Horfir-sögur -2015

KAFFIKONAN


Í svefnrofunum á morgnana vissi hún aldrei hvort hún var að vakna eða
sofna fyrr en hún fann kaffiilminn berast inn um gluggann til sín.
Dag nokkurn, þegar enginn kaffiilmur barst inn, vegna þess að gamla konan
á neðri hæðinni var dáin, lagðist hún aftur á koddann og hélt áfram að sofa.
Og svaf þar til önnur gömul kona flutti inn á neðri hæðina og fór að hella
upp á kaffi á morgnana

Horfir
-sögur

PILSIÐ

„Gættu vel að pilsinu þínu,” hrópar hann á eftir henni, þegar hún gengur
niður tröppurnar.
„Hvað áttu við?” spyr hún. Nemur staðar í tröppunum miðjum og lítur upp
til hans sem stendur á efsta þrepinu.
„Jú,” segir hann og brosir til hennar. „Gættu þess að vindurinn nái ekki að
smeygja sér undir það og feykja því upp.”
Hann blæs með vörunum til að líkja eftir vindinum.
Hún stendur hreyfingarlaus á sama stað og horfir á hann.
Finnur vindinn leika um hár sitt.
„Þá gæti það,“ heldur hann áfram „orðið að vængjum sem fljúga með þig
þangað sem þú vilt alls ekki fara.”
Hann þagnar og horfir á hana. Hún horfir á hann.
„Og hvert ætti það að vera?” spyr hún svo.
„Það veist þú sjálf betur en ég,” svarar hann að bragði og rekur upp stutta
hláturroku.
Hún segir ekkert heldur brosir bara til hans og heldur áfram niður
tröppurnar.
Hann stendur hreyfingarlaus og fylgist með henni.
Þegar fætur hennar snerta jörðina fyrir neðan tröppurnar, finnur hún að
vindurinn rífur kröftuglega í pilsið.

ÁREKSTUR

Gatan var hál og blaut eftir rigningu dagsins þegar ég keyrði heim úr
vinnunni.
Dagurinn hafði verið langur og óvenju erfiður eitthvað, svo ég var venju
fremur þreyttur og annars hugar. Yfirleitt hefi ég fulla og algjöra einbeitingu
þegar ég sit undir stýri. En þennan dag eða öllu heldur þetta kvöld, því það
var langt liðið á daginn og nánast komið kvöld, var því öðruvísi farið.
Fyrir framan mig var bíll sem stoppaði allt í einu mjög snögglega.
Ég var, eins og áður sagði, dálítið utan við mig og þreyttur og því voru
viðbrögð mín ekki næglega röskleg. Ég var heldur seinn að stöðva bílinn
minn, svo hann lenti aftan á þeim sem fyrir framan mig var. Áreksturinn varð
að vísu ekki mjög harður enda bíllinn ekki á mikili ferð. Þó var ég viss um að
eitthvað hefði beyglast eða brotnað á öðrum hvorum bílnum eða báðum.
Ég sat kyrr smástund meðan mesta sjokkið leið hjá áður en ég opnaði
dyrnar og steig út í rigninguna. Nánast á sama augnabliki opnaðist
bílstjórahurðin á hinum bílnum og út steig ung og myndarleg stúlka sem ég
heillaðist gjörsamlega af.
Hún sagði eitthvað sem ég heyrði varla því ég sá ekkert nema hana.
„Er ekki allt í lagi?” spurði hún og kom þétt upp að mér svo ég fann ilminn
af henni sem magnaðist í regninu.
Þegar ég svaraði ekki strax heldur hélt áfram að stara á hana, ýtti hún við
mér og endurtók spurninguna. Þá var sem bráði af mér, um stund að minnsta
kosti, svo ég gat sagt að það væri allt i lagi með mig.
Eitthvað fleira fór okkur á milli en ég man óljóst hvað það var. Vorum þó
sammála um að kalla ekki til lögreglu, enda skemmdir á bílunum ekki það
miklar. Annað ljósið á bíl hennar brotnaði og stuðarinn beyglaðist aðeins.
Skemmdirnar á mínum bíl voru enn minni. Annars var hann hvort eð var
orðinn svo gamall og lúinn að ein eða tvær beyglur eða rispur til viðbótar
höfðu ekkert að segja.
Við héldum hvort í sína áttina. Hún þangað sem hún var að fara og ég
heim.
Mig dreymdi hana um nóttina.
Bjóst alls ekki við að sjá hana aftur en hugsaði sífellt um hana. Óskaði þess
að leiðir okkar lægju saman á ný.
Trúði samt varla eigin augum þegar hún kom á verkstæðið löngu síðar með
bílinn sinn og bað okkur að gera við það sem hafði skemmst þegar ég keyrði
aftan á hana.

