Myndir úr útlegð -2001

Konurnar frá Transilvaníu koma langt að með varning sinn í töskum og skjóðum. Breiða hann á bekkina á torginu. Fyrir augum þeirra er fara hjá.

Dúkar, föt og diskar flæða um torgið.

Þær sitja á bekkjum. Svartklæddar með marglita skýluklúta á höfði. Bródera. Gjóa augum á vegfarendur svo lítið ber á.

Og smátt og smátt fækkar mununum á torginu. Ferðamenn eða heimafólk hefur þá á brott með sér. Og í vasa kvennanna frá Transilvaníu safnast matarpeningar handa fjölskyldunni suður frá.

Einn daginn eru þær horfnar. Varningurinn seldur og heima bíður fjölskyldan.

Myndir úr útlegð

1

Undarlegt hvað hægt er að misreikna sig: halda að vélin eigi að fara klukkan hálfníu og rífa sig upp eldsnemma til að missa nú örugglega ekki af henni, uppgötva svo þegar búið er að tékka inn og maður heldur að biðin verði rétt klukkutími, að vélin á ekki að fara fyrr en hálftíu!
Biðin verður því klukkutíma lengri en til stóð. En hún tekur enda loks.

2

Ég kem inn á bar. Stúlka í þröngu leðurpilsi selur mér bjór. Önnur kemur inn. Fær kaffi. Spilar
tölvuspil.
Inn kemur gömul kona. Fer að þrífa.
Sú í leðurpilsinu hellir víni í staup og ávaxtasafa í glas. Sú gamla sturtar úr staupinu. Upp í sig.
Skolar því niður með ávaxtasafanum. Heldur áfram að þrífa.
Sú í pilsinu fær sér brauðsneið og fer líka að spila tölvuspil.
Ég er eini viðskiptavinurinn.
Svo koma fleiri viðskiptavinir. Ungverskir.
Maður og kona. Biðja um kók. Fá sitt glasið hvort. Borga og sturta úr glösunum í sig. Fara.
Svo fer stúlkan í gallabuxunum.
Sú í leðurpilsinu er enn að vinna og sú gamla að þrífa. Klósettið. Tannlaus og rífst og skammast.
Að því er virðist.
Ég skil hana ekki. En stúlkan svarar fullum hálsi.
Kannski eru þær að tala um mig.
Ég veit það ekki. Og það lækkar í glasinu mínu og stúlkan heldur áfram að spila, þar til fleiri
viðskiptavinir koma inn.
Maður sem biður um kaffi og stúlka sem skilar bjórflösku. Fær aðra. Fulla og fer.
Stúlkan í leðurpilisinu getur svo snúið sér aftur að tölvuspilinu.
En ég sting úr glasinu og held út í sólskinið.
Held áfram að skoða borgina.

3

Áramótin undarleg; engin boð eða veislur, frekar en um jólin.
Göngutúr um miðbæinn. Þar talsvert af fólki. Aðallega þó unglingar með lúðra og sprengjur. Þeir fullorðnu greinilega inni á börum og í heimahúsum, því háreysti og hávær tónlist berst út á göturnar.
Á miðnætti fara Ungverjar að skjóta upp flugeldunum sínum og loftvarnaflautur eru þeyttar.
Leitargeisli sker himininn. Neðan úr miðbæ berst mikið flaut og fagnaðarlæti. Flugeldarnir springa en loga stutt. Hér eru engar bátasólir eða rauð blys. Eins og heima.
Svo er komið nýtt ár. Hér. En klukkutími eftir af því gamla heima.

4

Skrýtið að vera næstum peningalaus í útlöndum og komast að því hvað maður getur í raun og veru lifað spart.
Það er að minnsta kosti hægt í þessu landi.
Ennþá.

5

Fréttir að heiman: Allt að fara til andskotans! Ætli það verði ekki komið þangað þegar við komum heim?

6

Leiðinlegt að fá aldrei bréf. Maður athugar í póstkassann tvisvar til þrisvar á dag. Og hann alltaf jafntómur.

