Hanskarnir og fleiri örsögur- 2016

FLUGÆFINGAR


Ég fór upp á þak hæstu byggingarinnar sem ég fann í borginni. Rétti út
hendurnar og varpaði mér framaf en fann strax að tilraunin var
misheppnuð. Náði ekki að blaka höndunum nægilega hratt til að halda mér
á lofti og hrapaði því til jarðar.
Enn ein tilraunin sem misheppnast.
Þetta var sú þrítugasta og fimmta.
Allar hafa þær endað með fleiri en einu og fleiri en tveimur beinbrotum
ásamt djúpum skurðum hér og hvar um líkamann.
En ég gefst ekki upp.
Mér skal takast að fljúga.

Hanskarnir og fleiri örsögur

HANSKARNIR


Hann stóð uppáklæddur í forstofunni, á leið í veisluna sem honum hafði
verið boðið í fyrir löngu. Tilhlökkunin magnaðist með hverjum deginum
sem leið frá því hann fékk boðskortið.
Hann sneri sér í hring fyrir framan spegilinn. Vissi samt að það var
óþarfi.
Útlitið var óaðfinnanlegt.
Skyndilega áttaði hann sig á því að hann var ekki með hanskana.
Demantsskreyttu hanskana sem hann bar ævinlega þegar hann fór í veislur.
Hann rauk inn í fataherbergið. Taldi sig vita hvar þeir væru.
Þeir voru ekki þar.
Hann leitað um allt en fann þá hvergi.
„Án hanskanna get ég ekki farið í veisluna,” sagði hann við sjálfan sig.
Settist í stólinn á miðju gólfinu og grét.

BLIKKIÐ


Við hliðina á mér liggur maður sem er sífellt að kveikja og slökkva ljósið á
lampanum fyrir ofan rúmið. Þetta endalausa blikk fer mjög í taugarnar á
okkur hinum þrem á stofunni.
Hann hlustar ekki þó við biðjum hann að hætta. Og starfsfólkið segir
okkur að vera ekki með þessa vitleysu.
Þó nýr sjúklingur komi í rúmið heldur blikkið stöðugt áfram.

HERSHÖFÐINGINN


Hershöfðinginn lagði hönd sína á læri prinsessunnar, sem leit ekki á hann
og leyfði höndinni að liggja þar sem hún var. Hélt að enginn tæki eftir því.
Það hélt hershöfðinginn líka. En ráðgjafi konungsins fylgdist með öllu.
Hershöfðinginn þurfti því að fá sér krók í stað handarinnar sem hann
lagði á læri prinsessunnar.

KÖTTURINN


Hann sat á grindverkinu um morgunin þegar ég gekk að bílnum og fylgdist
grannt með hverri hreyfingu minni. Tók fyrst eftir gulu augunum sem
fylgdu mér hvert fótmál. Þau líkt og boruðu sig inn í mig.
Hrósaði því happi þegar ég tók eftir að hann sat kyrr er ég keyrði frá
húsinu.
Er ég gekk inn á skrifstofuna mína á þriðju hæðinni, fann ég þessar gulu
glyrnur stara á mig úr glugga hússins á móti. Gat varla einbeitt mér í
vinnunni og alveg sama þó ég drægi gardínurnar fyrir.
Augu hans boruðu sig í gegn.
Vissi að hann sæti á grindverkinu þegar ég kæmi heim og það brást ekki.
Hann var á sama stað og fygldist jafn grannt með mér.
Gulu glyrnurnar hans glóðu í myrku herberginu mínu þegar ég fór að
sofa.
„Þessi fjandans köttur hefur fylgt mér allan daginn,” hugsaði ég í
svefnrofunum.

BLAÐIÐ


Þoli ekki þegar blaðið kemur of seint á morgnana. Það á að vera komið inn
um lúguna hjá mér og á eldhúsborðið klukkan sex.
Hvorki mínútu fyrr né síðar.
Og á að liggja við hliðina á morgunmatnum, sem er alltaf tilbúinn á
þeim tíma.
Get bara ekki með nokkru móti lesið það á öðrum tíma dags.

MIÐALDAHÁTÍÐIN


Þegar ég fór á miðaldahátíðina átti ég ekki von á því að finna hlið til
fortíðar. Rakst óvart á það er ég gekk inn í eitt herbergið í kastalanum.
Get þá lagað og leiðrétt allt sem fór úrskeiðis þegar ég var hérna síðast.

TUNGUMÁL


Enginn skildi barnið þegar það fór loks að tala. Það talaði allt annað
tungumál en allir aðrir í kringum það. Þó höfðu foreldrar og ættingjar alltaf
talað við barnið á móðurmálinu og það virtist skilja hvað sagt var við það.
Allir stóðu ráðþrota frammi fyrir þessu. Og jafnvel þó færustu
tungumálasérfræðingar skoðuðu barnið og hlustuðu á mál þess, gat enginn
áttað sig á hvaða tungumál það talaði.

ÁKVÖRÐUN


Á hverjum morgni stendur hann í um það bil klukkutíma fyrir framan
fataskápana sína (já, þeir eru fleiri en einn og fleiri en tveir) og veltir fyrir
sér hvort hann eigi að vera karl eða kona þann daginn.

HUNDUR


Það merkilegasta sem komið hefur fyrir mig, var þegar hundurinn gekk
upp að mér, þefaði af mér og hvarf svo á eftir eiganda sínum.
Það eru mörg ár síðan þetta gerðist en minningin yljar mér ennþá hér í
fásinninu.

