Í lestarklefa með hjónum og lögreglumanni -2009

Í LESTARKLEFA MEÐ HJÓNUM OG
LÖGREGLUMANNI
(Ungverjaland 2002)


Sit í lestarklefa með hjónum og lögreglumanni.
Þau þrjú tala og tala saman.
Ég sit bara og skrifa og hlusta á þau.
Skil þó nokkuð.
Sérstaklega af því ég þarf ekki að taka þátt.
Þegar við nálgumst borgina Tata fer ég að skima kringum mig. Held við séum komin en ég hafi misst af ánni.
Stend upp og kíki út til að gá hversu langt við erum komin.
Konan spyr: „Hova tetszik utaszni?” sem þýðir náttúrlega: hvert ertu að fara?
Ekki erfið spurning en ég fer allur í kerfi og segist ekki skilja. Hún telur þá upp borgirnar sem eftir eru: Komarom, Györ og svo framvegis.
Þá átta ég mig og svara Komarom.
Það er næsta stöð, segir hún.
Meðan á þessu stendur horfir lögreglumaðurinn undrandi á mig.
Eins og hann hafi áttað sig á að ég skil eitthvað í ungversku.
Kannski finnst honum og þeim öllum, þetta skrýtið.
Ekki síst í ljósi þess að fyrr í ferðinni dró ég upp bók og fór að lesa.
Barnabók á ungversku.

Í LESTARKLEFA MEÐ HJÓNUM OG LÖGREGLUMANNI
Ferðasögubrot

Fyrri hluti: Erlendis

KASTRUP
(2006)

Lendum á Kastrup um hánótt.
Göngum í átt að færiböndum þar sem við tekur bið eftir töskum.
Síðan ganga gegnum hlið þar sem ekki sést einn einasti tollvörður.
Göngum rösklega um flugstöðvarbygginguna, enda ekkert fólk að þvælast fyrir.
Finnum okkur sæti þar sem við sitjum til morguns.
Upp er dreginn matur sem allir gæða sér á. Taka hraustlega til matar síns.
Svöng eftir flugferðina.
Fer þá þreyta að síga á suma sem láta sig ekki muna um að leggjast á grjóthart flísagólfið á Kastrup.
Loka augunum og halda á vit draumanna.
Vonandi.
Aðrir sitja á hörðum bekkjum.
Skrifa.
Lakka á sér neglurnar.
Lesa.
Og tala saman.
Smátt og smátt færist ró yfir fólk sem bíður eftir næsta flugi.
Og við erum ekki ein um það, því hér er slangur af fólki sem situr á bekkjum.
Eða liggur.
Sumir tala saman.
Lesa.
Eða reyna að sofa.

BIRTIR AF DEGI
(Kastrup 2006)

Komum í myrkri sem liggur yfir öllu.
En smátt og smátt birtir.
Í fjarska slær roða á himinn.
Jafnvel hér er dögunin falleg.

MORGUNN Í FLUGSTÖÐINNI
(Kastrup 2006)

Eftir því sem birtir færist meira líf í flugstöðina.
Fólk með töskur kemur utan úr borginni.
Eða opnar augun þar sem það situr á bekkjum, setur bækur ofan í töskur og skjóður.
Fer á stjá.
Til að ná flugi á réttum tíma.
Starfsfólk flugstöðvarinnar að mæta til vinnu.
Sumir úr okkar hópi rísa á fætur, enda hart að liggja á gólfinu.
Rölta um.
Skoða.
Fá sér kaffi og að borða.

SILFURMAÐURINN
(Dublin 2006)

Á göngu okkar um Grafton Street í Dublin komum við auga á mann sem er að baksa við lágvaxinn stand.
Maðurinn allur silfurlitaður í framan og í síðri silfurlitaðri skikkju. Með einhverskonar sprota í
hendi.
Líkt og kyndil eða veldissprota.
Þegar við göngum framhjá honum aftur hefur hann einnig borið silfurlit á hendurnar og stendur á kolli uppi á standinum.
Hreyfingarlaus eins og stytta.
Þar til einhver setur pening í þar til gerðan kassa. Þá hreyfir hann sig mjög hægt og vélrænt.
Rétt eins og konan sem lék svipað hlutverk annars staðar í götunni.
Nema hún var öll hvítklædd og minnti á engil.

GRAFTON STREET
(Dublin 2006)

Göngugatan troðfull af fólki.
Varla þverfótað fyrir því og ýmiskonar uppákomum.
Maður spilar á gítar, þverflautu og syngur.
Ungir strákar með tónleika. Spila á tvær, þrjár fiðlur og kontrabassa.
Afrískir akróbatar eða fimleikamenn.
Söngur og tónlist sem hljómar mjög framandi, ásamt stökkum og spörkum.
Minnir helst á sjálfsvarnaríþrótt.
Reynist auglýsing fyrir sýningu.

Á BAR Í DUBLIN
(2006)

Sitjum nokkur saman í rólegheitum á einum barnum, á efri hæð í gömlu húsi, þegar upp koma fjórir ungir drengir og búa sig undir að setjast í stóla og sófa við hlið okkar.
Áður en þeir geta sest nálgast stúlkan sem vinnur á barnum og spyr þá að aldri.
Segir þeim að þeir séu of ungir til að vera þarna.
Þeir fara niður.
Heldur súrir í bragði.
Þar fá þeir afgreiðslu eins og ekkert sé.

Á ÞVÆLINGI UM DUBLIN
(2006)

Sest inn á lítinn bar þar sem menn hengja upp stuðningsborða eða keðju í fánalitum Mexíkó.
Reynist heldur stuttur. Þá er bara bætt við.
Fæ mér bjór.
Sest niður og skrifa.
Á barnum fátt fólk sem ýmist situr við barinn á háum barstólum eða á bekk við vegginn.
Fyrir framan bekkinn þrjú borð þar sem hægt er að tylla glösum sínum.
Fólk talar saman.
Les blöðin.
Fylgist með tennisleik í sjónvarpinu.
Ég klára bjórinn minn og held út.
Veit í fyrstu ekki alveg hvert ég á að fara.
Rölti samt.
Veit þó nokkurn veginn hvar ég er.
Eða að minnsta kosti í hvað átt hótelið er.
Og áin.
Kem auga á bókabúð.
Fer þangað inn.
Dvel lengi. Tapa öllu tímaskyni.
Rölti áfram.
Geng fram á krá með því skemmtilega nafni: Bachelor pub.
Bregð mér þar inn.
Gestir svona frekar í eldri kantinum.
Karlmenn í meirihluta og virðast fastagestir. Barþjónninn þekkir þá alla með nafni.
Sjónvarpið í gangi.
HM að byrja. Fyrsti leikur.
Ég hef lítinn sem engan áhuga á honum.

BÍLL Í VEGARKANTI
(Skotland 2003)

Í vegarkanti stendur bíll með blikkandi stefnuljós og opna hurð bílstjóramegin. Vitlausu megin!
Á túni við hliðina á bílnum stendur kona. Við bílinn maður.
Þau virðast rífast. Líkt og öskri hvort á annað.
Þeim hafi orðið sundurorða og hún stokkið út úr bílnum.
Eða eitthvað.
Veit það ekki.
Sé þeim aðeins bregða fyrir þegar rútan fer hjá í rökkrinu.