7

Förum út í búð. Tölum saman á leiðinni. Maður fyrir framan okkur snýr sér við og spyr hvort við tölum ensku. Spyr svo hvaðan við séum. Hvaða mál þetta sé eiginlega sem við tölum.
Hélt við værum Hollendingar.

8

Ekkert bólar enn á vorinu. Það hefur snjóað látlaust í tvo daga og Ungverjar sópa og moka tröppur og gangstéttir í gríð og erg í snjókomunni.

9

Óvenju mikið af tötraklæddu og óhreinu fólki, með úttroðna poka eða byrðar á bakinu, á ferð.
Hugsanlega fólk sem er að flýja undan snjókomunni.
En hvert?

10

Vorið er komið: Ungverjar eru farnir að borða ís aftur.

11

Ég geng eftir gangstétt. Á móti mér koma tveir ungir menn. Á aldur við mig. Kannski eilítið yngri.
Kannski litlu eldri.
Ég veit það ekki.
Annar er klæddur leðurjakka, bol og gallabuxum.
Hinn er í bol og gallabuxum.
Báðir í strigaskóm eða íþróttaskóm.
Sá í leðurjakkanum er með bjórflösku í annarri hendi. Heldur þétt um flöskuhálsinn eins og hann óttist að missa hana.
Svipurinn íbygginn og stoltur í senn. Líkt og hann sé stoltur af bjórflöskunni sinni.
Hinn fylgir honum með svip sem lýsir ánægju með afrek félagans.
Hvert svo sem það er.

12

Göngum út fyrir bæinn og erum fyrr en varir komin út í sveit.
Bær við bæ.
Við hvern einasta hundur sem geltir er við göngum framhjá.
Til allrar hamingju eru þeir festir með keðjum við kofann sinn.

13

Sól og blíða þessa dagana. Við sitjum í sólbaði á svölunum. Flugurnar komnar á kreik. Heyrum til Ungverja á næstu svölum. Þó líklega séu þeir ekki eins fáklæddir og við.

14

Sit úti á svölum. Útvarpið í gangi. Stillt á ungverska stöð. Heyri allt í einu kunnuglega tóna. Efast smástund en sannfærist fljótt.
Fæ staðfestingu þegar þulurinn afkynnir og ég gríp fáein orð: „Garden party…Izland.”

15

Þjótum um ungversku sléttuna á leið til Búdapest á köldum vordegi. Frosin döggin glitrar sem perlur á grasinu. Trén enn lauflaus. Standa teinrétt í þráðbeinum röðum. Húsin sem við förum hjá flest lágreist og brúnleit.
Fáir á ferli svona snemma dags.

16

Skammt frá mér í lestinni situr maður sem talar látlaust við konu sem situr við hlið hans. Um
Ungverjaland og menntamenn, heyrist mér í það minnsta af þeim fáu orðum sem ég skil. Konan virðist ekki hafa mikinn áhuga á því sem hann segir og reynir að lesa blað sem hún hefur í kjöltu sinni. Allt í einu þagnar maðurinn, þrátt fyrir að honum hafi verið mikið niðri fyrir. Hann seilist ofan í tösku sína, dregur upp kjúklingabita og brauð. Rífur þetta í sig af jafnmiklum ákafa og hann talaði áður.

17

Í sætinu skáhallt á móti mér, úti við gluggann í lestinni, situr ung, ljóshærð stúlka. Ómáluð. Hún kreistir bólur á höku sinni.
Næst þegar ég lít í átt til hennar er hún horfin! Í staðinn komin dökkhærð stúlka á svipuðum aldri.
Talsvert máluð, með gleraugu og daufan rauðleitan varalit. Engar bólur.

18

Eigum erindi á sjúkrahús. Bíðum góða stund. Þó ekki eins lengi og maðurinn sem hafði beðið í þrjá tíma er við komum. Jú, hann var nú orðinn dálítið þreyttur á þessari bið og andvarpaði nokkrum sinnum.
Starfsfólk spítalans gengur fram og aftur. Aðgerðarlaust. Kíkir annað slagið fram í biðstofuna. Eins og til að athuga hvort komnir væru nógu margir sjúklingar til að hægt væri að hefjast handa.

