Runnum til. Duttum næstum.
Fundum flata steina. Fleyttum kerlingar. Létum steinana þeytast eftir sléttum haffletinum.
Hlógum.
Skemmtum okkur.
Þá.
Einu sinni.
Fyrir löngu.
79
Veit að myndin heldur áfram þrátt fyrir allt.
Ég get ekki spólað til baka og klippt stormnóttina burt.
Klippt til og skeytt saman að vild.
Hversu mikið sem mig langar til þess.
80
Inni í brjósti mínu eru milljón litlir ormar sem naga og tæta hjartað.
Hvenær verða þeir búnir með það?
81
Þú ert farinn.
Horfinn og kemur ekki aftur.
Hvarfst í myrkrið með netinu í storminum um nóttina.
Hafið gleypti þig.
Mig langar að fylgja þér.
Fara á eftir þér.
Get ekki annað.
82
Tek bollann þinn út skápnum og legg hann á borðið.
Helli kaffi í hann.
Þegar ég ætla að hella í bollann minn, rek ég mig í þinn og hann dettur á gólfið.
Brotnar.
Í margar parta.
Og kaffið rennur um allt gólf.
Ég stend agndofa og horfi á.