GARDÍNA Á HÓTELI Í EDINBORG
(2003)

Baksa við rúllugardínuna. Reyni að draga hana fyrir gluggann.
Aftur og aftur.
Og í hvert sinn sem hún rúllast upp sé ég spegilmynd mína í dökkri rúðunni.
Gefst loks upp og fer að sofa.
Það sér hvort eð er enginn inn svona hátt uppi.
Verst ef sólin vekur mig eldsnemma í fyrramálið.

RIGNING Í EDINBORG
(2003)

Þegar ég ætla að fara að koma mér út að skoða borgina, þá fer að hellirigna.
Og ég nenni ekki út í rigningu.
Ligg því áfram í rúminu og skrifa.

EINN Á ÓKUNNUM BAR
(Edinborg 2003)

Gott að sitja einn á ókunnum bar í útlöndum. Horfa á fólk streyma út og inn.
Og vera nokkuð viss um að þekkja engan.

BRJÓSTSYKURMOLINN
(Edinborg 2003)

Finn síðasta brjóstsykurmolann, sem þú lést mig hafa með reikningnum í gær, þegar ég er kominn upp í hálöndin. Langt frá þér og borginni. Er að fara að skoða bruggverksmiðju.
Sting molanum upp í mig og held áfram ferð minni með hópnum.
Gleymi þér sem þjónaðir mér til borðs á veitingastað.

BAR Í EDINBORG
(2003)

Í einu horninu sjónvarp í gangi. Sýnir teiknimyndir en sem betur fer dregið niður í því.
Og í öðru horni spilakassi sem hinir fáu gestir staðarins láta í friði.
Til guðs lukku.
Gestirnir aðeins fjórir.
Ég. Tveir menn á miðjum aldri sem standa við barinn og tala um fótbolta eða einhverja aðra íþrótt sem ég hef ekki hundsvit á og enn minni áhuga.
Og ungur maður, talsvert drukkinn, sem gerir sér dælt við stúlkuna á barnum.
Kannski kærastinn hennar?
Hún lætur sér að minnsta kosti vel líka.
Hann gengur að djúkboxinu og fer að spila háværa tónlist.
Svo háværa að mennirnir tveir við barinn geta varla talað saman. Annar þeirra fer á klósettið en hinn reynir að lækka.
Án árangurs.

NEÐANJARÐARLEST Í MÍLANÓ
(2002)

Reynum að nota sjálfssala til að kaupa miða í neðanjarðarlestina í Mílanó en skiljum ekki
leiðbeiningarnar og áttum okkur ekki á honum.
Dettur þá í hug að athuga hjá blaðasala og auðvitað getur hann selt okkur miða.
Byrjum á að fara í vitlausa átt með lestinni.
Förum því bara á endastöð og bíðum þar til lestin fer til baka.
Á endastöðinni koma inn tvær konur, ungar, og einn karlmaður á svipuðum aldri. Hann er með eitthvað framan á sér og þegar ég gæti betur að sé ég að þetta er burðarpoki og í því pínulítið barn.
Virðist nýfætt.

MANNFJÖLDI Á DÓMKIRKJUTORGINU
(Mílanó 2002)

Þegar við nálgumst uppganginn inn á Dómkirkjutorgið í Mílanó berst til okkar háreysti mikið.
Hróp, köll og flaut.
Lúðraþytur.
Eins og saman sé kominn mikill mannfjöldi á torginu.
Og svo reynist vera.
Búið er að koma fyrir risastórum sjónvarpsskjá á torginu og þar er verið að sýna úrslitaleikinn í heimsmeistarakeppninni í fótbolta.
Víða er brasilíska fánanum veifað en aðeins einn og einn þýskur fáni sveiflast feimnislega til og frá.
Greinilegt á hverra bandi meirihluti Ítala er.
Að minnsta kosti þeirra sem eru á torginu.
En það eru fleiri þarna en fótboltaáhugamenn.
Töluvert af herlögreglumönnum, gráir fyrir járnum og greinilega við öllu búnir ef allt fer úr
böndunum.
Eftir leikinn ætlar fagnaðarlátum aðdáenda Brasilíu aldrei að linna. Stuðningsmenn Þjóðverja halda hins vegar sneyptir á brott.

HVÍLUM OKKUR Á BEKK
(Mílanó 2002)

Sitjum á bekk á torgi og hvílum okkur.
Sonur minn, sjö mánaða, situr í bakpokastólnum sínum og er hinn sprækasti. Systir hans, á
unglingsaldri, kjáir við hann og leikur.
Til okkar kemur gömul kona á mikilli ferð. Lítur á drenginn og talar og talar. Bendir á systur hans.
Virðist vera að spyrja hvort hún eigi hann.
Okkur dettur það helst í hug að minnsta kosti.
Gamla konan strunsar burt þegar hún áttar sig á að við skiljum hana ekki.

KJÖTBÚÐ Í FENEYJUM
(2002)

Gamall maður stendur í dyragættinni á kjötbúðinni sinni.
Við feðgar væflumst um fyrir utan, meðan hinir í fjölskyldunni fara í glerbúð.
Gamli maðurinn horfir á son minn á bakinu á mér.
Talar við hann.
Á ítölsku auðvitað.
Dregur mig svo inn í búðina til að tala við konu sína sem stendur þar við afgreiðslu.
Hún er voða hrifin af stráknum.
Talar heilmikið við hann og hann brosir og skríkir. Hefur gaman af athyglinni.
Þau virðast hafa áhyggjur af bakpokastólnum sem hann situr í. Óttast líklega að illa fari um hann.
Ég segist auðvitað ekki skilja en þá brosa þau bara breiðara.
Kaupi eina vatnsflösku af þeim.

VIÐ BORÐUM FYRIR FRAMAN KIRKJU
(Feneyjar 2002)

Tökum vatnastrætó að lestarstöðinni í Feneyjum.
Setjumst fyrir framan kirkju til að fá okkur að borða.
Skammt frá okkur situr maður á óræðum aldri.
Þó sennilega um fimmtugt.
Hann er frekar stór og mikill án þess þó að vera feitur. Við hlið hans hvít og rauð röndótt
nælontaska.
Í henni brauð og nokkrar vínflöskur. Hann tekur eina, græna, annað slagið og fær sér sopa.
Tek eftir því að maðurinn gjóar á okkur augum.
Hlustar á okkur.
Hann tekur flöskuna grænu og sýpur á.
Eins og til að drekka í sig kjark til að ávarpa okkur, sem hann svo gerir.
Á ensku.
Spyr frá hvaða landi Skandinavíu við séum. Segist heyra það á mæli okkar að við séum
Norðurlandabúar.
Við segjum honum að sjálfsögðu hvaðan við erum.
Enda ekkert leyndarmál.

