Lokaður lófi -2014

LOKAÐUR LÓFI


Sleppir lausum


orðunum
sem þú faldir
í lokuðum lófa

Leyfir
þeim að flögra


hvert
sem þau vilja

LOKAÐUR LÓFI

VAKNA AÐ MORGNI

 Vakna
 að morgni

 og
 teygi út
 hendurnar

 eftir
 ljóðum
 og sögum
 sem á
 kreiki eru
          í huganum

 Horfi
 á eftir þeim
 leysast upp

 Hverfa

MERKING ORÐANNA

 Hafðir lengi
           allt of lengi
 reynt að höndla orðin
 sem hengu í loftinu

 án árangurs

 En
 svo skyndilega
            og alveg óvænt
 laukst merking
 þeirra upp

 Þú
 verður aldrei samur

LOKAÐUR LÓFI

 Sleppir lausum

 orðunum
 sem þú faldir
 í lokuðum lófa

 Leyfir
 þeim að flögra

 hvert
 sem þau vilja

AÐ VORI

 Vakna
 að vori

 eftir
 langan
 svefn

 Leita ætis

 Finn
 aðeins orð

 er
 á jörðinni vaxa

TÍMI

 Tíminn líður
           stundum
 svo hægt

 Bíður
 þess eins
 að hann

 taki enda

HEIMSÓKN

 Heimsóknin
 til þín

 svo góð

 Nema

 þegar þú
 lagðir hnífinn
 að hálsinum

 Annars
 var hún
 bara góð

VEGURINN

 Vegurinn
 hlykkjast
 upp fjallið

 Grunar hvað
 leynist efst

 Þorir
 þó ekki
 að orða
 grun þinn

MYRKUR

 Niður himinninn
 skríður myrkrið löturhægt

 Leggst yfir þig
 sem stendur í fjöruborðinu

 Einn

 Mænir á hafið

 Og
 fyrr en varir
 er allt hulið myrkri

 Einnig þú og hafið

VERKIR

 Verkirnir
 í brjóstinu
 nánast
 óbærilegir:

 Fuglarnir
 sem hafa
 hreiðrað um sig
 fljúga út

HORFUM SAMAN

 Horfum
 saman
 á sólina

 áður en
 annað
 tveggja gerist:

 ský
 dregur fyrir sólu

 eða

 augu
 okkar lokast

 endanlega

Í REGNI

 Þegar
 regnið
 bylur á
 bústað mínum

 lágreistum
 í hlíðinni

 sit ég
 við gluggann

 og horfi á
 flugfiskana
 synda
 í regninu

EYÐIMÖRK

 Ætíð
 er þú lítur út
 um glugga þinn
 blasir við þér
 eyðimörkin

 sem þig langar
              stundum
 til að ganga

 Freista þess
 að komast yfir

VINDURINN

 Vindurinn æðir
 og opin hurð
 í húsi þínu
 skellist hrakalega
 er hann grípur hana
 hvað eftir annað

 Fleygir til og frá

STJÖRNUR OG TUNGL

 Reynir
 að teygja
 þig

 í stjörnur
 og tungl

 er
 glitra
 á himni

 Ná taki

HVERT FERÐU?

 Hvert ferðu
 þegar þú
 hverfur héðan

 og ég
 sé þig
 ekki lengur

 Svífurðu
 þá ef til vill
 milli vetrarbrauta

 ferðast
 eins og
 geimryk

 ein í alheimi?

STERKT LJÓS

 Að þér beinist
 sterkt ljós

 og þú
 lítur
 til himins

 Sérð
 þau nálgast

 Skipin
 sem komin
 eru að
 sækja þig

HEIMSÓKN Í VÆNDUM

 Gægist út

 og
 sérð
 þá nálgast

 Verða
         innan skammas
 komnir að
 húsi þínu

 Þú horfir
         grunar erindið

 Bíður

Á FERÐ UM DAL

 Þegar þú
 ekur um
 dalinn
 með hólunum
 óteljandi

 býstu við
 að sjá mann
 á lopapeysu
 og skinnskóm

 feta sig
 milli hólanna

 eða
 stíga út úr
 einum þeirra

FRAM Á VIÐ

 Hreyfist hægt

 en
 mjakast þó

 frá
 einum stað
 til annars

 Líkt og
 snigillinn

 sem kemst

 þó hægt fari

UM GARÐ

 Að ég gæti girt
 garðinn minn

 og lokað
 svo kirfilega
 að enginn kæmist út

 og enginn kæmist inn

 Ef ég ætti garð

 Bara að ég ætti garð


ÞOKA YFIR BÆNUM

 Þokan sem lúrir
 yfir bænum
 smýgur um allt

 Skríður jafnvel
 inn í augu þín

 án þess að þú
 takir eftir

 fyrr en
 byrgir sýn

Í FJÖRU

 Stóðum í
 stórgrýttri fjörunni

 Sólin dansaði
 á spegilsléttum firðinum

 Og
 úr fötum okkar draup
 saltur sjórinn

TÆRAR PERLUR

 Tærar perlur
 á vegi
 þínum
 vaxa

 Lest í vasa

 Skoðar
 í góðu tómi