BENSÍNTITTURINN

Þegar bíllinn rennur upp að dælunni sprettur bensíntitturinn upp af
hörðum stólnum.
Bölvar í hljóði og arkar út.
Dælir á bílinn undir skyggninu sem gefur dálítið skjól fyrir regninu sem
bylur fyrir utan. Fáeinir dropar ná þó innundir og skella á tittinum sem
stendur við dæluna.
Hann klárar að dæla.
Fullvissar sig um að tankurinn sé orðinn fullur.
Bölvar í hljóði og drífur sig inn aftur.
Sest á harðan stólinn sem hefur varla náð að kólna.

KONA FÆR SÉR SÍGARETTU

Eftir ástarleikinn, þegar hann er sofnaður og farinn að hrjóta, sviptir hún
sænginni af sér og stígur nakin fram úr rúminu.
Flísarnar á gólfinu eru kaldar undir iljum hennar.
Það er myrkur.
Aðeins ljóstíra frá ljósastaurnum fyrir utan varpar örlítilli birtu inn í
herbergið.
Rétt nægilegri til að hún sjái móta fyrir honum í rúminu.
Hún horfir á hann sofandi, meðan hún fer í náttsloppinn sinn, vefur honum
þétt að sér en er áfram berfætt.
Gengur síðan út úr herberginu, lokar varlega á eftir sér og fer inn í stofu.
Finnur sígarettupakka og kveikjara á stofuborðinu. Opnar svaladyrnar,
kveikir í.
Blæs reyknum út, eins og hún er vön.
Horfir út í myrkrið fyrir utan.
Hugsar.

MÁLVERKIÐ

Hún gengur út úr vinnustofu sinni.
Gætir þess vel að líta ekki til baka.
Á málverkið sem stendur fullbúið á trönunum.
Hún lokar dyrunum.
Læsir.
Gengur inn í eldhús með lykilinn í hendinni.
Leggur hann á eldhúsborðið.
Sest.
Fær sér kaffi.
Horfir á lykilinn meðan hún drekkur hvern kaffibollann af öðrum.
Skoðar hann svo vel að hún gæti hæglega teiknað hann með lokuð augu.
Hún klárar úr enn einum kaffibollanum. Stendur upp og tekur lykilinn.
Gengur að dyrum vinnustofunnar og horfir á þær góða stund.
Heldur á lyklinum í hendinni.
Hann vísar á skráargatið.
Hún snýr sér eldsnöggt frá dyrunum og gengur rösklega inn í eldhúsið
aftur. Opnar ruslaskápinn undir vaskinum. Tekur pokann úr fötunni. Lætur
lykilinn detta ofan í hann. Hnýtir fyrir og fer með hann út í tunnu.
Hún þarf ekki að skoða myndina sem stendur fullbúin á trönunum í
vinnustofunni.
Hún veit að verki sínu er lokið.

HVAR?

Gamli maðurinn fetaði sig hægt og rólega um íbúðina, sem hann og kona
hans höfðu búið í lengi og hann þekkti inn og út en nú var engu líkara en hún
væri honum ókunnug.
Hann fór um hana alla.
Þreifaði sig nánast áfram líkt og hann væri blindur. Snerti hvern einasta hlut,
opnaði hverja skúffu og fálmaði óstyrkum höndum ofan í hana. Opnaði alla
skápa, hvort heldur var í eldhúsinu eða svefnherberginu. Snerti hvern bolla og
disk og strauk yfir fötin í fataskápunum.
Kona hans fylgdist með honum en sagði ekki neitt.
„Hvar?” spurði hann meðan hann hringsnerist um sjálfan sig í stofunni.
„Hvað?” spurði kona hans, undrandi á þessu háttalagi.
Hann hafði aldrei hagað sér svona áður, þó hann ætti ýmislegt til. Það var
einmitt eitt af því sem hún hafði fallið fyrir á sínum tíma hve óútreiknanlegur
hann gat verið. Hún hélt reyndar að hún væri farin að þekkja allar hans hliðar
en svona hafði hann aldrei hagað sér áður.
„Hvar?” endurtók gamli maðurinn og virtist undrandi á að finna ekki það
sem hann leitaði að.
Hann hélt áfram ferð sinni um íbúðina.
Þar til hann staðnæmdist við einn vegginn í stofunni og sagði: „Hér!”
Í röddinni greindi kona hans feginleik og allt að því ánægju yfir að hafa
fundið eitthvað sem týnt hafði verið lengi.
Hann stóð andartak fyrir framan vegginn áður en hann féll í gólfið.