VEGABRÉF FRÁ ÍSLANDI
(Ungverjaland 2002)

Ungverski landamæravörðurinn er ungur strákur sem áttar sig á að við skiljum eitthvað aðeins í málinu, enda heilsum við honum á ungversku.
Þegar hann sér vegabréfin okkar kallar hann á félaga sína. Spyr hvort þau (ein kona í hópi
landamæravarðanna) hafi séð vegabréf frá Íslandi áður.
Þau segja nei.
Hann réttir þeim eitt sem þau skoða.
Það reynist vegabréf litla stráksins, sem er aðeins sjö mánaða.
Landamæraverðirnir reka upp gól og tala um hvað hann sé fallegur strákur. Svipast um inn í klefann til að finna hann.
Landamæravörðurinn ungi spyr hvort við séum túristar.
Við játum því auðvitað.
Hann réttir okkur vegabréfin aftur og kveður.

ÓRÓLEGUR Í LEST
(Ungverjaland 2002)

Sit hjá þrem ungverjum.
Þrem kynslóðum kvenna.
Sú elsta við hlið mína en á móti dóttir hennar og dótturdóttir.
Litli strákurinn verður órólegur í lestinni, vegna þess að sólin skín beint framan í hann þar sem hann situr hjá mömmu sinni skammt frá okkur. Enda svo margt fólk í lestinni að við fengum ekki sæti saman.
Ég tek hann því og sest með hann við hliðina á gömlu konunni.
Hún lítur á hann og dóttir hennar líka.
Þær tala um hann. Hafa orð á því hvað hann sé fallegur. Brosa til hans og kjá framan í hann.
Á einni stöðinni kemur inn gömul kona og sest skáhallt á móti mér.
Drengurinn aftur kominn til móður sinnar en konan áttar sig á að ég hef eitthvað með þetta barn að gera.
Hún horfir á mig og talar og talar um hann. Segir þetta „aranyos” heillandi og elskulegt, barn.
Ég brosi og þakka henni fyrir.

UNGVERSKT PAR Í LEST
(Ungverjaland 2002)

Við hlið mína í lestinni ungt ungverskt par á ferðalagi.
Sennilega á leið heim enda lestin að koma frá Vín.
Á hillunni fyrir ofan þau bakpokar sem virðast troðfullir.
Þau sitja og lesa.
Skipta sér lítið af okkur.
Lesa í sinni bókinni hvort og hönd hennar hvílir á hné hans.

UNGVERSKI LANDAMÆRAVÖRÐURINN
(Ungverjaland 2002)

Á landamærunum milli Ungverjalands og Slóvakíu sami ungverski vörðurinn og daginn áður, þegar litli strákurinn grét og grét meðan vegabréfin okkar voru skoðuð.
Núna lítur landamæravörðurinn á hann og segir: „most nem sír” – þú grætur ekki núna.
Erum orðin að hálfgerðri þjóðsögu á landamærunum, bætir hann við.
Allir hafa heyrt um þessa Íslendinga með óskiljanlegu nöfnin og litla barnið sem grét svo mikið.

Í SUNDLAUGARGARÐINUM
(Slóvakía 2002)

Finnum okkur stað undir skuggsælu tré í sundlaugargarðinum.
Við hlið okkar tvenn hjón með börn á aldrinum eins til þriggja ára.
Fólkið talar saman og skiptir milli tungumála eins og ekkert sé. Stundum er eins og ein setning sé á slóvesku en sú næsta á ungversku.
Þegar þau eru að fara vill yngsta stelpan, sem er um það bil ársgömul eða rúmlega það, ekki fara.
Hún hleypur um og hágrætur.
Sest á hækjur sér og orgar.
Hefur ekki sitt fram.

BRÚIN MILLI STÚROVO OG ESZTERGOM
(Slóvakía-Ungverjaland 2002)

Búið er að endurbyggja brúna sem liggur yfir Dóna, frá Stúrovo í Slóvakíu yfir til Ezstergom í
Ungverjalandi.
Við förum gangandi yfir.
Slóveski landamæravörðurinn æ-ar mikið þegar hún sér fimm himinblá vegabréf merkt ókunnu landi sem heitir Ísland.
Hún er lengi að athuga hvort það sé til og hvort við séum löglega í landinu.
Ungversku landamæraverðirnir, tvær konur, eru hins vegar mjög hrifnar af þeim og segja að við séum komin langt að.
Önnur þeirra biður samt um leyfi til að fara með þau og skoða með útfjólubláum geisla.
Til að athuga hvort þau séu fölsuð.

GÖMUL KONA SITUR Á STÓL Í SMÁBÆ
(Slóvakía 2002)

Stoppum í smábæ.
Förum inn á bar til að fá okkur að drekka.
Fyrir utan situr gömul kona á stól.
Með klút á höfði.
Öll svartklædd og í loðnum inniskóm.
Hrukkótt og tekin í andliti.
Við hlið hennar hækja.
Dauðlangar að taka mynd af henni en legg ekki í það.
Gamla konan reynir að ná sambandi við fólkið sem heilsar henni, að því er virðist mjög kurteislega.
Hún heilsar á móti og heldur svo áfram að tala. En fólkið gengur framhjá án þess að nema staðar til að spjalla við hana.
Aðeins einn gamall maður sem kemur út af barnum gefur sér tíma til að skiptast á fáeinum orðum við hana.
Hún er nánast tannlaus.
Þegar hún opnar munninn glittir þó í tvær tennur.
Eina í hvorum góm.
Báðar vinstra megin.

Í LESTARKLEFA MEÐ HJÓNUM OG LÖGREGLUMANNI
(Ungverjaland 2002)

Sit í lestarklefa með hjónum og lögreglumanni.
Þau þrjú tala og tala saman.
Ég sit bara og skrifa og hlusta á þau.
Skil þó nokkuð.
Sérstaklega af því ég þarf ekki að taka þátt.
Þegar við nálgumst borgina Tata fer ég að skima kringum mig. Held við séum komin en ég hafi misst af ánni.
Stend upp og kíki út til að gá hversu langt við erum komin.
Konan spyr: „Hova tetszik utaszni?” sem þýðir náttúrlega: hvert ertu að fara?
Ekki erfið spurning en ég fer allur í kerfi og segist ekki skilja. Hún telur þá upp borgirnar sem eftir eru: Komarom, Györ og svo framvegis.
Þá átta ég mig og svara Komarom.
Það er næsta stöð, segir hún.
Meðan á þessu stendur horfir lögreglumaðurinn undrandi á mig.
Eins og hann hafi áttað sig á að ég skil eitthvað í ungversku.
Kannski finnst honum og þeim öllum, þetta skrýtið.
Ekki síst í ljósi þess að fyrr í ferðinni dró ég upp bók og fór að lesa.
Barnabók á ungversku.

Á BARNUM – AFTUR
(Bolognia 2000)

Kem aftur á barinn sem við vorum á í gær. Er heilsað sem gömlum kunningja.
Heilsa á móti.
Barþjónninn, ungur Ítali, sem spurði í gær hvort ég ætlaði ekki að yrkja um borgina og barinn, brosir til mín.
Tannlausi eigandinn brosir einnig og heilsar með virktum.