Í BÚÐINNI


Það var svo gaman í búðinni, svo margt að skoða að ég gleymdi mér
algjörlega.
Áttaði mig ekki á hvað tímanum leið.
Áður en ég vissi af var búið að loka og starfsfólkið farið heim.
Gat því þvælst um verslunina alla nóttina, án þess nokkur yrði mín var.

ÓSKIRNAR ÞRJÁR


Hef lesið margar sögur um óskirnar þrjár og fólk sem hefur klúðrað þeim
svo illilega að það stendur jafnvel verr að vígi en áður.
Hef því ekki enn þorað að nota mínar.
Sannfærður um að ég klúðri þeim líka.
Eins og allir aðrir.

FLUGMAÐURINN


Alveg frá því gamli flugmaðurinn var lítill drengur og sá flugvél í fyrsta
sinn, hefur hann þráð að deyja í flugslysi. En þegar hann fór að læra flug
og vinna sem flugmaður á farþegaþotum hélt hann aftur af sér.
Nú þegar hann er hættur að fljúga vill enginn lána honum vél, svo hann
geti látið drauminn rætast.

NJÓSNARINN


Njósnarinn í Istanbúl vildi gera allt sem í hans valdi stóð til að komast að
hjá bresku leyniþjónustunni, MI5. Hann var svo ákafur í að standa sig og
láta bresku leyniþjónustuna taka eftir sér, að hann gaf upp staðsetningu
sína þegar hann var spurður.
Hann varð aldrei MI5 njósnari.

SYSTKINI


Systkinin fæddust með nákvæmlega árs millibili. Og þegar stúlkan, sem
var eldri, sá litla bróður sinn liggja ósjálfbjarga í vöggunni, trítlaði hún til
hans. Horfði í augu hans og skildi allt sem hann hugsaði.
Uppfrá því þurftu þau aldrei að nota orð. Líkt og þau læsu huga (eða
augu) hvors annars.
Og þannig var það alla þeirra löngu ævi.
Þau létust með árs millibili.
Nákvæmlega.

STEINNINN


Steinninn hefur legið fyrir utan gluggann lengur en elstu menn muna.
Meðan ég horfi á hann einn daginn þegar ég nenni ekki að gera neitt
annað, rís upp úr honum maður í jakkafötum, sem minnir einna helst á
nítjándu aldar hefðarmann.
Hann kinkar til mín kolli og gengur á brott.
Ekki veit ég hvert.

HERSKIPIÐ


Byssurnar á herskipinu úti á firðinum sneru allar að okkur þar sem við
sátum á grasbalanum og fylgdumst með stóru og tilkomumiklu skipinu.
Höfðum aldrei séð glæsilegra skip né flottari byssur og aldrei heyrt
annan eins hávaða þegar þær skutu að okkur allar í einu.

FINGUR


Alltaf þegar kemur að mest spennandi hluta myndarinnar, teygi ég mig í
manneskjuna við hliðina á mér, tek fingur hennar, sting þeim upp í mig og
naga þar til atriðið er búið.
Oftast lætur fólk sér þetta í léttu rúmi liggja.
Ekki alltaf samt.

BIRTA


Á daginn gekk hún um með dökk sólgleraugu. Sagðist vera með ofnæmi
fyrir birtu. Fór aldrei í sólbað og vildi helst liggja inni í rúmi með
myrkvunartjöld fyrir öllum gluggum á hlýjum og sólríkum dögum, þegar
vinkonurnar lágu úti í garði og létu sólina baka sig.
Hún tók sólgleraugun niður þegar rökkvaði og gat varla beðið eftir að
það yrði aldimmt. Þá sá hún gegnum holt og hæðir.
Gat meira að segja fylgst með nátthröfnunum í húsinu á móti.

TRÚ


Þegar hún var lítil var hún mjög trúuð. Eins og foreldrarnir sem ólu hana
upp í sinni trú, sem hún fylgdi út í ystu æsar. Hafði tilvitnanir í trúarritið á
hraðbergi og vitnaði í það í tíma og ótíma. Svo kennurum og skólafélögum
þótti nóg um.
Daginn sem hún varð fjórtán ára vaknaði hún og fann að trúin var horfin
og allt sem hún mundi úr trúarritunum gleymt.
Mörgum árum síðar, þegar hún var orðin gömul kona og hafði átt langa
(næstum) trúlausa ævi, fann hún að vængir spruttu fram á baki hennar í
hvert skipti sem hún gekk framhjá tilbeiðslustað.

SÍÐASTI GALDRAMAÐURINN


Eftir margra ára leit og ferðalög vítt og breitt um heiminn fann síðasti
galdramaðurinn loks lærling. Galdramaðurinn varð harla glaður og
ánægður og kenndi lærlingnum það sem hann kunni.
Allt nema það mikilvægasta. Stærsta og mesta galdurinn hugðist hann
geyma þar til síðast.
En áður en til þess kom fórst lærlingurinn í bílslysi og síðasti galdramaðurinn dó af harmi og eftirsjá.

Í SANDINUM


Hún sér aðeins sandalana og tærnar sem fara hjá þar sem hún liggur
hreyfingarlaus í sandinum í fjörunni og getur ekki hreyft sig.
Hún veit ekki hvers vegna.

MEGRUN


Alltaf þegar hann gekk inn í matvöruverslun, fór hann að skjálfa og
hristast eins og hann væri að fá flogakast.
Var samt ekki flogaveikur.
Þetta setti vissulega strik í matarinnkaupin.
Þau urðu minni fyrir vikið og hann grenntist talsvert.
„Mátti svo sem alveg við því,” sagði hann við vinina.