GAMALL BÓNDI SLÆR

„Ja hérna, hvað er þetta nú eiginlega? Eru þeir komnir með einhverja nýja
tegund af hermaskínum? Eins og þeir eigi ekki nóg af þessum drápstólum
fyrir.”
Bóndinn gamli stöðvar traktorinn, klöngrast niður úr honum og lítur til
himins.
„Svona dóti sem lyftir þeim upp í loftið svo þeir geti drepið sig þar. Það er
víst fínna og flottara en að drepast niðri á jörðinni, segja þeir.”
Þetta er ólíkt öllu öðru sem hann hefur séð. Hefur hann þó lifað lengi og
séð margt.
„Nei, til hvers ættu þeir að nota svona herflugvélar? Þetta sést allsstaðar.”
Hann styður sig við dráttarvélina og starir til himins, á grænleitt ljósið sem
skín skært beint fyrir ofan hann.
Það hreyfist hægt norður í átt að herflugvellinum.
„Eða er þetta ef til vill óvinaflugvél? Njósnavél?” Hann strýkur hugsi yfir
sítt og mikið skeggið, smellir í góm og hristir höfuðið.
„Nei, annars,” segir hann stundarhátt, „þær væru ekki svona áberandi.”
Hann horfir á ljósið færast til. Það líður mjög hægt yfir himininn og stefnir
alltaf norður.
Bóndinn gamli fylgist með því, þar til það hverfur úti við
sjóndeildarhringinn.
Hann spýtir við tönn og klöngrast upp í traktorinn á ný. Heldur áfram að
slá.
„Það verður að klára spilduna í nótt. Meðan hann hangir þurr.”

GAMLI MAÐURINN

Þegar hann kom í þorpið sitt gamla, eftir áratuga fjarveru, sá hann og hitti
alla sína gömlu kunningja, sem höfðu verið kyrrir og hvergi farið.
Marga svipi sá hann líka sem hann kannaðist við. Tók þó sérstaklega eftir
gömlum manni sem hann hélt að væri dáinn fyrir löngu.
Hafði líka alltaf verið gamall.
„Nei, nei,” sagði gamli maðurinn, „ég er sprelllifandi. Ennþá.”
„Held ég í það minnsta,” bætti hann við eftir smáþögn.
Hinn var ekki sannfærður.

GLUGGINN

Það var koldimm nótt. Ljósastaurarnir lýstu þó upp umhverfið svo ég rataði
heim.
Þangað var ég að fara eftir kvöld á djamminu.
Einn.
Félagarnir allir farnir. Höfðu flestir náð sér í stelpur til að fara með heim.
En ég fann enga. Náði að minnsta kosti ekki í neina. Enda löngum verið
hálfgerður klaufi í kvennamálum.
Þurfti því að drattast einn heim.
Eins og háttur minn er þegar ég geng hvar sem ég er og í hvernig ástandi
sem ég er, leit ég í kringum mig á þessari heimför minni. Kíkti inn í garða sem
ég gekk hjá, leit á húsin og virti fyrir mér það sem við augum blasti í
gluggakistum. Styttur, blóm og annað dót sem fólk setur út í glugga til
skrauts.
Svo allt í einu blasti glugginn við mér.
Flestir hefðu gert nákvæmlega það sama og ég gerði.
Maður lætur ekki svona tækifæri framhjá sér fara. Allra síst þegar maður er á
heimleið. Einn eftir kvöld á djamminu og allir fá eitthvað nema maður sjálfur.
Þá staðnæmist maður við glugga sem dregið er frá og allur uppljómaður.
Þau hafa örugglega ætlast til að einhver sæi til þeirra annars hefðu þau
dregið fyrir.
Ég stoppaði á gangséttinni og horfði á þau inn um uppljómaðan gluggann.
Þau tóku ekki eftir mér, enda upptekin hvort af öðru. Þau blöstu við mér
eins og þau væru leikarar á svið og ég eini áhorfandinn.
Eftir góða stund fannst mér þó leikur þeirra hálf tilbreytingarlaus, þau
skiptu ekki einu sinni um stellingu, svo ég hélt áfram ferð minni heim.