SÓLBLÓMABARINN
(Bolognia 2000)

Sit á Rapsodia barnum, sem við nefnum Sólblómabarinn vegna blóms af þeirri tegund á veröndinni.
Drekk bjór úti á verönd.
Of heitt til að vera í sólinni. Sit því í skugganum.
Horfi á mannlífið sem ekki er mikið í þröngri götunni.
Á barnum, einnig í skugga, ítalskt par sem drekkur rauðvín og talar saman.
Og ég skil ekki orð.

PRAG AÐ KVÖLDLAGI
(1997)

Erum í miðbæ Prag að kvöldlagi.
Dagurinn á enda og nóttin að taka við.
Og mannlífið einnig að breytast.
Líkt og nýir leikarar stormi inn á sviðið.
Búðum er lokað og barnafólk á heimleið.
Víða fólk með dreifimiða sem réttir eru að þeim sem ganga hjá. Auglýsingar fyrir ýmsa bari og nektarklúbba.
Hórurnar að mæta til vinnu.

GÖMUL KONA Í STRÆTÓ
(Prag 1997)

Ber lítinn son minn á bakinu í burðarpoka.
Hann vekur hvarvetna athygli. Fólk hjalar við hann sem hefur gaman af.
Verði mér hins vegar á að líta á fólkið, líta flestir undan.
Hálfskömmustulegir.
Nema gamla konan sem situr við hlið okkar í strætó í Prag.
Hún hjalar og hjalar við hann.
Veifar og sendir honum fingurkoss þegar hún fer út.

Á LEIÐ UPP ÚR METRÓ
(Prag 1997)

Hún kemur á móti mér niður rúllustigann í metró í Prag.
Ég á leiðinni upp.
Tek eftir henni þegar hún er hátt uppi en ég langt niðri.
Við nálgumst hratt.
Hár hennar svart og sítt. Og hún öll dökkklædd.
Með dökk sólgleraugu.
Blómavöndur í hendi.
Þegar við komum nær hvort öðru, sé ég að hún er hágrátandi.
Undan sólgleraugunum flæða tár.
Og ég veit strax að hún hefur misst einhvern náinn.
Ég fer upp og út.
Hún niður í lestina.

Í LEST Á LEIÐ FRÁ PRAG
(1997)

Lendum á heldur leiðinlegum stað í lestinni frá Prag.
Í síðasta klefa á reyklausu svæði.
Skammt frá, á reyksvæðinu, situr kona, stór og mikil, og strompreykir.
Liggur við að hún kveiki í næstu sígarettu með stubbnum af þeirri síðustu.
Loftið í klefanum okkar ekki gott. Enda engin hurð á honum og reykurinn á greiðan aðgang inn til okkar.
Hengjum lak fyrir og loftið skánar aðeins.
Eins þegar lestarvörður setur loftræstikerfið í gang.

GAMALL MAÐUR VIÐ BALATON VATN
(Ungverjaland 1997)

Sitjum á ströndinni við Balaton vatnið.
Þar allt fullt af fólki.
Meðal annars fjölskylda með afa gamla, sem situr á sólstól og horfir út á vatnið.
Dóttir eða tengdadóttir, reynir í sífellu að sannfæra hann um að vatnið sé gott og hann ætti nú að skella sér útí:
„Nagyon jó a víz.”- vatnið er mjög gott.
Hann lætur til leiðast að lokum.
Og þá er hún ekki sein á sér að setjast í stólinn hans.

TILRAUN TIL SÓLBAÐS
(Ungverjaland 1997)

Liggjum í sólbaði við vatnið og leikum okkur þegar brestur á stormur og úrhelli.
Sonur minn, átta mánaða gamall, sefur í ferðarúmi í skugga undir tré.
Berum hann inn á hótelið steinsofandi.
Rumskar ekki fyrr en við leggjum rúmið frá okkur í herberginu.
Klukkustund síðar er hætt að rigna og sést aðeins til sólar.
Við hlaupum út á strönd.
Erum varla sest þegar ský dregur fyrir sólu og aftur fer að þykkna upp.
Þraukum þó í klukkutíma.
Þá er okkur orðið skítkalt.

Annar hluti: Innanlands

FJALLGANGA Í ÞOKU
(Herðubreið 2006)

Þegar við nálgumst uppgönguna á fjallið skellur á svarta þoka. Svo dimm að sjáum varla út úr augunum.
Höldum samt áfram í von um að henni létti.
Fikrum okkur í rólegheitum alveg upp á topp.
Áum þar góða stund.
Þokan greiðist sundur á kafla og kafla. Svo við fáum hugmynd um útsýnið af fjallinu tignarlega.
Og löngun til að fara aftur.
Í góðu veðri og útsýni.

Á GÖNGU Í ÚRHELLI
(Kjölur 2006)

Kem inn á gönguslóða sem markaður er af vörðum. Fylgi honum í úrhellisrigningu.
Svo mikilli að sé varla út úr augunum.
Og ekki er betra að vera gleraugnalaus.
Sé varla niður fyrir tærnar á mér þegar ég tek þau af mér.
Rek þær í steina og hraun hvað eftir annað.

RÚTUBÍLSTJÓRINN
(Eiðar 2006)

Sit á bekk fyrir utan gististaðinn þegar rútubílstjóri kemur og sest hjá mér.
Fer að spjalla.
Hann er á ferð með tuttugu og fimm manna hóp frakka, allt starfsmenn frönsku járnbrautanna eða tengjast þeim á einhvern hátt.
Hópur sem hefur ferðast talsvert saman og þekkist vel.
Gaman, segir hann, að ferðast með þau.
Ólíkt sumum öðrum hópum, þar sem hver höndin er upp á móti annarri og allir alltaf óánægðir.
Sama hvað gert er.
Ekki gaman að ferðast með svoleiðis hóp.

MORGUNGANGA
(Víknaslóðir 2006)

Á morgungöngu minni á átt að sjónum í víkinni breiðu, verður mér litið til baka.
Að skálanum.
Þar sem félagar mínir sofa.
Og sé nykurinn forða sér ofan í tjörnina sporöskjulöguðu.

SPOR Í SANDI
(Víknaslóðir 2006)

Í svörtum sandinum spor er liggja úr hafi.
Upp fjöruna.
Velti fyrir mér hvaða óvættur hafi verið á ferli í nótt.
Komið úr hafi til að þefa af okkur í húsinu ofar en látið í friði og haldið til baka.

MINNINGAR SANDS
(Víknaslóðir 2006)

Spor mín sem hlykkjast í svörtum sandinum mást út með tímanum.
Rétt eins og spor þeirra er bjuggu hér forðum.
Þau horfin úr sandinum sem aðeins geymir minningar um þau.

TJALDURINN OG KRÍAN
(Víknaslóðir 2006)

Er ég geng um fjöruna, á leið til baka, heyri ég í tveim tjöldum sem reyna að lokka mig frá hreiðri sínu.
Annar þeirra gætir sín ekki og fer full nærri kríuhreiðri.
Krían reiðist og steypir sér niður að honum.
Aftur og aftur.
Hann kippist við í veikburða tilraun til að forða sér.
Tekst ekki.
Og krían goggar í hann.
Undarlegt að tjaldurinn fljúgi ekki burt.