19

Setjumst að morgni dags inn á kaffihús. Ég horfi út í sólskinið fyrir utan. Framhjá gengur hávaxinn, þrekinn maður með dökkt hár og alskegg. Klæddur svörtum, þykkum, skósíðum ullarfrakka.

20

Þrír gamlir menn standa við eitt söluborðið á grænmetismarkaðnum. Tala saman. Einn er að selja. Hinir að kaupa. Eða bara spjalla. Á öxl eins þeirra tvö löng kústsköft. Ég rek mig næstum í þau er ég geng hjá.
Þeir eru allir í svipuðum fötum: brúnum buxum og jakka, með derhúfu á höfðinu. Allir eru þeir dökkir og teknir, hrukkóttir í andliti.
Þeir eru greinilega að tala um eitthvað skemmtilegt, því þeir hlæja heilmikið. Einn þeirra rekur upp hrossahlátur. Galopnar munninn svo við mér blasir eina tönnin sem eftir er. Í miðjum efri góm.

21

Þær eru tvær. Fullorðnar konur. Þeir eru tveir. Á sama aldri. Tvenn hjón. Þeir kannski bræður. Þær kannski systur.
Þau fara öll saman á grænmetismarkaðinn á sunnudagsmorgni. Þær strunsa um allan markað. Skoða. Velja. Kaupa. Þeir tölta á eftir. Æ-andi og ó-andi. Eins og þeim dauðleiðist.

22

Hver vagn er einn stór klefi. Í vagninum með okkur er ung stúlka. Varla meira en sextán. Með litla telpu sem er aðeins farin að staulast um. Amma og afi með.
Amman mikil og stór um sig. „Mér finnst skrítið að þessi kona skuli vera svona feit,” segir fimm ára dóttir mín.
Telpan litla hágrætur og vill fá eitthvað sem hún má ekki hafa. Móðirin, stúlkan unga, ræður ekkert við barnið. Ömmunni líkar þetta ekki. Öskrar og gargar á telpuna. Slær hana. Fast. Oft. Tekur hana af móðurinni.
Heldur henni fastri.
„Az grossmutter nem jó,” amman er ekki góð, segir virðulegur eldri maður með alskegg sem situr við hlið mína, á samblandi af þýsku og ungversku.
Afinn virðist sá eini sem eitthvað getur tjónkað við telpuna. Hann tekur í hönd hennar og gengur með hana um klefann. Í hvert sinn sem hún kemur auga á mig stoppar hún og brosir. Ég brosi á móti.

23

Setjumst inn á veitingastað. Drekkum kaffi. Borðum ís. Skammt frá sitja sex unglingsstúlkur sem pískra og hvískra. Gjóa augum í átt til okkar. Hlæja.
Við horfum út. Á iðandi kösina. Rekum augun í tvær ungar stúlkur. Önnur með ryðbrúnt hár. Hin með gulrautt.

24

Að morgni dumbungur, svo kemur sólin. Þá er myndavélin rifin upp og smellt í allar áttir. Svo
kemur rigning. Fáeinir dropar.
Meðan við borðum á kínverskum veitingastað í bakgarði, styttir upp. En komið úrhelli er við
komum út aftur.
Bóka- og blaðasalar breiða plast yfir varning sinn og standa af sér regnið. Ýmist undir regnhlíf, í dyragætt næstu verslunar eða inni í porti.
Við forðum okkur niður í gallerí þar sem seldir eru handunnir munir. Afgreiðslumaðurinn heldur að við séum Ungverjar þar til hann heyrir okkur tala saman á íslensku.

25

Hann situr á stól við fjölfarna götu. Gamall og hrukkóttur. Heldur húfunni sinni á hvolfi og snýr henni að vegfarendum. Gætir þess þó vel að hvorki húfan né hendurnar skyggi á stubbinn þar sem eitt sinn var fótur.
Göngum sömu götu daginn eftir. Sjáum þá aðeins auðan stólinn. Hann er gamall. Rifinn. Illa farinn.
Brenndur að hluta. Eins og kveikt hafi verið í honum.