RÆÐUMAÐURINN

Ræðumaðurinn steig úr púltinu eftir að hafa flutt ræðuna og gekk út í
salinn.
Reyndi að blanda geði við áheyrendur.
Langaði að fá viðbrögð frá samherjum sínum.
Helst hól.
En enginn leit við honum. Né talaði um ræðuna hans.
Eins og hún hefði aldrei verið flutt.
Að lokum fór ræðumaðurinn sjálfur að efast um að hann hefði flutt
ræðuna.

HÚN SEM SITUR Á BAKKANUM

Hún situr á háum bakkanum, lætur fæturna hanga fram af og sveiflar þeim.
Henni er sama þó grænt grasið skilji eftir blett á bláum gallabuxunum.
Vonar að bakkinn hrynji ekki, það er nefnilega býsna langt niður í fjöruna
og hún stórgrýtt.
Hún situr og hlustar á brimið og nið sjávarins sem henni finnst tala við sig
eina. Að sterk og kraftmikil hljóðin séu ætluð henni einni og engum öðrum.
Hún hættir að sveifla fótunum til að geta beint athyglinni enn frekar að
hljóðinu þegar hafið skellur á grjótinu langt fyrir neðan og sogast svo út á ný.
Þannig alltaf aftur og aftur.
En í hvert sinn nýtt orð og ný skilaboð til hennar sem situr á bakkanum hátt
fyrir ofan og hlustar.

ELDHÚSIÐ

Hann gengur inn í eldhúsið.
Hefur ekki komið þangað inn síðan… ja hann man ekki hvenær eða
kannski vill hann ekki rifja það upp.
Það er tandurhreint og gljáandi.
Eins og hún skildi við það, daginn sem hún gekk út og lokaði á eftir sér.
Hann vissi að hún var nýbúin að taka eldhúsið í gegn. Það gerði hún alltaf á
fimmtudögum og það var einmitt á fimmtudegi sem hún fór.
Hann sér strax að fáein rykkorn hafa sest á hillurnar sem áður voru svo vel
hirtar og tandurhreinar.
Þegar hann opnar ísskápinn gýs á móti honum lykt af gömlum og
skemmdum matvælum.
Hann lokar í skyndi. Hugsar þó með sér að hann þyrfti nú að fara að henda
úr skápnum.
Hann sest við eldhúsborðið.
Í sætið hennar.
Situr andartak.
Stendur upp og gengur út.
Lokar á eftir sér.

BÚÐARFERÐ

Maðurinn lokaði dyrunum að húsi sínu og gekk úr skugga um að þær væru
tryggilega læstar. Setti lykilinn í vasann og leit niður stíginn sem blasti við
honum, áður en hann lagði af stað þennan sama stíg.
Hann gekk hægt og rólega, sumir myndu líklega segja að göngulag hans væri
stirt en hann var ekki á því. Hann gekk bara svona og hafði alltaf gert.
Fáeinir grastoppar gægðust upp milli gangstéttarhella á stígnum. Hann
sparkaði í stein sem varð á vegi hans. Steinninn skaust upp að gulum vegg
eins hússins. Veggurinn var gluggalaus utan einn þríhyrningslaga alveg uppi
undir þaki.
Við enda stígsins var lítil verslun. Þangað var för mannsins heitið. Honum
var heilsað með virktum er hann kom inn. Hann var eini viðskiptavinurinn og
því gaf kaupmaðurinn sér góðan tíma til að spjalla við hann.
Eins og hann gerði ævinlega.
Þegar erindi hans var lokið, kvöddust þeir kaupmaðurinn með óskum um
góðan og ánægjulegan dag og maðurinn lagði af stað eftir göngustígnum í átt
að húsi sínu.
Er hann kom að gula veggnum með þríhyrningslaga glugganum uppi undir
þaki, staðnæmdist hann og svipaðist um eftir steininum.
En fann hann hvergi.
Hann gekk þá fram og aftur meðfram veggnum í leit að steininum en kom
ekki auga á hann.
Hann fann óöryggið og óttann ná tökum á sér.
Þetta hafði aldrei gerst áður, að hann fyndi ekki steininn sinn.
Hann var sannfærður um að einhver eða einhverjir væru að gera at í sér.
Vissi þó ekki hver eða hverjir né heldur hvers vegna.
Maðurinn gafst upp á leitinni og hraðaði sér heim í hús sitt.
Hann hljóp nánast vð fót síðasta spölinn og hjartað hamaðist í brjósti hans
þegar hann fann lykilinn í vasa sínum, opnaði og steig innfyrir.
Maðurinn skellti dyrunum óvenju harkalega á eftir sér.