MORGUNN Í SKÁLA
(Víknaslóðir 2006)

Þegar ég kem til baka í skálann, upp úr hálfátta, er enginn kominn á stjá.
Fer inn í eldhús og hita vatn.
Helli á kaffi og fæ mér morgunverð.
Þá fljótlega fer fólk að rumska.
Fyrst kemur einn niður.
Svo annar.
Fólk rís úr rekkju í rólegheitum.
Fær sér að borða.
Plástrar á sér fætur. Þeir sem þess þurfa og vilja.
Enginn stressaður eða að flýta sér.

HÁLF FJÖLL
(Víknaslóðir 2006)

Skríður niður að fjöllum þokan.
Sker þau sundur svo virðast aðeins hálf.

ÓMUR AF RÖDDUM
(Víknaslóðir 2006)

Sit í rúmi í skála.
Stari út í loftið.
Heyri óm af röddum berast að neðan.
Fólk að ræða saman meðan það fær sér morgunmat.
Undirbýr gönguferð dagsins.

ÞOKA Á FJÖLLUM
(Víknaslóðir 2006)

Læðist niður fjallshlíðina þoka.
Þétt.
Óttast að loki mig inni í sér.
Svo ég týnist eins og fjöllin.
Og óvættirnar sem geta birst út úr þokunni er minnst varir.

GENGIÐ NIÐUR
(Víknaslóðir 2006)

Höldum hópinn á leiðinni niður. Enda snarbratt, þó ekki sé leiðin erfið. Vel stikuð og markaðir
slóðar.
En betra að fara varlega í þokunni.
Er við komum neðar í fjallið léttir til og Seyðisfjörðurinn blasir við okkur.
Fallegur með sín tignarlegu fjöll allt um kring.

HUGSAÐ TIL MÆLIFELLS Á LEIÐ Í BÓLUGIL
(2006)

Meðan ég geng upp í Bólugil lít ég annað slagið til baka, yfir á Mælifell sem blasir við mér handan Héraðsvatna. Í fyrstu er tindurinn hulinn skýjum og ég hugsa; nei, ekki hægt að fara þarna upp í dag.
Næst þegar ég horfi á tindinn hefur aðeins rofað til.
Þegar ég svo sný til baka í bílinn, er að glaðna til og skýin smám saman að mjakast burt frá
tindinum.
Í bili að minnsta kosti.
Ætla því að fara að honum og reyna.

MYNDAFERÐ
(Skagafjörður 2006)

Keyri rólega og horfi í allar áttir. Stoppa bílinn þegar ég sé eitthvað sem vekur áhuga eða er
myndrænt.
Lækur sem rennur friðsæll um dalinn.
Hæðir og hólar í landslaginu.
Jafnvel girðingarstaurar uppi á hæð.
Stekk út úr bílnum með þrífótinn í hendinni og myndavélina fasta við hann. Stilli honum upp og stilli vélina.
Ýti á takkann.
Bíð þar til smellur af.
Trekki.
Stilli aftur.
Kannski örlítið annað sjónarhorn. Linsan færð upp eða niður.
Tek aðra mynd.
Snarast svo aftur inn í bílinn og held áfram.
Í rólegheitum.

EINN Í KYRRÐINNI
(Súlur 2004)

Dásamlegt að vera einn í kyrrðinni.
Heyra ekkert nema fuglasöng og árnið í fjarska.
Pikkið í göngustöfunum skemmir jafnvel kyrrðina. Eins og það sé hljóð sem ekki á heima í þessari veröld.
Og þó ég viti að leiðin sé fjölfarin, vaknar samt í brjóstinu landkönnunartilfinning.
Eins og ég brjótist um ókannað og jafnvel ónumið land.

HRAFNAR Á GIRÐINGASTAUR
(Dalsmynni 2004)

Geng í fyrstu eftir vegi sem liggur að tveim sumarbústöðum. Fyrir utan annan þeirra sólblóm.
Gul og falleg.
Fer yfir göngubrú og áfram upp hæðina.
Þegar ég nálgast girðingu á bænum Skarði, sé ég tvo hrafna sitja á girðingastaur.
Meðan ég leita að myndavél í magaskjóðunni minni fljúga þeir brott.
Að sjálfsögðu.

STÍGURINN
(Blámannshattur 2004)

Fikra mig lengra upp í hlíðina þar til ég kem inn á kinda- eða göngustíg.
Nema hvorttveggja sé.
Sé fótspor á honum, svo hann hefur greinilega verið genginn.
Held mig á þessum stig, sem liggur að gili og í því á sem ég fer yfir.
Nota tækifærið og fylli á vatnsbrúsann minn.
Ferskt, kalt og tært vatnið svíkur aldrei.
Klöngrast upp stíginn handan árinnar.
Næ nú ekki alveg að fylgja stígnum góða.
Fer nokkrum sinnum ýmist upp fyrir hann eða niður fyrir.
Erfitt að halda sig á stígnum eina.
En finn hann ávallt aftur.

HUNGUR
(Blámannshattur 2004)

Finn þegar ég byrja að borða, um leið og ég bít í brauðið, hvað ég er orðinn ofboðslega svangur.
Og mikið er gott að borða brauð og drekka kókómjólk.
Borða banana og gleypa svo tæplega hálft orkusúkkulaði.
Og kaffi á eftir.

Í HLÍÐINNI
(Seldalsfjall 2004)

Ákveð að fara aðeins upp í hlíðina og ganga þar. Í hallanum og mjaka mér hægt og rólega ofar og ofar.
Hefði kannski frekar átt að halda mig á eyrunum niðri í dalnum. Ganga á þeim sléttum meðfram ánni.
Hér er bratt og gilskorningar og árfarvegir sem þarf að klöngrast yfir.
Flestir reyndar þurrir.
Og golan í bakið. Dálítið nöpur en samt ekki mjög köld.
Renn til þegar ég klöngrast yfir skriðurnar en næ að skjóta stöfunum niður áður en ég dett.
Skórnir mínir líka sleipir. Sólarnir búnir.
Þarf nauðsynlega að fá mér nýja.

UPPI Á FJALLINU
(Seldalsfjall 2004)

Næðingur þegar ég kem upp á fjallið.
Sest í skjól við smá hæð.
Fæ mér að borða.
Takmarkinu náð: ég komst alla leið.
Geng fram á brún. Tylli mér á stein.
Horfi á bílinn minn agnarsmáan langt fyrir neðan.
Víðsýni héðan ekkert mjög mikið. Enda hærri fjöll á alla vegu, nema fram Öxnadalinn.
Þar sem áin liðast og hlykkjast til sjávar.

VIÐ RÆTUR BAULU
(2004)

Á leið að rótum Baulu kem ég auga á stórglæsilegan foss í Bjarnardalsá.
Eða einhverri hliðaránni sem í hana rennur.
Er ekki alveg viss og veit heldur ekki hvað hann heitir.
Geng að fossinum.
Skoða.
Tek myndir.
En hitti ekki bara fyrir foss, heldur líka mann á mótorhjóli, sem er að koma frá honum.
Segist hafa farið á Baulu í morgun.
„Hún er ógeðslega erfið,” segir hann „brött.”
Efast um að ég komi stöfunum mínum við á leiðinni upp.
Hann segist nánast hafa þurft að skríða upp. Fór kannski þar sem brattast er og ekki vel útbúinn.
Í gallabuxum og strigaskóm.
Kveðjumst og hann brunar burt á mótorhjólinu en ég rölti áfram.