STEINAR


„Einn steinn í einu,” hugsaði hann þegar hann lyfti enn einum steininum,
sem var næstum of þungur.
Hann bar steininn í hrúguna upp við vegginn.
„Einn steinn í einu,” sagði hann upphátt meðan hann gekk til baka að
sækja annan næstum of þungan stein.
Enginn heyrði til hans.

ÁSTÆÐA


„Ég fer ekki í kirkju lengur”, sagði maðurinn við prestinn sem spurði,
„vegna þess að ég get ekki sungið.”
Presturinn sagði að það væri ekki ástæða.
„Jú,” sagði maðurinn og brosti. „Alveg jafn góð og hver önnur.”

ÁNÆGJULEGASTA STUNDIN


„Ánægjulegasta stund lífs míns var þegar hnífurinn gekk inn í holdið og
blóðið spýttist yfir mig alla,” hugsaði hún með sér þar sem hún sat í
þægilegum stólnum andspænis sálfræðingnum sem átti að meta hvort hún
væri sakhæf.
Datt samt ekki í hug að segja það upphátt.

OFURHETJA


Maðurinn hélt að hann væri ofurhetja og gæti flogið eða stokkið yfir bílana
sem stoppuðu ekki fyrir honum þegar hann þurfti að komast yfir götuna.
Hann komst að því að hann var ekki með flug- eða stökkhæfileika.
Og enga aðra í raun.

BLÓMAANGAN


Þegar ég var yngri vildi ég þefa af hverju einasta blómi sem varð á vegi
mínum. Var því oft ansi lengi að komast á milli staða. Þess vegna hættu
foreldrar mínir að ganga með mig eða leyfa mér að fara gangandi í
skólann.
Skóladagurinn var stundum liðinn þegar ég komst þangað loks.
Eftir að ég flutti hingað í blómagarðinn hefur líf mitt tekið stakkaskiptum. Nú get ég setið eða legið úti í garði allan daginn. Þefað af
blómum og ef hungrið sækir að er ekkert einfaldara en stinga einu og einu
upp í sig.
Verða samt að vera blóm sem ég hef þefað af.

ÞURRKUR


Dagarnir voru svo hlýir og heitir að vatnið hvarf.
Eftir fjóra daga af þessum óbærilega hita var enginn vökvi eftir. Það
kom ekkert úr krananum. Vatnið í sundlauginni gufaði upp. Meira að segja
bjórflöskurnar tæmdust í ísskápnum.
Við vissum að brátt myndum við einnig þorna upp. Líkaminn er þrátt
fyrir allt að stórum hluta vatn.
Við litum hvort á annað og skellihlógum.

HLUTVERK


Hún nálgast húsið. Þung byssan í hendinni veitir henni öryggi.
Hún lítur andartak um öxl. Að sendiferðabílnum þar sem hann situr
rólegur og bíður. Ekki enn komið að hlutverki hans
Hann kemur þegar hún er búin að athafna sig.
Þá sest hún inn í bílinn.
Bíður.

HIK


Hún stendur fyrir framan dyrnar sem hana hefur svo lengi langað til að
komast inn um. Hægri höndin á lofti og hnefinn krepptur. Býr sig undir að
banka.
Höndin fellur niður, hún snýr sér við og gengur burt.
„Mér verður aldrei hleypt inn,” er hugsunin sem flögrar um hugann.
Einu sinni enn. Svo oft verið við það að láta hnefann skella á hurðinni.
Af því verður ekki í dag.
Hugsanlega síðar.

BROS


Langaði fátt eins mikið og að þurrka brosið af andlitinu á manninum sem
sat á móti mér í litlu herberginu. Það fór meira í taugarnar á mér en allt
annað þá stundina.
Hefði klúturinn legið enn á borðinu, hefði ég gripið hann og máð þetta
andstyggilega bros framan úr honum. En hann var þar ekki lengur og ég
vissi ekki hvað af honum varð.
Auk þess voru hendur mínar bundnar.

VAGNINN


Vagninn nemur staðar á biðstöðinni. Dyrnar opnast. Enginn fer út og
enginn stígur inn, þó margt fólk norpi í kuldanum og bíði.
Vagninn ekur áfram. Að næstu stöð.
Sama sagan endurtekur sig: enginn fer út og enginn kemur inn.
Hring eftir hring keyrir tómur vagninn. Og bílstjórinn bölvar örlögum
sínum.

TÝNDI SONURINN


Sonurinn sem hafði ekki sést í mörg ár – og enginn vissi hvar var – birtist
allt í einu á tröppunum á æskuheimilinu.
„Ég er kominn heim,” tilkynnti hann stoltur.
Enginn þekkti hann. Sama hvað hann sagði trúði fólk ekki að hann væri
að segja satt.
Hann fann að hann var ekki velkominn og fór því aftur svo fjölskyldan
gæti haldið áfram að syrgja týnda soninn.

GYÐJAN


Hann situr fyrir framan hvítan tölvuskjáinn. Starir á hann og ákallar
gyðjuna sem hefur ekki sýnt sig svo lengi.
Alltof lengi.
Smátt og smátt birtist andlit hennar á skjánum. Dauft í fyrstu en verður
æ skýrara.
„Loksins eitthvað að gerast,” hugsar hann með létti sem hann hefur ekki
fundið lengi.