SKIL

Hún stöðvar bílinn.
Bíður þar til rykmökkurinn er horfinn. Stígur þá út og teygir úr sér. Andar
djúpt að sér hreinu loftinu.
Dalurinn er þröngur með háum klettóttum fjöllum beggja vegna. Þurr og
harður malarvegur hlykkjast um hlíðina. Niður dalinn hendist stór og
straumþung á.
Hún hlustar á drunur hennar.
Hver hugsun um að snúa aftur drepin í fæðingu.
Eða jafnvel fyrr.
Í hlíðinni ofanvið veginn stendur bær sem líkt og hangir utan í fjallinu.
Hún forðast að hugsa til baka. Leyfir huganum ekki að hvarfla þangað
örskotsstund. Þá gæfist hún upp og sneri aftur.
Líkt og svo oft áður.
Hún sest inn í bílinn. Setur hann í gang og ekur af stað.
Hún ætlar aldrei að snúa aftur.
Ekki í þetta skiptið.

HORFT TIL HAFS

Þau sitja tvö á bekk og horfa til hafs.
Segja ekkert.
Þurfa þess ekki.
Sitja aðeins þögul og horfa til hafs.
Fólk þýtur hjá. Ýmist á hjólum eða skokkandi án þess að veita þeim athygli.
Og þau taka heldur ekki eftir neinu kringum sig nema hafinu, sem liggur
slétt og fagurt fyrir framan þau.
Það er ekki fyrr en hundurinn litli kemur og þefar af þeim, sem þau líta af
hafinu og á hundinn.
En aðeins andartak.

ÓLÖF

Síminn hringir. Ég stekk upp úr sófanum og svara, enda á ég von á símtali:
„Er Ólöf við?” spyr skræk karlmannsrödd.
„Ja, hér býr nú engin með því nafni,” svara ég óþolinmóður.
„Nú, það var skrýtið,” segir skræka röddin, „mér var sagt að hún væri í
þessu númeri.”
„Það er einhver misskilningur,” segi ég og get ekki leynt pirringi mínum.
Þetta er ekki í fyrsta og ekki í annað sinn sem hringt er og spurt eftir Ólöfu.
Það hefur gerst nánast á hverjum degi síðan ég fékk þetta símanúmer.
Stundum eru það karlmenn sem hringja, stundum konur. En ég gef alltaf
sama svarið:
,,Ja, hér býr nú engin með því nafni.”
Þá er ávallt sagt hinumegin á línunni:
„Nú, það var skrýtið, mér var sagt að hún væri í þessu númeri.”
Þessu svara ég með, að það hljóti að vera „einhver misskilingur.”
Rétt eins og ég segi við skræku röddina.
Á þessum orðum lýkur símtalinu ævinlega, því sá sem er á hinum enda
línunnar leggur á.
Þetta er orðið ansi þreytandi og þess vegna ákveð ég að breyta til einu sinni:
„Er Ólöf við?” er spurt eins og venjulega.
„Hvað viltu henni?” spyr ég þá.
En í stað þess að svara spurningu minni, segir röddin á hinum endanum,
sem að þessu sinni er djúp og rám:
„Nú, það var skrýtið, mér var sagt að hún væri í þessu númeri,” rétt eins og
manneskjan hefði ekki heyrt spurningu mína.
Ég endurtek því: „Hvað viltu henni?”
En þá er lagt á.
Ég fæ strax á tilfinninguna að ég sé að taka þátt í einhverskonar leikriti og
að ég hafi ruglast í textanum. Eða farið með texta úr öðru leikriti.
Að minnsta kosti gerði ég eitthvað rangt. Eitthvað sem ég átti ekki að gera.
Svo næst þegar verður hringt, ef það verður hringt aftur, verður handritið
komið í samt lag á ný:
„Er Ólöf við?”
„Ja, hér bý nú engin með því nafni.”
„Nú, það var skrýtið, mér var sagt að hún væri í þessu númeri.”
„Það er einhver misskilningur.”
Og símatalinu lýkur.
Það er algjör óþarfi að breyta handritinu.