TINDURINN SAFNAR Á SIG SKÝJUM
(Borgarfjörður 2004)

Meðan ég feta mig upp, ofar og ofar að neðstu urðum Baulutinds, hvíslar rödd innra með mér: snúðu við, snúðu við.
Þegar ég nem staðar, sest niður, fæ mér vatn og kaffisopa og horfi upp á tindinn, sé ég að hann er að safna á sig skýjum.
Þau hrannast að honum og hylja hann allan. Þó himininn allt í kring sé nánast heiðblár.
Tek mark á röddinni í huganum.
Sný við.
Veit að tindurinn fer ekkert.

ÁIN SEM RENNUR Í VITLAUSA ÁTT
(Sprengisandur 2003)

Stoppa við á sem mér finnst renna í vitlausa átt. Eins og hún renni upp í móti.
Fagurgrænn og gulur mosi, dýjamosi, vex í ánni og farvegi hennar sem og á bökkunum.
Og allt í kring auðnin.
Geng niður að ánni.
Tek nokkrar myndir.

Á SPRENGISANDI
(2003)

Yndislegt veður.
Steikjandi hiti og þó blási svolítið er það bara frískandi.
Verst hvað sandurinn sest á mann og fer jafnvel upp í mann.
Og rykið af bílunum sem fara framúr.

Í MIÐRI EYÐIMÖRK
(Sprengisandur 2003)

Bara ég og bíllinn í sandauðn á miðju Íslandi.
Og á með fagurgrænum mosa.
Í fjarska þrjár kindur.
Ær með tvö lömb.
Í miðri eyðimörk.

EITTHVAÐ GRÆNT Í AUÐNINNI
(Sprengisandur 2003)

Fjórðungsvatn og Fjórðungsalda vin í eyðimörkinni. Hofsjökull blasir við, baðaður sól og geysilega fallegur.
Við suðurenda Fjórðungsvatns kem ég auga á eitthvað grænt í auðninni.
Fagurgrænt.
Þó ekki mosa. Sé það strax.
Horfi á þetta smástund.
Átta mig á að þarna hefur einhver slegið upp tjaldi.
Og grilli í dökka þúst af mannveru við tjaldið.

SOFIÐ Í BÍLNUM
(Sprengisandur 2003)

Sef ágætlega í aftursætinu á bílnum.
Reyndar svolítið stirður þegar ég vakna.
Sofnaður um tólf en rumska milli fimm og hálf sex. Sofna aftur og vakna ekki fyrr en rúmlega sjö.
Rís þá upp. Teygi úr mér í morgunkulinu. Reyni að liðka stirðan skrokkinn.
Fæ mér að borða og kaffi áður en ég held til baka.
Legg eiginlega ekki í ófæruna sem ég stoppaði við í gærkvöldi.

HJÓLREIÐAMENN
(Landmannaleið 2003)

Mæti hóp af hjólreiðamönnum.
Sjálfsagt einum tíu eða fimmtán.
Bíll á eftir.
Ég fer út í kant. Stoppa.
Hleypi þeim hjá.
Virðast vera frá mörgum þjóðum.
Og íslendingar nokkrir. Því einhver segir skýrt „takk” þannig að ég get auðveldlega lesið það af vörum hans.

HIN KLASSÍSKA SPURNING
(Landmannaleið 2003)

Fer upp að Hnausapolli, einu af mörgum vötnum á Íslandi sem hefur myndast í gíg.
Grænt og fallegt.
Á eftir mér kemur fólk, ungt par, á gráum bíl. Jepplingi.
Fór fram úr þeim skömmu áður.
Spjalla aðeins við piltinn, sem á ensku greinilega að móðurmáli. Heyrist vera Breti.
Samt ekki viss.
Þau á leiðinni í Landmannalaugar. Hafa flakkað um landið í rúmar tvær vikur og eru núna að koma inn á hálendið.
Og ég spyr ekki hinnar klassísku spurningar.
Dettur það ekki í hug.

MÆTI RÚTU Á MJÓUM VEGI
(Fjallabak nyrðra 2003)

Vegurinn hrikalega mjór um fjallaskörðin.
Svo mjór að ég er næstum farinn útaf þegar ég mæti rútu.
Rútubílstjórinn fylgist grannt með mér.
Kæmi líklega til aðstoðar ef á þyrfti að halda.
En það sleppur.

ELDGJÁ OG ÓFÆRUFOSS
(Fjallabak nyrðra 2003)

Og svo bara allt í einu er ég kominn í Eldgjá, sem er náttúrlega allt öðruvísi en ég hélt.
Héðan hægt að ganga í hálftíma eða svo að Ófærufossi.
Sú leið greinilega mikið gengin, því stígurinn vel troðinn.
Fossarnir ófæru falla í tveim eða þrem stöllum fram af berginu. Stórglæsileg náttúrusmíð.
Dvel skamma hríð við Ófærufoss. Tek nokkrar myndir. Til þess hengslaðist ég með
myndavélatöskuna á öxlinni.
Sný svo til baka í bílinn.
Ríf í mig kjúkling og held ferð minni áfram.

MÆTI HÓP AF FÓLKI
(Fjallabak nyrðra 2003)

Á leiðinni til baka frá Ófærufossi mæti ég hóp af fólki sem er á leið að fossinum.
Fólk af mörgum þjóðernum og á ýmsum aldri.
Ensku- og þýskumælandi heyrist mér.
Tvisvar á leiðinni er ég stoppaður og spurður hve langt sé að fossinum.
Ég reyni að greiða úr því.

PAR Á RAUÐUM PALLBÍL
(Lakaleið 2003)

Rétt á undan mér á Lakaleið er rauður pallbíll með hús.
Par í bílnum.
Fer yfir Geirlandsá sem er þó nokkur á.
Parið í bílnum á undan er hálfsmeykt. Stoppa út í miðri ánni en komast þó yfir.
Þau eru þýsk en tala samt ágæta ensku. Hann að minnsta kosti. Hún virðist skilja og kunna en segir ekki margt.
Vegurinn hlykkjast og sikksakkast áfram í átt að Lakagígum. Yfir smásprænur og um falleg fjöll og hóla.
Komum að öðru vaði og þau stoppa.
Ég býðst til að fara á undan svo þau sjái hversu djúp áin er.
Spyr hvort þau eigi bílinn?
„Nei, þetta er bílaleigubíll,” segir hann, og sá sem leigði þeim bílinn sagði, að ekki mætta fara vatn upp fyrir mið dekk.
Ég fer yfir á undan og þau koma á eftir og allt í besta lagi.
Komum loks að skilti þar sem stendur: Lakagígar náttúruvætti.
Þau dauðfegin að vera næstum komin á áfangastað.
Þau eru hjón, nýgift, á brúðkaupsferð.
Ætla að fara vítt og breitt um landið næstu vikurnar. Langar helst að sjá það allt en vita að það er ekki hægt. Spyrja mig um leiðir og hvað er áhugavert að sjá.
Ekkert okkar verður fyrir vonbrigðum með Lakagíga.
Geysilega fallegt svæði, sem ég ek um og tek nokkrar myndir.
Leiðir skiljast.
Parið á rauða bílnum er búið að koma sér fyrir á hæðinni þar sem farið er inn í náttúruvættið
Lakagíga. Þar ætla þau að láta fyrirberast í nótt.
Ég held hins vegar til baka.