EFTIR NÓTTINA


Hún vaknaði við að maðurinn, sem hún þekkti ekki neitt, sat á
rúmstokknum, horfði á hana eins og hann vissi ekki hvar hann væri
staddur né hvers vegna og nuddaði blóðugan hálsinn.

RIGNING


Þegar hún ekur um fáfarinn sveitaveginn koma allt í einu rauðir
rigningardropar af himnum. Og hún veltir því fyrir sér smástund hvort
þetta sé blóð eða eitthvað annað. Hristir höfuðið til að bægja hugsuninni
frá sér, setur rúðuþurrkurnar á og heldur áfram ferð sinni.

BIÐIN


Sit í sófanum og les bók. Enn eina norrænu spennusöguna um þunglyndan
og drykkfelldan rannsóknarlögreglumann, sem á í erfiðum samskiptum við
börnin sín tvö en leysir öll morðmál eins og að drekka vatn.
Heyri allt í einu umgang frammi á gangi.
Kalla fram eins og ég er vanur þegar einhver í fjölskyldunni kemur heim
eftir daginn.
Fæ ekkert svar.
Hrópa því aftur.
En sama sagan. Ekkert svar. Aðeins meiri umgangur. Meiri hávaði
frammi.
Man þá að enginn er væntanlegur heim á næstunni. Fólkið mitt skrapp
vestur á firði og kemur ekki fyrr en eftir þrjá daga.
Sit með bókina í kjöltunni, stari út í loftið og bíð.

SKÓGURINN


Feta mig varlega um skógarstíginn sem ég hef gengið margoft og kann
nánast utan að. Hver bugða og beygja kunnugleg, sem og hnyðjurnar hér
og hvar á stígnum. Jafnvel laufin á trjánum eru mér kunnug.
Þegar ég kem að staðnum nem ég staðar. Stend grafkyrr og horfi á tréð.
Biðin verður ekki löng. Frekar en venjulega.

GARÐUR


Garðurinn sem eitt sinn iðaði af lífi, tónlist og ljósi er nú myrkur og þögull.
Sá sem gengur um fyrir utan rifjar upp betri tíma þegar varla var þverfótað
fyrir fólki sem kom til að skemmta sér.
Hann átti erindi út fyrir garðinn, sem lagði upp laupana á meðan enda
dvölin fyrir utan lengri en til stóð í upphafi.
Nú gengur hann meðfram girðingunni, rýnir inn í myrkrið og rifjar upp
þegar kveikt var á öllum tækjum og ljósin lýstu upp garðinn. Tónlistin
ómaði úr hverju horni.
Leitar leiða til að komast inn á ný þar sem hann á heima.

HERBERGIÐ


Herbergið er lokað og læst. Margoft búinn að athuga það en dyrnar svo
rammgerðar að ekki er möguleiki að brjóta þær upp. Hvergi gluggi sem
hægt er að skríða út um.
Heyri lágvært fótatak nálgast. Eins og skepna læðist að mér.
Hnipra mig í einu horninu. Geri mig eins lítinn og ég mögulega get.
Fótatakið færist nær og nær og verður háværara með hverri sekúndunni
sem líður. Veran er hætt að læðast og stendur brátt fyrir utan dyrnar að
herbergi mínu.

FLUGÆFINGAR


Ég fór upp á þak hæstu byggingarinnar sem ég fann í borginni. Rétti út
hendurnar og varpaði mér framaf en fann strax að tilraunin var
misheppnuð. Náði ekki að blaka höndunum nægilega hratt til að halda mér
á lofti og hrapaði því til jarðar.
Enn ein tilraunin sem misheppnast.
Þetta var sú þrítugasta og fimmta.
Allar hafa þær endað með fleiri en einu og fleiri en tveimur beinbrotum
ásamt djúpum skurðum hér og hvar um líkamann.
En ég gefst ekki upp.
Mér skal takast að fljúga.

Í LYFTUNNI


Í huga hennar er kvöldið algjörlega misheppnað þar til parið stígur inn í
lyftuna. Þá veit hún að nóttin verður eftirminnileg.

SKRIFSTOFAN


Skrifstofan mín er á jarðhæð, svo ég sé vel út á götuna fyrir utan.
Venjulega er fátt fólk á ferli þar. Einstaka sinnum kemur þó fyrir að þrír
ganga um götuna í einu, jafnvel saman. Stöku sinnum hef ég séð allt upp
undir tólf manns rölta hjá glugganum sama daginn.
Ekki veit ég hví fólk leggur á sig að ganga um þessa götu. Hér er ekkert
nema skrifstofan mín á jarðhæðinni og hingað inn á enginn erindi nema
verðirnir sem færa mér mat og kaffi þrisvar á dag.

VERKEFNI


Myrkrið svo þétt og svart að sé varla handa minna skil. Rétt greini útlínur
verunnar fyrir framan mig.
Hnífurinn í hanskaklæddri hendinni og ég finn rauðan vökva spýtast
framan í mig þegar ég renni honum eftir hálsinum. Og um leið nístandi
sársauka í síðunni.
Mátturinn í líkamanum þverr og ég lyppast niður á freðna jörðina.
Síðasta hugsunin áður en allt verður svart, er að í þetta sinn muni ég ekki
kasta hnífnum í sjóinn og komast í sturtuna sem fylgir verkefninu.
Þau verða heldur ekki fleiri.