KASSADAMAN

1
Ég fór í búðina í dag, eins og ég geri stundum.
Mig vantaði helstu nauðsynjar, eins og mjólk og brauð og skyr og eitthvað
fleira. Mér þykir best að kaupa lítið í einu og þó að ég sé ekki þurftarfrekur þá
þýðir það að ég þarf að fara í búðina stöku sinnum.
Á einum kassanum var ný kassadama. Ég hef að minnsta kosti aldrei séð
hana áður, svo hún hlýtur að vera nýbyrjuð að vinna þarna. Því ég þekki allt
starfsfólk verslunarinnar nokkuð vel. Að minnsta kosti í sjón enda hef ég
skipt við þessa búð í mörg ár. Alveg frá því ég flutti í hverfið.
En hana hafði ég aldrei séð áður.
Langir og grannir fingur hennar handléku það litla sem ég var að kaupa af
svo miklu öryggi og allt að því umhyggju að unun var á að horfa.
Greinilegt að hún hefur unnið lengi á kassa, þó hún sé nýbyrjuð í búðinni
minni.
Gaman væri að vita hvar hún var áður.

2
Ég fer í búðina nánast á hverjum degi. Einungis til að hitta nýju
kassadömuna. Gæti þess vel að hún sé á kassanum þegar ég fer að borga. Ef
hún er ekki við kassann þá bíð ég um stund þar til hún kemur aftur úr kaffi
eða hvað það er sem hún er að gera þegar hún er ekki á sínum stað.
Enginn annar starfsmaður má afgreiða mig lengur.
Bara hún.
Auðvitað segi ég það ekki upphátt við nokkurn mann, þetta er bara svona
eitthvað sem er í kolli mínum og hvergi annars staðar.
Jafnvel hafa læðst að mér þær hugsanir að eitthvað slæmt muni gerast ef
einhver annar afgreiðir mig. Að ég verði fyrir bíl á leiðinni heim eða að
einhver ráðist á mig og berji mig í klessu ef annar en hún handleikur vörurnar
sem ég er að kaupa og tekur við kortinu mínu.
Ég geri mér grein fyrir að þetta eru fáránlegar hugsanir en get ekkert að
þeim gert. Þær koma bara og festast í huganum og neita að fara, sama hvernig
ég reyni að reka þær á brott.

3
Við spjöllum oft saman þegar ég versla í búðinni, ég og kassadaman mín.
Ég kalla hana kassadömuna mína því mér finnst ég þekkja hana orðið svo vel.
Veit hvar hún vann áður og hvers vegna hún skipti og að hún er fráskilin og á
eitt barn.
Hef líka sagt henni margt um mig.
Vissulega ekki allt, enda það varla hægt þegar maður stendur við kassa í
smástund og fylgist með henni skanna vörur og nefna svo upphæð og maður
réttir henni kortið sem hún rennir í gegn og svo skrifar maður undir. Þetta
tekur nú ekki langa stund og það er ekki margt sem hægt er að spjalla um á
svona stuttum tíma. Sérstaklega ekki ef það er löng röð fyrir aftan mig. Fólk
sem bíður eftir að hún afgreiði það eins og hún afgreiðir mig.
En vegna þess að ég kem orðið svo oft í búðina og fer bara á kassann til
hennar þá getum við haldið áfram með samtalið þar sem frá var horfið síðast.
Þannig getur það haldið áfram svo lengi sem hún vinnur í búðinni minni og
ég versla þar.
Það þarf aldrei að taka enda.