26

Sit við skriftir úti á svölum. Heyri allt í einu kurr og vængjaþyt og dúfa kemur svífandi. Tyllir sér á svalahandriðið. Lítur ofan í blómapottana. Eins og hún sé að athuga hvort þar leynist eitthvað bitastætt, sem ekki reynist vera, því hún flýgur burt og sest á grein í næsta tré.

27

Konurnar frá Transilvaníu koma langt að með varning sinn í töskum og skjóðum. Breiða hann á bekkina á torginu. Fyrir augum þeirra er fara hjá.
Dúkar, föt og diskar flæða um torgið.
Þær sitja á bekkjum. Svartklæddar með marglita skýluklúta á höfði. Bródera. Gjóa augum á
vegfarendur svo lítið ber á.
Og smátt og smátt fækkar mununum á torginu. Ferðamenn eða heimafólk hefur þá á brott með sér.
Og í vasa kvennanna frá Transilvaníu safnast matarpeningar handa fjölskyldunni suður frá.
Einn daginn eru þær horfnar. Varningurinn seldur og heima bíður fjölskyldan.

28

Sit á bekk í litlum garði. Fyrir framan mig fimm hæða blokk.
Kona úti á svölum á fyrstu hæð. Reykir. Maður á annarri hæð reykir úti í glugga. Þau horfa bæði á mig og ég á þau.
Svaladyr á annarri hæð opnast. Út kemur ung húsmóðir með fangið fullt af þvotti. Hengir hann á grind.
Uppi á efstu hæðinni opnast svaladyrnar og út kemur kona. Einnig með fangið fullt af þvotti.
Á einum svölunum vökvar gamall maður blómin sín. Á öðrum stendur maður og les dagblað.

29

Á bekk skammt frá mér sitja kona og gamall maður. Veit ekki hvort þau eru hjón. Efast þó um það.
Hann virðist útigangsmaður. Er þannig klæddur. Hann er gráhærður með grátt yfirvaraskegg.
Hún er betur klædd.
Þau tala saman og gjóa augunum til mín. Eins og þau tali um mig.

30

Úr fjarska berst tónlist. Færist stöðugt nær og nær. Tveir unglingspiltar koma inn á torgið. Setjast á einn bekkinn og stilla kassettutæki í poka á bekkinn. Eftir örlitla stund standa þeir upp, taka tækið og koma í átt til mín. Setjast á næsta bekk við mig. Lækka aðeins í tækinu sem bunar út úr sér rapptónlist. Og „fuck” (the police, the government og svo framvegis) virðist mest notaða orðið í textunum.

31

Á næsta borði sitja hjón sem ég held að séu þýsk. Konan er dökkhærð, með gleraugu í grænni umgjörð og í grænum bol. Þegar hún snýr að mér vanga, sýnist mér hún vera með grænan augnskugga.
Maðurinn snýr baki í mig. Sé þó að hann er gráhærður með grátt skegg.
Þau horfa á mannlífið. Fólkið sem streymir hjá.

32

Á teppi við hlið okkar eru tvenn hjón eða pör. Annað parið með tveggja ára barn. Strák. Með þeim er amma, sem sér um barnið allan daginn meðan foreldarnir skemmta sér. Undir kvöld fær hún þó frí og foreldrarnir taka við.
Sú gamla sest á bekk skammt frá og horfir á.

33

Sit á bekk í skugga. Sólin svo kæfandi að ekki er hægt að liggja í sólbaði. Framhjá gengur ung kona í appelsínugulu bikíni. Er hún nálgast tek eftir nöglum hennar: þær eru málaðar í sama lit og bikiníð. Appelsínugular.