GRÁTUR


Barnið grætur sífellt hærra og hærra, sama hvernig barnapían reynir að róa
það og syngja fyrir það. Hún situr við rúmstokkinn, raular öll þau lög sem
hún kann og horfir á barnið stækka og stækka eftir því sem gráturinn
verður háværari og sárari.
Brátt verður rimlarúmið orðið of lítið.
Barnapían er löngu hætt að syngja og reyna að róa barnið en grætur sjálf
hástöfum.
Og minnkar með hverri hviðu þar til hún kemst í rimlarúmið og barnið er
sest við rúmstokkinn.

VÉLARHLJÓÐ


Bíllinn er ræstur beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn.
Vélarhljóð hátt og ærandi. Ég stekk upp úr rúminu og þýt að glugganum.
Horfi á bílinn tæta og spóla yfir grasflötina. Hring eftir hring.
Eins og svo oft áður.
„Nú næ ég honum,” hugsa ég með mér og snarast í fötin.
Þegar ég kem út er hann horfinn.
Eins og venjulega.

ÓNOT


Ævinlega fara ónot um ungu stúlkuna þegar hún lokar kaffihúsinu seint á
kvöldin og allir farnir heim nema hún.
Óttast samt ekki draugana sem sagt er að sveimi um gamalt húsið. Hún
hefur engar áhyggjur af þeim.
Hún óttast annað.

BLÓÐ


Sest á líkamann og sting í holdið. Finn um leið og fyrsti dropinn rennur
upp í mig að þetta er ekki gott blóð. Bragðið af því ekki eins og venjulega.
Ekki eins og það á að vera.
Tek ranann því úr sárinu, breiði út vængina og lyfti mér upp á ný.
Leita að öðrum líkama með betra blóð.

ÁREKSTUR


Blindaðist af háum ljósunum sem komu á móti í myrkrinu. Sá ekki neitt og
missti stjórn á bílnum. Fann þungt höggið er bílarnir skullu saman.
Öryggisbeltið losnaði (nema ég hafi gleymt að festa það eins og stundum
gerist) og ég flaug gegnum framrúðuna. Var allt í einu kominn í
farþegasætið á jeppanum, sem ók áfram.
Ég sem var á leið í hina áttina.

SÁLFRÆÐINGURINN


„Ég hata að fara í búðir með afa!” sagði stúlkan við sálfræðinginn sem sat
á móti henni við skrifborðið.
„Hann kaupir aldrei neitt handa mér.”
Sálfræðingurinn horfði á hana og skrifaði athugasemdir í stílabókina sem
lá á borðinu.
„Þess vegna verð ég að hnupla því sem mig langar í,” bætti stúlkan við
og brosti.
Sálfræðingurinn kinkað kolli, eins og hann skildi hana vel

SPEKI


Hún hafði alltaf lifað eftir þeirri speki að varðveita barnið í sjálfri sér.
Sumum í kringum hana fannst hún jafnvel taka það of bókstaflega.
Dag nokkurn þegar hún vaknaði í rimlarúminu sínu, fann hún að barnið
var horfið úr líkama hennar og huga.
Hún varð mjög sorgmædd og grét um stund en harkaði af sér. Reis upp
úr rúminu, lagðist í líkkistuna sem stóð við hliðina á því, lokaði henni og
sofnaði aftur.

HÁVAÐI


Á mér skellur þungt loft þegar ég opna dyrnar að kaffihúsinu þar sem ég
hef mælt mér mót við nokkra félaga. Nánast hvert borð upptekið.
Ég svipast um en kem hvergi auga á þá.
Greini heldur varla nokkuð fyrir hávaðanum og skvaldrinu.
Efast um að staðurinn rúmi allt þetta fólk. Síðast þegar ég kom hingað
var hann mun minni.
Veit að félagarnir eru þarna einhvers staðar. Finn þá bara ekki í öllum
þessum hávaða.

BEINAGRINDIN


Hann vissi vel að beinagrindin átti að vera innst í líkamanum og holdið
utan á henni, en hann gat samt ekki á sér setið stundum að snúa þessu við.
Ganga um með beinagrindina utan á sér. Það tók hvort eð er enginn eftir
því þegar hann var í fötum. Honum datt aldrei í hug að ganga um nakinn.
Hvernig svo sem beinagrindin sneri.
Varð bara að gæta þess að vera með hanska og góða húfu á höfðinu.

BROTTFÖR


Hún stendur við borðstokkinn. Finnur andvarann leika um andlit sitt.
Skipið mjakast hægt en örugglega út úr höfninni. Hún horfir til lands. Sér
hann standa á bryggjunni og veifa. Í stað táranna sem hún veit að hann
vonast eftir, breiðist bros yfir andlit hennar. Hönd hans sígur og hann starir
agndofa á skipið fjarlægjast. Hún snýr sér frá borðstokknum, gengur inn á
barinn og pantar sér tvöfaldan koníak.
„Má ekki minna vera,” hugsar hún.
Brosið fast á andlitinu.

GANGUR


Hún gekk eftir löngum gangi skólans.
Ein innanum alla krakkana sem horfðu á hana líkt og þau hefðu aldrei
séð annað eins.
Og kannski höfðu þau það heldur ekki.
Hún gætti þess vel að brosa ekki með munninn opinn, annars sæist í
hárbeittar tennurnar sem hún vildi fyrir alla muni hylja.
Um varir hennar lék hárfínt glott.

HLIÐIÐ


Standa fyrir framan hliðið að garðinum sem þau hafa heyrt svo mikið talað
um gegnum tíðina og alltaf hugsað sér að heimsækja. Hlusta á öskrin og
veinin í verunum fyrir innan og tilhlökkunin magnast eftir því sem röðin
mjakst áfram.

