Við ætluðum alltaf að kaupa okkur bát saman.
Litla trillu.
Þegar við vorum litlir höfðum við augastað á einni sem stóð lengi í fjörunni, þar sem trillukarlarnir settu báta sína upp fyrir veturinn.
Við snigluðumst oft í kringum hana. Strukum hana. Eins og við værum að gæla við hana.
Einn daginn var hún horfin.
Við vissum ekki hvað hafði orðið af henni.
Fyrr en á gamlárskvöld.
Þegar við stóðum við áramótabrennuna og horfðum á hana brenna upp, var eins og draumur okkar væri að brenna.
Hann brann þó ekki upp til agna.
Við sátum oft hér í eldhúsinu yfir kaffibolla, umluktir reyknum frá sígarettunni minni og pípunni þinni, og töluðum um að eignast trillu.
Lítinn bát sem við ættum sjálfir.
Og fara á skak.
Eða grásleppu.
Fundum aldrei neina trillu.
Sú eina sem við höfðum augastað á fór á áramótabrennuna forðum.