34

Setjumst inn á litla greiðasölu í Bratislava. Fáum okkur kaffi og súkkulaði. Skammt frá borðinu okkar stendur kæliskápur með drykkjarvörum. Okkur verður litið í neðstu hilluna. Rekum augun í glæra dós með grænum stöfum. Og grunar strax hvað þetta er:
Seltser.
Grunurinn staðfestur við nánari skoðun.
Kaupum eina dós. Til að athuga hvort seltser bragðist eins í Bratislava og á Íslandi. Svo reynist vera, þrátt fyrir að komið sé fram yfir „síðasta söludag.”

35

Geng stefnulaust um bæinn. Einn. Er skyndilega staddur við kirkjugarðhlið. Án þess ég hafi
beinlínis ætlað þangað.
Ég geng innfyrir. Eftir litla stund, fáein skref inn í garðinn, hellist yfir mig ró og vellíðan sem varir meðan ég geng um og skoða.
Rekst annað slagið á vegvísa á kirkjugarðsstígnum. Tréskilti eins og ör í laginu, sem negld hafa verið á staura sem stungið er niður í jörðina. Á þeim stendur: „Jókai csálad” upp á ungversku. Jókai fjölskyldan. Ég fylgi vegvísunum þar til ég kem að grafreit Jókai fjölskyldunnar. Mór liggur þó ekki þar, heldur einhversstaðar annars staðar. Í öðrum garði.

36

Lendum í erfiðleikum á landamærum Slóvakíu og Ungverjalands. Ungverski landamæravörðurinn gerir sig breiðan og merkilegan. Vill helst ekki hleypa okkur inn í landið. Hann fer með vegabréfin til yfirmanns síns. Kemur með þau aftur eftir skamma stund. Þá eins og allt annar maður. Ekki eins stór og merkilegur. Stimplar þau og réttir okkur.

37

Á torgi framan við ráðhúsið í Vín er sirkus sem þvælist fyrir linsunni.
Kaupi mér bjór í sirkusnum og tylli mér á trébekk við borð úr tré.
Hjá mér sest maður og spyr hvort ég hafi ekki komið á þennan sama stað daginn áður.
„Nei,” svara ég.
Hann spyr þá hvort ég eigi bróður.
Ég svara því játandi en bæti við að hann sé ekki hér, heldur heima á Íslandi.
Manninum þykir þetta undarlegt, því hann sá einhvern sem svipar mjög til mín á þessum sama stað daginn áður!

38

Sest við tjörn fyrir framan Karlskirkjuna í Vín.
Skrifa.
Þá allt einu kemur dúfnahópur æðandi að mér. Þær stefna beint á mig og ég óttast að þær fljúgi á mig.
Ég lít aftur fyrir mig, því þangað stefna dúfurnar. Þar stendur gömul kona með bréfpoka í hendinni, týnir brauðmola upp úr honum og stráir á stéttina.

39

Þau eru mjög ung, innan við tvítugt. Bæði. Hún kasólétt. Hann hendir smámynt út um gluggann um leið og lestin rennur af stað. Einum peningi.
Heillamerki?
Tekur svo upp flösku. Sýpur drjúgt. Réttir henni flöskuna. Hún tekur við og teygar.
„Meira” segir hann þegar hún tekur flöskuna af vörum sér.
Hún hlýðir. Drekkur meira.

40

Er í Búdapest. Geng um götu. Sé neonljósaskilti sem blikkar: „Show center Miami.” Ég geng hjá og tek eftir tveim konum sem ganga fram og aftur þarna fyrir framan. Báðar halda á þykkum veskjum.
Ég lít aðeins á þær. Þær taka strax eftir því og bjóða: „sex?” Ég afþakka og geng burtu.

41

Augun í honum eru heiðblá. Tær eins og vatn. Djúp.
Meðan hann stendur fyrir framan mig og talar við mig, eru þau á stöðugri hreyfingu. Flökta til og frá.
Það er eins og ég sjái til botns í þeim. Óhindrað. Það er ekkert sem hindrar útsýnið niður á botn augna hans. En þar er ekkert. Þau eru alveg tóm.