ÁLFUR


Álfurinn leitar félaga sinna í fjörunni. Man að hann sá þá á rölti í sandinum
fyrir ekki svo löngu.
„Gætu verið nokkur hundruð ár,” segir hann upphátt við sjálfan sig, enda
enginn annar til að tala við.
Ekki einu sinni fugl, hvað þá álfur.

PRINSESSAN


Loks kemur að því að prinsessan málar myndina sem hún hefur svo lengi
þráð að mála. Og kemst að því að hún hefur meiri áhuga á að vera málari
en prinsessa.
Um stund að minnsta kosti.

STÖRUR


Hún stendur hreyfingarlaus fyrir utan og horfir inn.
Á mig sem sit kyrr. Ég horfi á móti.
Velti fyrir mér hver hún er og hvort ég þekki hana. Hvað hún vilji mér
eiginlega.
Við störum hvor á aðra þar til kaffilöngunin verður of sterk og ég teygi
mig í bollann á borðinu. Tek augun andartak af henni.
Þegar ég hef tekið sopa af hálfköldu kaffinu og lít upp aftur er hún
horfin.
Auðvitað.

KONTRABASSINN


Vakna um miðja nótt við hljóðin í kontrabassanum sem stendur úti í horni.
Kveiki ljósin. Sé strengina hreyfast og greini laglínu sem ég hef aldrei
heyrt áður.
Gríp glósubókina af náttborðinu og skrifa nóturnar í hana.
Enn eitt lagið orðið til.

HÆFILEIKI


Gleymi aldrei þegar ég flaug í fyrsta sinn.
Hef varla verið meira en fimm eða sex ára, gæti þó hafa verið yngri.
Var að róla á leikvelli skammt frá heimili okkar og stóra systir mín sagði
mér að stökkva úr rólunni.
Ég gerði það.
Og flaug yfir allan leikvöllinn. Hafði að vísu ekki fullkomna stjórn á mér
svona í fyrsta sinn en náði góðum tökum á þessu með smá æfingu. Og gat
þá (og get enn) flogið hvert sem ég vildi og hvenær sem ég vildi en að vísu
stutt í einu.
Man að ég flaug yfir systur mína, sem stóð og starði á mig. Gat ekki
sagt neitt af undrun.
Hún hefur ekki enn talað um þennan hæfileika við mig.

SAMTAL


„Já, en..” sagði hann.
„Nei, ekki..” greip hún fram í.
„Samt…” reyndi hann.
„Alls ekki…” staðhæfði hún.
„Allt í lagi,” sagði hann og gafst upp.

GÓL


Maður nokkur sem bjó uppi í risi í fjölbýlishúsi, stillti vekjarklukkuna sína
á fimm að morgni.
Þegar hún hringdi spratt hann uppúr rúminu, skreið út um þakgluggann
og út á þakið.
Þar stóð hann á öðrum fæti, lagði lófana á munninn og galaði eins og
hani í um það bil klukkutíma eða þar til hann sá að ljós var komið í alla
glugga.

GRANDALAUS


Finn að einhver læðist aftan að mér þar sem ég stend og bíð eftir
strætisvagninum. Geri mér þó ekki grein fyrir hver eða hvað þetta er, fyrr
en ég finn tennurnar sökkva í hálsinn.

HÖFUÐHÖGG


Eftir að hann fékk höfuðhöggið þegar hann rann til á hálu gólfinu á
elliheimilinu, vaknaði hann tíu árum yngri á hverjum morgni.
Hann velti fyrir sér hvenær hann kæmi að fyrri lífum sínum og hve mörg
þau væru. Óttaðist að hann hefði verið illmenni sem drap fjölda manns.
Vonaði þó að hann hefði verið hetjan sem bjargaði mannslífum.
Verst að hann trúði ekki á slíkt fyrirbæri.

VÆL


Drep á bílnum og stíg út. Hef ekki tekið nema þrjú skref í átt að húsinu
mínu þegar ég heyri hávært væl skammt frá. Finnst það jafnvel koma
undan bílnum en sé ekki neitt þegar ég kíki undir hann.
Heyri vælið aftur og nú enn hærra og enn nær. Minnir helst á væl í ketti.
En hér eru engir kettir eftir því sem ég best veit.
Eftir því sem ég nálgast húsið verður vælið háværara.
Kemur sífellt nær og nær.

HÁLFT TUNGL


Í hvert sinn sem tunglið er hálft klifrar maðurinn upp á þak, leggst á
magann, mænir á himinhnöttinn og reynir að halda gólinu inni í sér.
Það tekst oftast. Núorðið.

SPEGILMYND


Apinn sem stóð fyrir framan spegilinn varð skelfingu lostinn þegar hann sá
manninn í speglinum.

UPPISTAND


Hann stendur á sviðinu með míkrafóninn festan í hálsmálið og segir
brandarana sína. Salurinn fullur af fólki sem hann vonar að geti hlegið að
þeim, sem fjalla mest um hann sjálfan, konuna og fjölskylduna. Veltir
jafnvel fyrir sér að nota brandarann um foreldra sína.
En hættir við þegar hann tekur eftir að engum í salnum stekkur bros.