LJÓS SEM HVERFA
(Lakaleið 2003)

Sé bílljós í fjarska.
Bíll á vegi sem eiginlega liggur í hring um Lakagígana.
Fleiri á næturgölti en ég.
Glitti í þau á ný fyrir aftan mig.
Hverfa svo.
Sé þau ekki aftur og veit ekki hvað um þau varð.

Á FERÐ ELDSNEMMA MORGUNS
(Suðurland 2003)

Þoka þegar ég kem niður á þjóðveg og skyggni því lítið.
Léttir til þegar ég nálgast Vík í Mýrdal, en enn lágskýjað. Birtir meira þegar ég kem lengra vestur.
Og sól glitrar á jökli framundan.
Mæti fyrsta bílnum þegar ég er kominn framhjá Vík.
Merktur Vegagerðinni.
Og þegar ég kem lengra eru þar tveir kyrrstæðir stórir bílar.
Annar merktur „vegamálning” og augljóst að hér hafa menn verið að vinna í nótt.
Línurnar á veginum nýmálaðar.

ÞOKA Á HEIÐI
(Holtavörðuheiði 2003)

Þokan á heiðinni svo þétt að rétt greini veginn framundan.
Grilli þá, allt einu, í eitthvað dökkt með ljósum blettum inni í þokunni.
Óttast að nú, loks, mæti ég trölli eða annarri óvætt.
En sé þegar ég kem nær að þetta er einungis mótorhjólið sem fór fram úr fyrir skömmu.
Áður en við keyrðum inn í þétta þokuna.

Á FERÐ Í HRÍÐ OG MYRKRI
(Vatnsskarð 2000)

Lokaður inni í myrkri og þéttri hríð sem lemur bílinn af krafti.
Vegurinn flugháll og hríðin svo þétt að sé varla út úr augunum.
Ljósin ná ekki að lýsa nema fáeina metra og varla það.
Ek löturhægt svo bíllinn renni ekki til og útaf.
Í næsta skafl.
Rétt greini stikurnar á veginum fyrir framan.

GRÓÐURLAUST DÖKKT FJALL
(Vatnaleið 2000)

Handan árinnar dökkt fjall. Gróðurlaust.
Líkt og gert úr mjúku bergi eða jafnvel sandi.
Fæ á tilfinninguna að það geti fokið burt þá og þegar.
Væri meiri vindur.
En það er nánast logn.

ÁLFTIN EINMANA
(Vatnaleið 2000)

Á Hítarvatni einmana álft sem gargar og gargar.
Eins og hún hafi týnt einhverjum og sé að kalla á hann.
Leita.
En finnur ekki.
Undrumst að hún skuli vera ein.
Enginn maki. Engir ungar.
Sjáum skömmu síðar hóp af álftum í fjöruborðinu.
En vinkona okkar jafn ein og einmana.

HEYSKAPUR
(Þverárdalur 2000)

Á túnum fólk í heyskap.
Karlmenn berir að ofan í blíðunni. Bæði úti við sem og inni í dráttarvélum.
Víða búið að taka saman og rúlla.
Mismargar rúllur standa á túnunum og bíða þess að verða fluttar heim á bæ.
Til notkunar í vetur.

EYÐIBÝLI Á HEIÐI
(Þverárfjall 2000)

Eyðibýlið starir tómum augum eða gluggum á vegfarendur.
Sjálfsagt fullt hús af draugum.
Gamalt timburhús.
Tré stendur fyrir framan það.
Eitt.
Gler farið úr gluggum á neðri hæðinni. Rúður enn á þeirri efri.
Flögnuð málning.
Við hliðina gömul og niðurnídd útihús. Að hruni komin.
Standa uppi af gömlum vana.
Nema draugarnir sem hafa lagt bæinn undir sig, sjái til þess það hrynji ekki.

SKÝ
(Þverárfjall 2000)

Skýin á himninum þunnar slæður sem bíða þess eins að komast niður að fjöllunum og vefja sig utan um þau.

VEIÐIFERÐ
(Vesturhóp 1999)

Geng með tvær veiðistangir meðfram vatninu.
Bý til taum og dettur í hug að nota síld, venjulega lúxussíld sem beitu. Set hana á öngul og með flot.
Spún á annarri stöng.
En ekkert gengur.
Þrátt fyrir tveggja tíma hark.
Varð reyndar var.
Að minnsta kosti hvarf síldin alltaf.
Kannski var svona illa beitt?
Kannski voru þetta kríli sem átu af.

Á KILI
(1999)

Ryk afskaplega mikið á Kili.
Svo ekki er hægt að hafa opna glugga á keyrslu.
En ef þeir eru lokaðir ætla allir að kafna úr hita inni í bílnum.
Því þarf að stoppa oft.

FRÖNSK STÚLKA VIÐ GEYSI
(1999)

Stúlka, held hún sé frönsk samt ekki viss, situr á jörðinni við Geysi. Heldur á hljóðnema sem hún beinir að Strokki þegar hann gýs.
Tekur upp hljóðin í honum.
Vona bara að masið í okkur yfirgnæfi ekki Strokkinn.

HELLIRIGNING
(Suðurland 1999)

Það hellirignir.
Og hefur gert síðustu klukkutímana.
Staðarhaldari á hótelinu segist hafa frétt, að allt væri fullt allsstaðar. Bæði vestur úr og fyrir austan.
Stór hluti fólk, sem kemur óvænt. Hafði hugsað sér að tjalda en hætt við vegna rigningarinnar.
Gott að við áttum pantað.

Á MILLI FJALLA
(Laugavegur 1998)

Ekki furða þó til hafi orðið sögur af útilegumönnum og tröllum hér inni á milli fjalla.
Víða stígur upp gufa í fjarska og vel hægt að ímynda sér reyk frá mannabústöðum.
Bróðir minn nýtir sér einn hverinn og sýður í honum egg.

SVISSLENDINGAR Í HVANNGILI
(1998)

Hittum fáeina Svisslendinga í Hvanngili.
Einn þeirra lendir í því óhappi að hella sjóðandi vatni yfir ristina á sér og brennist illa. Til allrar
lukku staddur læknir á staðnum sem býr um fótinn.
En ferð Svisslendingsins verður ekki lengri.
Sendur beint á spítala í Reykjavík.

MARKARFLJÓTSGLJÚFUR
(1998)

Leggjum frá okkur byrðar rétt áður en við komum að Emstruskála og göngum að
Markarfljótsgljúfrum.
Þau stórfengleg.
Langt fyrir neðan okkur í gljúfrunum flýgur fugl.
Svo agnar, agnar smár og lítill.