42

Kem inn á metróstöð í Búdapest. Ung stúlka stoppar mig. Talar mikið og hratt á ungversku. Hún er ung, á mínum aldri. Kannski lítið eitt yngri. Ekkert átakanlega vel klædd, ekki illa kannski en svolítið skítug. Með óþvegið hár og greinilega fátæk.
Ég er með veskið mitt í höndunum. Er að finna mér metrómiða.
Hún talar og talar.
Úr veskinu dettur tuttugu forinta peningur.
Ég lít á stúlkuna. Segi: „því miður, ég skil þig ekki. Ég er ekki Ungverji.”
Þá segir hún eina orðið sem útlendingar eiga að skilja í Ungverjalandi: „forint, forint.”
Ég rétti út annan fótinn og ýti til hennar tuttugu forinta peningnum sem datt úr veskinu mínu. Hún beygir sig niður. Tekur hann upp og þakkar mér fyrir.
Ég held niður og tek lestina.

43

Geng á gangstétt við Dóhány götu í Búdapest. Sé bílateppu. Fremsti bíllinn ætlar að fara beint áfram en þar situr allt fast. Fyrir aftan hann er stór bíll. Í honum kona sem flautar og flautar. Hún baðar út höndunum og segir eitthvað sem þó heyrist ekki, því gluggarnir á bílnum eru lokaðir.
Maðurinn í bílnum fyrir framan, sá sem hún flautaði á, opnar dyrnar hjá sér, stígur út og segir voða rólega og afslappað: „Mi van?” Hvað er að? Og gengur í átt að bíl konunnar sem flautaði.

44

Sit í matarvagni. Skömmu áður en lestin fer heyri ég mikinn hávaða og dyrnar opnast. Inn koma þrjár konur. Tvær ungar og ein nokkuð eldri. Þær rogast með stóra ferðatösku. Í fyrstu heyrist mér þær tala þýsku eða ensku en svo reynast þær vera ungverskar.
Þær setja ferðatöskurnar við borð og fara fram. Önnur þeirra yngi og sú eldri fara út úr lestinni. Sú sem eftir er stendur í dyrunum og kallar til þeirra: „Szerda…biztos.” Miðvikudagur … örugglega og fleira.
Lestin rennur af stað og hún kemur inn. Tekur blöð og penna upp úr handtösku. Fer að lesa og skrifa. Hún er með brúnleitt hár sem þó hefur rauðan blæ. Er öll mjög brún í andliti. Augun eru einnig brún og dökkur skuggi dregur þau vel fram. Augabrúnirnar ekki mjög þykkar en langar og enda í litlum spíss aftan til. Kannski er það þó málning. Nefið dálítið stórt og grófgert en fellur ágætlega á andlitið. Munnvikin beinast örlítið niður á við, eins og hún sé fýlupoki. Á varirnar hefur hún borið örlítinn lit. Úr eyrunum hanga tveir hringir. Litlir.
Annaðhvort er hún leið eða ofboðslega þreytt. Því andlitið er mjög þungbúið. Hún hallar sér
smástund aftur á bekknum og lokar augunum. Sofnar þó ekki. Því eftir litla stund opnar hún þau aftur og fer að lesa. Tímarit.
Henni er skítkalt.

45

Í sólsetrinu, sem er blóðrautt að venju, kem ég auga á far eftir þotu. Það er eins og sár á himninum.
Langt opið sár.

46

Eger er falleg borg.
Miðbærinn státar af þröngum götum og gömlum húsum. Þar fyrir ofan trónir kastalinn.
Borgin full af gömlum húsum. Fallegum. En mörg hafa verið skemmd með nútíma skiltum
hangandi utan á þeim. Bjórauglýsingar. Amstel. Gösser. Nike skilti. Bandaríski fáninn. Og svo
framvegis.
Líti maður framhjá þessum skiltum, ýmist upp fyrir þau eða niður fyrir, eru húsin falleg. Gömul og göturnar eru þröngar og hellulagðar.

