Stjörnugarður-2003

SPEGILMYND

Rennir höndum
gegnum hárið
grásprengt


og
brosir
vingjarnlega
við spegilmynd


konunnar
fyrir aftan

Stjörnugarður

 TÖFRAR
      til foreldra minna

 Vinnulúnir
 fingur
 fléttast saman

           Eins og
           svo oft áður

 Og
 töfrarnir vakna
 í brjóstum ykkar

 Enn á ný

 SETTU SÓLINA

 Settu sólina
 undir kodda þinn
 er þú
 leggst til svefns
 að kvöldi

 svo þig
 megi dreyma
 sólskinsstundir

 er þú áttir
 fyrrum

 FÓTSKRIÐA

 Rennum okkur
 fótskriðu
 niður
 hátt fjallið

 Svífum
 fram af klettunum

 Stefnum
 til hafs

 Svartur sandur
 í fjarska

 BRÚN

 Brúnin hál

 Fyrir neðan
 glóandi dýpi

 Logarnir
 teygja
 sig upp

 til mín

 GARÐUR

 Garðurinn
 fullur af
 logandi krossum

           Við hverja bugðu
           á malarstígnum
           væntirðu hópi
           drauga á móti þér

 Þú
 gengur um garðinn

 Leitar leiðar út

 VÆNGIR

 Leggjum
 vængina
 varlega
 frá okkur

 áður en
 við
 höldum
 til hvílu
 í morgundögginni

 SVANIR

 Í augu þín
 setjast
 svanir

 Skilja eftir
 fótspor
 á augasteinunum

 ÞORSTI

 Myrkrið
 stjörnubjart

 Þyrst augu þín
 drekka svalandi
 ljósin í sig

 Slökkva þorstann

 HÖFUÐ

 Lyfti höfði
 varlega
 frá dökkri
 jörð

 Lít ljós
 á himni

 FÖR

 Fingraför
 á spegli
 þurrkast út

 hverfa

 við
 andardrátt

 okkar

 SPEGILMYND

 Rennir höndum
 gegnum hárið
           grásprengt

 og
 brosir
           vingjarnlega
 við spegilmynd

 konunnar
 fyrir aftan

 SKÝ

 Skýin
 að morgni
 marglit

 Langar að
 teygja hendurnar
 til þeirra

 Snerta þau

 Finna
 mýkt þeirra

 SÓLIR

 Sólirnar
 kringum þig
 myrkvaðar

 Líkt og
 tíminn
 hafi aldrei
 snert þær

 SUND

 Syndum
 í myrkri

 Finnum það
 þéttast um okkur

 Reynum
 að ýta frá

 sem vatni

 ÓKYRRÐ

 Sjórinn
 á firðinum
 ókyrr

 Í fjöruborðinu
 liggja ský

 og
 vindurinn
 þeytir
 regndropum
 í andlitið

 SEGÐU MÉR

 Segðu mér
 af himni
 er yfir
 höfði þínu
 grætur

 og
 garði
 er fyllist
 af tindrandi
 stjörnum

 STJÖRNUR Í AUGUM

 Í augunum
 stjörnur

 Tunglið
 fast
 milli varanna

 Sólin
 víðsfjarri

 FJAÐRIR

 Sleppir fjöðrunum

 Þær
 virðast svífa
 til jarðar

 en
 feykjast
 á haf út

 Hverfa

 JÖKULL

 Stingst
        tær og hvítur
 í augu þín

 er þú
 lítur hann
 af hafi

 MÖGULEIKI

 Þokast
 hægt
 nær og nær

 uns
 snertingu
 er náð

 Í það minnsta
 möguleg

 FLAG

 Að húsabaki
 moldarflag

 þar sem
 stjörnurnar
 týnast

 HAF

 Hafið hleypur
 að fótum þeirra

 Hörfar

 sem það flýji

 af ótta

 GESTRISNI

 Helli á kaffi
 og baka pönnukökur
 áður en þið