TAKKINN Í MÆLABORÐINU


Kem hvergi auga á ljós né annað sem bendir til mannaferða í þokunni. Tel
því öllu óhætt og ýti á takkann í mælaborðinu.
Mér var reyndar sagt að ég mætti einungis nota hann ef ég væri í hættu
og vildi snúa aftur. En hann er bara svo freistandi og það er svo óskaplega
langt síðan ég hef stjórnað almennilegu farartæki.
Um leið og ég ýti á takkann breytist þessi frumstæði bíll í geimskipið
mitt sem lyftir mér upp yfir þokuna, svo ég er mun fljótari heim.
Mér er sama um afleiðingarnar. Hverjar sem þær verða er þetta þess
virði og vel það.

SVARTÞRESTIR


Þeir sitja þrír fyrir utan kaffihúsið, reykja og súpa af og til á kaffi sem er í
bollum á kringlóttu borði á milli þeirra.
Tala saman um svartþrestina sem þeir sáu í gönguferð sinni um skóginn
skömmu áður.
Einn þeirra efast þó um að þetta hafi verið svartþröstur.

NÆTURVÖRÐURINN


Næturvörðurinn á fuglasafninu nálgast salinn. Heyrir þytinn í uppstoppuðu
fuglunum sem flögra um til að liðka vængi og skrokk. Hann gengur inn á
mitt gólfið og stendur sem uppstoppaður þar til birta fer af degi og
uppstoppuðu fuglarnir koma sér á sinn stað.
Næturvörðurinn gengur út úr salnum, heldur niður í kompu sína og
leggst til svefns.

ÁHUGAVERÐUR STAÐUR


Áhugaverðasti staður sem ég hef komið á er líklega minn eigin hugur,
svona fyrst þú spyrð. Þangað fór ég dag nokkurn fyrir löngu. Lá í rúminu
milli svefns og vöku og var allt í einu staddur á eyðilegum stað, sem ég af
einhverjum ástæðum áttaði mig strax á að væri minn eigin hugur.
Gekk þar um góða stund að mér fannst áður en allt varð aftur eins og
það átti að sér að vera.
Ætla ekki að segja þér hvernig þar var umhorfs eða hvað ég sá.
Það kemur mér einum við.

FORVITNI MAÐURINN


„Mikið væri hentugt að hafa fleiri eyru,” sagði forvitni maðurinn við
sjálfan sig.
Hann vildi þó ekki meina að hann væri forvitinn, heldur hefði einungis
áhuga á fólki.
„Þá gæti maður heyrt mun meira og fræðst um fólkið í kringum sig.”
Hann íhugaði að fá sér heyrnartæki.

SÁ NÝFLUTTI


„Andskotans ró og kyrrð alltaf í þessu hverfi,” sagði sá nýflutti við konu
sína.
„Maður getur varla sofið þegar ekki heyrist eitt einasta hljóð. Enginn
bíll á götunni, engin öskur í nágrönnunum, engin slagsmál.”
Hann settist upp í rúminu, leit á konuna sem var steinsofandi.
„Ekki einu sinni breima kettir fyrir utan gluggann.”
Hann andvarpaði.
„Þetta er alveg óþolandi.”

REFSING


Hann vissi jafn vel og allir aðrir að orð okkar voru lög, eigi að síður
ólýðnaðist hann og braut þau. Því var ekki annað hægt en refsa honum.
Eins og hverjum þeim sem gekk gegn orðum okkar.
Hvernig hefði það líka litið út ef hann hefði sloppið, bara vegna þess
hvað hann var?

PERSÓNUR


Persónurnar tóku völdin af rithöfundinum sem var búinn að skipuleggja
alla söguna frá upphafi til enda. Þær vildu alls ekki fara í þá átt sem
höfundurinn hafði ráðgert og hann vildi ekki leyfa þeim að fara þangað
sem þær vildu. Ekki undir nokkrum kringumstæðum. Sagði það kæmi bara
hreinlega ekki til mála.
„Þá förum við ekki neitt,” sagði talsmaður persónanna.
Og þar við sat.

MINNING


Ánægjulegasta minningin úr skólanum er þegar skólastjórinn fékk vængi
þar sem hann stóð við ræðupúltið og flutti skólasetningarræðuna.
Man að hann flögraði þrjá hringi um salinn, áður en hann lenti við púltið
og hélt áfram ræðunni þar sem frá var horfið.
Enginn tók eftir þessu nema ég.

STÆRÐ


Hann vaknaði, geispaði, teygði vel og lengi úr sér og áttaði sig á að þetta
geimskip var það stærsta sem hann hafði á ævinni séð.
Það var svo stórt að það tók hálfan dag að ganga stafna á milli.
Jafnvel þó gengið væri rösklega.

REIPI


Opnar bílskúrsdyrnar, stendur í gættinni og horfir á reipið sem hangir niður
úr króknum í loftinu. Veit að það á eftir að herðast að hálsi.
En ekki strax.
Snýst á hæli, lokar dyrunum og læsir á eftir sér.

LAMPI


Bakpokinn slæst í öxlina þegar hún gengur yfir hæðina. Hún er sárfætt,
finnur að það eru að koma blöðrur á tærnar. Þreyta komin í lærin.
Hún ætlar samt ekki að nota gamla lampann sem skröltir í pokanum fyrr
en hún kemur heim.
Óttast að andinn hverfi út í víðáttuna. Vill frekar vera í öryggi fjögra
veggja.
Þá eru minni líkur á að hann sleppi frá henni.

HRÆÐSLA

Verð alltaf svo hrædd þegar fuglarnir hópast í trén fyrir utan húsið mitt.
Þeir koma í flokkum og eru af mörgum tegundum. Jafnvel fuglar sem
setjast venjulega ekki í tré. Þeir snúa allir í átt að glugganum mínum, horfa
inn til mín. Og ég má hafa mig alla við að berjast á móti löngunni til að
opna gluggann, fljúga út til þeirra og setjast hjá þeim.
Óttast þann dag sem ég ræð ekki við löngunina.