STRÁKARNIR SEM DEILDU RÚMI Í SKÁLA
(Laugavegur 1998)

Vöknum snemma. Viljum hafa daginn fyrir okkur.
Aðrir skálafélagar tygja sig einnig af stað.
Þeirra á meðal tveir strákar sem deildu rúmi í nótt.
Vakna á svipuðum tíma.
Leggja af stað með skömmu millibili.
Stoppa að minnsta kosti einu sinni á sama stað.
Talast þó aldrei við.
Ekki eitt einasta orð.

KOMIÐ Í ÞÓRSMÖRK
(1998)

Göngum fram á fimm eldri konur þegar við komum í Þórsmörk, sem sitja þar í grasi og sóla sig.
„Þarna er verið að æfa skíðagöngu,” segir ein þeirra.
Við öll með stafi. Ég reyndar skíðastafi.
Ein kvennanna áttar sig á ferð okkar.
„Voruð þið að koma Laugaveginn?” spyr hún.
„Já” svörum við og segjumst vera að drífa okkur í gufu.
Og það gerum við.
Smástund.
Áður en rútan fer í bæinn.

GENGIÐ MEÐFRAM VESTURLANDSVEGI
(1995)

Að ganga. Rölta í rólegheitum. Einn.
Jafnvel meðfram Vesturlandsveginum.
Gangan sjálf sem máli skiptir. Umhverfið aukaatriði.
Og þó maður hafi farið margoft um svæðið, ekið eftir veginum, er engu líkara en maður hafi aldrei komið hér áður.
Allt kemur kunnuglega fyrir sjónir, en er samt framandi.
Kunnuglega ókunnuglegt.
Og bílstjórar og farþegar þeirra bíla sem ég mæti, gjóa á mig augum eins og þeir hafi aldrei séð aðra eins furðuskepnu.
Gangandi furðuskepnu.

FERÐ UM ÍSLENSKA MALARVEGI
(Vestfirðir 1995)

Að aka um malarvegi í grenjandi rigningu: vegirnir drullusvað og drullan slettist á bílinn.
Það fyrsta sem gera þarf er í áfangastað er komið: þvo bílinn og þvo.

GÖNGUFERÐ AÐ KLÚKU
(Strandir 1990)

Dóttirin og ég förum í göngutúr að Klúku. Niður á veg. Og myndavélin er með en er þó ekki notuð eins mikið og til stóð.
Ég er að taka mynd og dóttirin ætlar að hlaupa á undan heim í náttstað. En þarf að fara yfir
grindahlið og dettur með fæturna á milli og festist.
Þar situr hún háskælandi þar til ég kem til bjargar og henni verður ekki meint af.

MORGUNKYRRÐIN
(Strandir 1990)

Í morgunkyrrðinni kallast fuglarnir á.
Engu líkara en þeir séu að syngja við undirleik kliðmjúks lækjarniðs og jarm kindanna hljómar sem bakraddir.
Aðeins kyrrðin.
Hvergi fólk.
Hvergi bíll.

REFUR
(Strandir 1990)

Refur í hópi fugla óttast hljóðið í bílnum sem nálgast óðfluga.
Forðar sér því inn á tún.
Kippir sér ekkert upp við kríuhópinn sem sveimar yfir höfði hans og steypir sér niður að honum.

HUGBOÐ
(V.- Hún 1990)

Skyndilegt hugboð: fara yfir ána.
Hljómar svo sterkt í huganum að ómögulegt annað en fylgja því.
Enda kannski eins gott.
Skömmu síðar sést mýrarbleyta handan árinnar.

HRAFN Á KLETTI
(V.- Hún 1990)

Niðri í gili situr hrafn á kletti.
Svo svartur að sýnist blár.
Myndvél beint að honum. Smellt af.
Tíst í fugli í fjarska. Hrafninn spennist upp. Teygir höfuðið og reynir að sjá fuglinn.
Vappar aðeins um á klettinum.
Alltaf í sigti vélarinnar.
Gengur fram á brún. Stekkur og breiðir úr vængjum.
Smellt af.
Hann flýgur á næsta klett og notar uppstreymið í gilinu til að komast hærra.
Sest á grasbala.

KIND Í BORGARFIRÐI
(1990)

Skynsöm kind í Borgarfirði:
Stendur við vegarkantinn. Lítur til beggja hliða.
Fullvissar sig um að engir bílar séu í nánd.
Töltir þá yfir.
Og lömbin hennar tvö í humátt.

LYKT AF KÚAMYKJU
(Eyjafjörður 1989)

Lykt af kúamykju fyllir loftið.
Magnast þegar við nálgumst Fagraskóg. Verður svo til óþolandi.
Eins gott að hægt er að þjóta á bíl eftir malbikinu og skilja fnykinn að baki.

MAÐUR MEÐ BARNAVAGN
(Dalvík 1989)

Eftir höfninni gengur maður með barnavagn.
Stansar og spjallar við kunningja.
Virðir fyrir sér umhverfið sem hann þekkir svo vel.
Undrast líklega þetta undarlega fólk sem tekur myndir af einhverju hundómerkilegu drasli.
Snýr sér fljótt að kunningjunum.
Spjalla um gæftir og veður.
Uns hver fer í sína áttina.
Maðurinn með barnavagninn heldur áfram göngu sinni.
Kunningjar hans þjóta burt á bílum sínum.

ÖXNADALUR
(1989)

Öxnadalurinn teygir úr sér.
Alltaf jafn langur. Jafnvel lengri en maður heldur áður en lagt er upp.
Og í fjarska heiðin hulin þoku.
Bæir þjóta hjá eins og kvikmynd sem sýnd er hratt.
Já, þarna er þessi bær.
Þá hægt að staðsetja sig nokkurn veginn í dalnum.
Enginn man þó nafn bæjarins.

BÍLVEIKI Á VATNSSKARÐI
(1989)

Yngsti ferðalangurinn seldi upp öllu því sem hann fékk í Varmahlíð.
Stoppað á móts við fjárhús.
Stóllinn og barnið þrifið eftir bestu getu. Miðað við aðstæður.
Kindur á vappi við húsið. Góna í forundran á aðfarir og athafnir ferðalanganna.
Hundur vogar sér aðeins nær.
Forvitinn.
Hættir sér þó ekki of nærri.
Sú stutta kemur auga á hann. Ætlar að vingast við hann:
„Bö”
Hundurinn snýr sér við. Hleypur á brott. Með skottið milli fótanna.
Öruggara að halda sig í skjóli við fjárhúsið.
Lætur ekki á sér kræla fyrra en bíllinn fer af stað.
Kemur þá hlaupandi úr skjóli sínu og geltir.

BÍLAR MÆTAST Í RÖKKRI
(Langidalur 1989)

Óðum skyggir.
Hægt og bítandi vinnur myrkrið á ljósinu.
Háuljósin nauðsynleg.
Í myrkrinu sjást ljós í fjarska. Nálgast á miklum hraða.
Nauðsynlegt að lækka ljósin.
Örskotsstund eru bílarnir samhliða. Þjóta svo hvor í sína áttina.
Annar vestur.
Hinn austur.