47

Sígaunakona á fertugsaldri stormar framhjá mér. Hún heldur á tveim plastpokum og er reið. Talar og talar við sjálfa sig. Enda reifst hún við manninn sinn sem stendur uppvið súlu með hatt í hendinni.
Leggur svo af stað í átt til fólks sem stendur skammt frá. Til að belta.
Konan hverfur úr augnsýn. Tuðandi. Reið.
Hún kemur aftur. Með malboro sígarettupakka í hendinni. Enn tuðandi og með plastpokana.
Maðurinn hefur hins vegar gengið að hópi þýskra túrista með hattinn í hendinni. Betlar. Fáeinir láta smápeninga detta í hattinn.
Ekki margir þó.

48

Geng upp brekku í litlu þorpi. Mæti gömlum manni með hatt. Yfirvaraskegg. Hann gengur við staf.
Og er með brúnan bakpoka á bakinu.
Hann heilsar mér: „Jó napot.” Góðan daginn, segir hann skýrt og greinilega.
Eins og við séum gamlir kunningjar.

49

Vegna vegavinnu seinkar rútunni. Á bekknum við hlið mína sitja ung stúlka og gömul kona, sem einnig bíða rútunnar.
Stúlkan unga heilsar svo til öllum sem framhjá ganga. Frekar þurrlega þó. Gamla konan talar
næstum stanslaust við hana. Án þess að fá mikil viðbrögð.

50

Við hlið mína í rútunni situr ung stúlka sem undrast að ég skuli alltaf annað slagið draga upp bókina mína eða kortið til að reyna að sjá hvar við erum.
Hún segir þó ekki neitt.
Áttar sig á að ég er útlendingar. Og kannski kann hún ekki önnur tungumál en ungversku eða treystir sér ekki til að tala við mig.

51

Fer inn á lítinn bar í Miskolc. Fæ mér einn bjór.
Skrifa.
Inn kemur maður. Pantar sér vodka og sturtar í sig. Pantar bjór. Drekkur drjúgt. Pantar annan vodka.
Sturtar í sig. Klárar bjórinn og fer út.
Þegar ég kem út stendur hann með fjölskyldunni fyrir utan.

52

Í hlíðum Avas hæðarinnar í Miskolc sérstakt hverfi. Það er eins og að vera kominn út í sveit, en samt heyrist þungur umferðarniður frá borginni.
Húsin annars vegar gömul og niðurnídd og hins vegar hús sem virðast vera nýrri eða betur við haldið. Eins og þetta sé gamalt hverfi sem verið er að endurbyggja.
Fáir á ferli um hæðina.
Sé þó mann sem er að dytta að húsi. Hann bíður mér kumpánlega góðan daginn.
Svo kemur íþróttamaður hlaupandi.
Hundur geltir reiðilega að mér.

53

Fer inn í kirkju í Miskolc.
Inni í henni nokkrar gamlar konur. Sitja þar á bæn.
Ég sest á bekk. Skoða kirkjuna. Hún er mikið skreytt. Myndir í loftinu og gullskreytingar ofan við altarið. Stjörnur.
Hún er falleg en kannski of þung. Of skreytt. En kyrrlát og hljóðlát. Andrúmsloftið fyllt sérstakri kyrrð.
Það er gott að sitja inni í henni smástund.
Þegar ég kem út stendur ein gamla konan sem var inni í kirkjunni, á bæn, framan við Maríulíkneski sem stendur á hárri súlu við hlið kirkjunnar og kveikir á kertum við líkneskið.

54

Keyrum um algjörlega slétt landslag. Fjöllin hulin þoku.
Meðfram veginum beggja vegna standa tré sem hafa fellt laufin og greinar þeirra naktar.
Bíða eftir næsta vori.
Stundum finnst mér ég sjá hæðir inni í þokunni. En þegar ég gái betur eða við komum nær, sé ég að þetta eru skógar.

55

Rútan beygir skyndilega út í vegarkant. Stoppar. Og gamall maður fer út.
Til að míga.

56

Þegar ég geng um lítinn bæinn kem ég auga á varðmann uppi á opinberri byggingu eða
hernaðarmannvirki.
Hann stendur þar hreyfingarlaus með byssu á öxlinni.