STÖKK

Áður en hann stökk í síðasta sinn niður úr trénu, lagfærði hann
bindishnútinn svo hann sæti örugglega rétt og væri fullkominn.
Eins og hann átti að vera.
Alltaf

GEIMSKIP


Geimskipið svífur yfir þorpinu, eða lónar kannski heldur. Það hefðu
sjómennirnir gömlu í það minnsta sagt, hefðu þeir séð það.
En þeir sáu það ekki, frekar en aðrir. Nema bæjarróninn sem enginn
tekur mark á hvort eð er.

SPÍTALINN


Þegar ég kom inn á spítalann í fyrsta sinn fóru um mig ónot, svo ekki sé
meira sagt.
Jafnvel hrollur.
Mætti þrem karlmönnum og einni konu í blóðugum svuntum með stórar
sveðjur í höndunum. Þau gengu um gangana án þess að nokkur skipti sér
af þeim og skildu eftir sig rauða slóð á gólfinu.
Ónotin og hrollurinn í mér vörðu þó aðeins skamma stund.
Varð brátt einn af þeim og sá langbesti.

VERÐLAUNAGRIPURINN


Og hún sem hélt hún þekkti manninn sem hún hafði búið með öll þessi ár
og eignast börnin með. En þegar hann kom heim með verðlaunagripinn,
áttaði hún sig á því að hún þekkti hann ekki neitt.

GLEYMSKA


Á hverjum morgni þegar hún lokaði útidyrunum á eftir sér, gleymdi hún
öllu sem var fyrir innan.
Að kvöldi þurfti hún því að finna sér nýjan stað, nýtt hús, ný húsgögn,
nýjan mann og ný börn.

SARA


Síminn hringir og maðurinn svarar.
„Halló Sara,” segir hann glaðlega.
Á hinum endanum er þó ekki Sara, númerið samt hennar.
Rám röddin fer ekki milli mála og tekur af allan vafa um að þetta sé
Sara sem hringdi, þó hringt sé úr símanum hennar.
Um manninn fara ónot, jafnvel hræðsla.
Hann átti von á símtali frá Söru.

EKKERT HIK


Hann hikaði aldrei. Tók alltaf af skarið þegar hann sá að aðrir voru of ragir
til að hlaupa inn í brennandi hús eða stökkva í fallhlíf fram af kletti.
Stundum kom hann ekki aftur en það gerðist afar sjaldan.

FLUGAN


Afrísku prinsessuna langaði að skrifa sögu um líf flugunnar sem flögraði
sífellt um vistarverur hennar.
Hún horfði því svo stíft á fluguna að á endanum skiptu þær um hlutverk:
Flugan varð prinsessa og prinsessan varð fluga.
Og nú er flugan að hugsa um að skrifa sögu um afrísku prinsessuna sem
flögrar sífellt um vistarverur hennar.

ÞEGAR RIGNIR


Fer út að ganga með hundinn þegar rignir.
Við göngum um götur bæjarins og skógarstíga þar sem þá er að finna.
Aðeins við tveir. Hundurinn og ég og einungis þegar rignir.
Aldrei annars.

MYRKUR


Ljósin lýsa upp myrkrið fyrir framan mig. Ég æði gegnum það á 100
kílómetra hraða. Finnst það víkja fyrir mér eða opnast.
Eins og þegar hann lyfti staf sínum forðum, beindi honum að hafinu,
muldraði fáein orð sem enginn heyrði nema þeir sem næstir stóðu. Og í
það komu göng sem við gátum gengið eftir á flóttanum.
Ég gekk síðastur og fann dropana á hnakkanum er hafið féll aftur í fyrri
skorður.
Það eru engir dropar í myrkrinu.

FLÓTTI


Lögreglumaðurinn veit ekki hvernig hún fór að því að sleppa. Hann var
með tak á henni og það nokkuð þétt hélt hann, en svo var hún allt í einu
laus úr höndum hans og þotin frá honum.
Hann starir undrandi á eftir henni, eins og hann viti ekki alveg hvað hann
eigi að gera, en þegar föt hennar fara að detta á götuna og hverfa, rankar
hann við sér og æðir á eftir henni.
Hún gufar upp eins og fötin.

FÓLK


Stend við glugga og horfi á fólkið fyrir utan sem horfir á mig.
Ég brosi. Það brosir á móti.
Brosin hverfa þegar ég dreg gluggatjöldin hægt og rólega fyrir.
Bros mitt breikkar hins vegar stöðugt.

MINNISLEYSI


„Æ, hvar skildi ég nú líkið eftir?” hugsaði morðinginn þegar hann vaknaði.
Hvernig sem hann reyndi gat hann ekki munað það. Né heldur hvers
kyns fórnarlambið var.
Hvort tveggja var mjög óvenjulegt, því þetta var frekar minnugur
morðingi.

LJÓSIÐ


Það er dregið frá glugganum í herberginu mínu og myrkrið nær inn til mín.
Það gerir einnig ljósið skæra sem birtist allt í einu fyrir utan gluggann.
Skín beint á mig svo ég lýsist allur upp.
Finn það vefjast um mig og toga mig út gegnum rúðuna (sem þó brotnar
ekki og ég velti fyrir mér hvernig það sé hægt) og yfir í geimskipið sem
lónar fyrir utan.