Hanskarnir og fleiri örsögur- 2016

FLUGÆFINGAR


Ég fór upp á þak hæstu byggingarinnar sem ég fann í borginni. Rétti út
hendurnar og varpaði mér framaf en fann strax að tilraunin var
misheppnuð. Náði ekki að blaka höndunum nægilega hratt til að halda mér
á lofti og hrapaði því til jarðar.
Enn ein tilraunin sem misheppnast.
Þetta var sú þrítugasta og fimmta.
Allar hafa þær endað með fleiri en einu og fleiri en tveimur beinbrotum
ásamt djúpum skurðum hér og hvar um líkamann.
En ég gefst ekki upp.
Mér skal takast að fljúga.

Lesa áfram „Hanskarnir og fleiri örsögur- 2016“

Horfir-sögur -2015

KAFFIKONAN


Í svefnrofunum á morgnana vissi hún aldrei hvort hún var að vakna eða
sofna fyrr en hún fann kaffiilminn berast inn um gluggann til sín.
Dag nokkurn, þegar enginn kaffiilmur barst inn, vegna þess að gamla konan
á neðri hæðinni var dáin, lagðist hún aftur á koddann og hélt áfram að sofa.
Og svaf þar til önnur gömul kona flutti inn á neðri hæðina og fór að hella
upp á kaffi á morgnana

Lesa áfram „Horfir-sögur -2015“

Í lestarklefa með hjónum og lögreglumanni -2009

Í LESTARKLEFA MEÐ HJÓNUM OG
LÖGREGLUMANNI
(Ungverjaland 2002)


Sit í lestarklefa með hjónum og lögreglumanni.
Þau þrjú tala og tala saman.
Ég sit bara og skrifa og hlusta á þau.
Skil þó nokkuð.
Sérstaklega af því ég þarf ekki að taka þátt.
Þegar við nálgumst borgina Tata fer ég að skima kringum mig. Held við séum komin en ég hafi misst af ánni.
Stend upp og kíki út til að gá hversu langt við erum komin.
Konan spyr: „Hova tetszik utaszni?” sem þýðir náttúrlega: hvert ertu að fara?
Ekki erfið spurning en ég fer allur í kerfi og segist ekki skilja. Hún telur þá upp borgirnar sem eftir eru: Komarom, Györ og svo framvegis.
Þá átta ég mig og svara Komarom.
Það er næsta stöð, segir hún.
Meðan á þessu stendur horfir lögreglumaðurinn undrandi á mig.
Eins og hann hafi áttað sig á að ég skil eitthvað í ungversku.
Kannski finnst honum og þeim öllum, þetta skrýtið.
Ekki síst í ljósi þess að fyrr í ferðinni dró ég upp bók og fór að lesa.
Barnabók á ungversku.

Lesa áfram „Í lestarklefa með hjónum og lögreglumanni -2009“

Myrkvuð ský -2005

Við ætluðum alltaf að kaupa okkur bát saman.
Litla trillu.


Þegar við vorum litlir höfðum við augastað á einni sem stóð lengi í fjörunni, þar sem trillukarlarnir settu báta sína upp fyrir veturinn.
Við snigluðumst oft í kringum hana. Strukum hana. Eins og við værum að gæla við hana.

Einn daginn var hún horfin.
Við vissum ekki hvað hafði orðið af henni.


Fyrr en á gamlárskvöld.
Þegar við stóðum við áramótabrennuna og horfðum á hana brenna upp, var eins og draumur okkar væri að brenna.


Hann brann þó ekki upp til agna.
Við sátum oft hér í eldhúsinu yfir kaffibolla, umluktir reyknum frá sígarettunni minni og pípunni þinni, og töluðum um að eignast trillu.
Lítinn bát sem við ættum sjálfir.
Og fara á skak.
Eða grásleppu.


Fundum aldrei neina trillu.


Sú eina sem við höfðum augastað á fór á áramótabrennuna forðum.

Lesa áfram „Myrkvuð ský -2005“

Myndir úr útlegð -2001

Konurnar frá Transilvaníu koma langt að með varning sinn í töskum og skjóðum. Breiða hann á bekkina á torginu. Fyrir augum þeirra er fara hjá.

Dúkar, föt og diskar flæða um torgið.

Þær sitja á bekkjum. Svartklæddar með marglita skýluklúta á höfði. Bródera. Gjóa augum á vegfarendur svo lítið ber á.

Og smátt og smátt fækkar mununum á torginu. Ferðamenn eða heimafólk hefur þá á brott með sér. Og í vasa kvennanna frá Transilvaníu safnast matarpeningar handa fjölskyldunni suður frá.

Einn daginn eru þær horfnar. Varningurinn seldur og heima bíður fjölskyldan.

Lesa áfram „Myndir úr útlegð -2001“

Flóðljós og fleiri sögur -2000

Tjaldið er fallið.
Ég stend á sviðinu. Undrast lófatakið sem berst gegnum þykkt tjaldið.
Var frammistaða mín svona góð?
Ég veit að það er verið að klappa fyrir mér, því ég er eini leikarinn í sýningunni.
Tjaldið lyftist í ný. Ég geng fram á sviðsbrúnina og hneigi mig.
Lófatakið eykst enn þegar áhorfendur koma auga á mig.
Tjaldið fellur.
Fangaðarlætin aukast enn.
Tjaldið lyftist aftur og ég hneigi mig.
Handan flóðljósanna er salur fullur af fólki sem klappar fyrir mér

Lesa áfram „Flóðljós og fleiri sögur -2000“