 komið í heimsókn

 Svo þið
 fáið eitthvað

 þegar ég
 verð farinn

 og
 dyrnar læstar

 UNDRUN

 Stendur á götuhorni

 Horfir á mannfjöldann
 líða hjá

 Í augum undrun

 Líkt og
 hafi aldrei komið hingað áður

 Í huga vaknar
 minning

 Um mold
 raka og gljúpa

 ÞÚ VAFRAR UM VILLTUR

 Og þú gengur
 um skóginn

 Leitar stígs
 að feta
         en finnur ekki

 Líkt og aldrei
 hafi verið lagður
 eða fáir
         ef nokkur
 farið um

 Þú
 vafrar um villtur

 Treður stíg
 er aðrir feta

 Löngu síðar

 NÆTURNAR OKKAR

 Næturnar
 sem við áttum saman:
 svo myrkar

 Gengum undir
 trjám
         regnbogalitum

 Næturnar okkar
 svo langar

 Efast stundum
 um að þær
 hafi tekið enda

 Held þær
 séu enn að líða

 ÞIÐ

 Veit
 af ykkur
 hátt uppi
 í trjánum

 Inni í laufskrúðinu
 fyrir ofan kofann minn

 Þið
 syngið svo fallega
 fyrir mig
 á kvöldin
 er þeir
 hafa hlekkjað
 mig fastan

 og
 eru farnir
 með lykilinn

 HEIMKOMA

 Kemur af hafi
 á skinnklæðum

 Heldur
 upp fjöru

 Hverfur
 inn um
 lágar dyr

 steinhúss
 í suðrænum stíl

 VERUR

 Um eyjuna
 ganga verur

 Hljóð þeirra
 berst niður
 í fjöru

 til mín

 er ég
 geng á land
 í þokunni

 SÍÐUSTU STUNDIR ÞÍNAR

 Upp renna
 síðustu stundir þínar

 Í golunni
 blakta gluggatjöld

 Í trjánum
 syngja fuglar

 Innum
 hálfopinn glugga
 berast hróp og köll

 Í fangi þínu
 malar köttur

 Þannig manstu
 síðustu stundir þínar

 TVÆR SÓLIR

 Sólin
 í augum þínum
 skín

 svo skært

           Ský fyrir
           þeirri á himni

 FYRSTA SINN

 Himininn
 svo tær
 er þú
 lítur hann
 fyrsta sinni

 Stjörnurnar
 brosa
 til þín

 Í BIRTINGU

 Höldum brott
 undir
 svörtum himni

 sem
 roðnar og lýsist

 Verður albjartur

 Og
 smátt og smátt
 birtist landið

 sem
 var falið
 í myrkrinu

 HLÁTUR

 Um
 litla íbúð
 glymur
 hlátur

 Út
 á götu
 berst ómur

 Til
 eyrna þeirra
 er fara hjá

 MYRKUR

 Þegar þú
 svífur
 inn í myrkrið

 bíður birtan
 að baki

 Veit að þú
 kemur aftur

 SKUGGAR

 Skuggarnir langir

 Eins og trén

 Hvítt
 hörundið
 roðnar á augabragði

 DANS

 Fyrir augum
 þínum
 dansa
 þokuslæður

 Í fjarska
 daufur ómur

 af
 dansi trjánna

 Í HAFIÐ

 Stíg
 af lestinni

 Á mér
 skellur
 mannhaf

 Blandast því
 sem regndropi

 KLAUSTUR

 Stígum varlega
 gegnum
 þykka kyrrðina
 í klaustrinu
 sem munkarnir
 yfirgáfu
 fyrir löngu

 Og
 finnum hana
 smjúga
 inn í okkur

 HENDUR

 Horfi á
 hendur
 þínar

 dökkar
 af moldinni
 í garðinum

 setja
 paprikuna
 í poka

 SKILINN EFTIR

 Stend
 á pallinum

 Horfi
 á eftir
 blárri lestinni

 Verð
 að bíða
 næstu