57

Í smábænum Pálháza er ég ekki alveg viss hvaða rútu ég eigi að taka, enda engar merkingar sem greiða leiðina. Spyr tvo sígaunagutta.
Töffara.
Þeir átta sig auðvitað strax á því að ég er útlendingur. Spyrja hvaðan ég sé og hvert ég ætli að fara.
Ég segist bara vera að skoða landið.
Þá heyrist í gömlum karli meða hálfgerðum fyrirlitningartón: „Turista!”
Ég viðurkenni að ég sé túristi.
Kemst svo í rétta rútu sem þræðir alla smábæi á leiðinni. Og keyrir um fallegar hæðir.

58

Það er logn. Alveg blankalogn. Kalt. Nokkra gráðu frost. Snjóföl yfir öllu.
Trén standa nakin og dökk.
Eins og þau séu stór strá sem streðast við að ná til himins.

59

Sit í lest. Í Tatabanya kemur inn kona. Lítil og þétt. Með henni tvö börn og unglingspiltur. Þau
setjast nálægt mér. Taka upp matarpakka. Börnin fara að borða.
Konan dregur upp sígarettur. Fær sér eina. Og réttir unglingspiltinum aðra.
Yngri strákurinn stendur upp. Ákafur og spyr: „Má ég kveikja í?”
Móðirin réttir honum kveikjarann og hann kveikir. Ber eldinn að sígarettu móðurinnar sem þakkar honum fyrir brosandi.
Svo kveikir hann í fyrir stóra bróður.
Sá yngri er varla meira en átta eða níu ára. Stelpan sem heldur áfram að borða er kannski einu til tveim árum yngri.

60

Er við göngum í átt að kaffihúsi í smábæ í Slóvakíu, stoppar okkur gömul kona og talar við þá innfæddu sem með okkur er. Á slóvesku.
Gamla konan spyr hvaðan við séum og hvað við séum eiginlega að gera í þessum smábæ.
Þessu er auðsvarað.
Meðan á samtalinu stendur hlusta ég og skil það sem fram fer. Veit um hvað konan gamla er að tala.
Þó ég skilji ekki orðin.

61

Lestin fer gegnum Slóvakíu.
Í Bratislava koma inn í klefann til mín þrír heldur skuggalegir náungar.
Annaðhvort Rússar eða Rúmenar. Held ég.
Í fyrstu er ég hálfóttasleginn. Þori varla að sofna. Hvað þá fara á klósettið.
En þeir reynast auðvitað meinlausir.
Auk þess eru tveir eða þrír lögreglumenn í næsta klefa.
Mennirnir þrír sofna og ég halla mér líka.
Þeir fara svo út í Prag og fyrst á eftir þykir mér klefinn hálf tómlegur.

62

Þarf að bíða frá átta að morgni til eitt á Lichetenberg stöðinni í Berlín eftir lestinni til
Kaupmannahafnar.
Hvergi hægt að skipta peningum á stöðinni, enda sunnudagur, svo ég get ekki fengið mér að borða.
Á ekki einu sinni fyrir klósettferð.
Sit því í biðsalnum. Les og skrifa.

63

Í Rostock er farið um borð í ferju og siglt yfir til Danmerkur.
Dásamlegt að sjá loks sjóinn og heyra gargið í helvítis mávinum.
Finna hressandi vindinn blása í andlitið.

64

Stend fyrir framan Flugleiðaskrifstofuna á Kastrup og konan spyr: „Get ég hjálpað þér?” Á íslensku.
Skrýtið að heyra ókunna rödd tala þetta mál eins og ekkert sé eðlilegra.

65

Bíð í biðsalnum á Kastrup eftir að kallað verði út í vél. Hjá mér sest eldri kona og ávarpar mig á dönsku. Spyr hvort ég sé á leið til Íslands.
Ég svara játandi.
Hún spyr þá hvort ég sé kannski Íslendingur.
Ég játa því líka.
Þá fer hún að tala við mig á íslensku, enda íslensk sjálf.
Og reynist vita á mér deili.
Hvað annað?

66

Skrýtið að koma heim og skilja allt.
Fullkomlega.
Í útvarpinu og fólk úti á götu.