Í LESTARKLEFA MEÐ HJÓNUM OG
LÖGREGLUMANNI
(Ungverjaland 2002)
Sit í lestarklefa með hjónum og lögreglumanni.
Þau þrjú tala og tala saman.
Ég sit bara og skrifa og hlusta á þau.
Skil þó nokkuð.
Sérstaklega af því ég þarf ekki að taka þátt.
Þegar við nálgumst borgina Tata fer ég að skima kringum mig. Held við séum komin en ég hafi misst af ánni.
Stend upp og kíki út til að gá hversu langt við erum komin.
Konan spyr: „Hova tetszik utaszni?” sem þýðir náttúrlega: hvert ertu að fara?
Ekki erfið spurning en ég fer allur í kerfi og segist ekki skilja. Hún telur þá upp borgirnar sem eftir eru: Komarom, Györ og svo framvegis.
Þá átta ég mig og svara Komarom.
Það er næsta stöð, segir hún.
Meðan á þessu stendur horfir lögreglumaðurinn undrandi á mig.
Eins og hann hafi áttað sig á að ég skil eitthvað í ungversku.
Kannski finnst honum og þeim öllum, þetta skrýtið.
Ekki síst í ljósi þess að fyrr í ferðinni dró ég upp bók og fór að lesa.
Barnabók á ungversku.