MAÐUR Á HLAÐI

Konan á bænum sem stóð utan í fjallshlíðinni leit út um eldhúsgluggan og
varð svo mikið um að hún missti könnuna sem hún var með í höndunum í
gólfið svo hún mölbrotnaði.
Á hlaðinu stóð maður í rigningunni og rokinu.
Fyrsta hugsun konunnar var: heppinn að fjúka ekki fram af klettunum.
Hún leit á hann og sá að hann var dökkur yfirlitum undir hattinum sem
hann bar á höfði og undan honum sýndist henni glitta í dökka hárlokka.
Hann klæddist skósíðum dökkum frakka sem orðinn var rennandi blautur,
rétt eins og hatturinn.
Maðurinn stóð hreyfingarlaus á hlaðinu og horfði inn um eldhúsgluggan. Á
konuna.
Hún þekkti hann ekki, hafði aldrei séð hann áður.
Hann hreyfði sig ekki hið minnsta og það hvarflaði að konunni að hann
væri hreinlega steinrunninn og myndi smátt og smátt breytast í stein fyrir
augum hennar.
Það gerði hann ekki.
Er þau höfðu starað hvort á annað um stund, konan í eld-húsinu og
maðurinn á hlaðinu, var sem hann rankaði við sér, snerist á hæli og gekk á
brott.
Álútur í rigningunni og rokinu.
Þá var sem hún áttaði sig og þaut fram í dyragættina til að bjóða honum inn.
En hann var horfinn eitthvert út í sortann. Hún kom ekki auga á hann,
hvernig sem hún rýndi út.
Hún lokaði því dyrunum og hélt inn í eldhús til að sópa upp könnubrotin.
Hún minntist aldrei á hann við nokkurn mann á bænum.

LJÓS Á HIMNI

Guð að taka myndir,” hugsaði ég með mér og skellti uppúr, þegar á sá
ljósblossann í himninum.
Þetta var seint í ágúst en eigi að síður það heitt að hægt var að sitja úti á
veröndinni og drekka bjór.
Eins og í útlöndum.
Þar sat ég einmitt þegar ég kom auga á þennan ljósblossa og flaug í hug
þessi góði brandari um guð að taka myndir.
Vissi þó vel að þetta gat ekki verið annað en stjörnuhrap.
Ég lauk við bjórinn minn og hélt inn, fór að sofa og hugsaði ekki meira um
þennan ljósblossa.
Ekki fyrr en morgunin eftir, þegar ég heyrði fréttirnar í útvarpinu en á þær
hlusta ég á hverjum morgni. Þar var talað um „torkennilegt ljós á himni” sem
„sást víða um land” kvöldið áður. Ég hafði ekki látið útvarpið vita af því að
ég hefði séð ljósið en einhverjir höfðu greinilega gert það.
Ég hreinlega hugsaði ekki út í það, þar sem ég var viss um að þetta væri
stjörnuhrap. En þegar ég heyrði fréttina sannfærðist ég um að svo gæti alls
ekki verið.
Stjörnufræðingurinn sem rætt var við í fréttinni sagði líka að „miðað við
lýsingar fólks á þessu fyrirbæri, væri útilokað að þetta hefði verið
stjörnuhrap.” Þannig endaði fréttin, ekkert reynt að grafst fyrir um
hverskonar ljós þetta gæti hafa verið. Hlustendur í raun skildir eftir í lausu
lofti.
En um leið og ég heyrði fréttina, vissi ég hvað þetta var: Fljúgandi diskur
fullur af geimverum á leið til jarðar með öllum þeim skelfilegu afleiðingum
sem það hefur í för með sér fyrir okkur jarðarbúa.
Það fyrsta sem ég gerði þegar þetta rann upp fyrir mér, var auðvitað að
hringja í útvarpið og láta vita af því sem mér fannst augljóst en enginn annar
virtist hafa áttað sig á.
Þeir hjá útvarpinu vildu ekki hlusta á mig. Þeir hlógu að mér. Og þegar ég
var búinn að hringja nokkrum sinnum hættu þeir að svara mér.
Ég gafst því upp á að reyna að vara fólk við.


Sit því í stofunni minni og bíð eftir geimverunum sem ég veit að eru á
leiðinni til jarðarinnar. Og þegar þær koma munu þeir sem ekki vildu hlusta á
viðvaranir mínar sjá eftir því að hafa ekki hlustað á varnaðarorð mín.

BÍLLJÓSIN

Skær ljós bílanna lýstu beint í andlit mitt þar sem ég stóð við gluggann.
Böðuðu mig skini sínu svo mér fannst ég vera á sviði og ljósin væru flóðljós
sem lýstu á mig og mig einan.
Eins og ég væri fræg stjarna, kannski rokkstjarna og fyrir framan mig væru
mörg þúsund manns sem komin væru til þess eins að hlusta á mig og engan
annan.
Ég bar krepptan hnefann upp að munninum, líkt og ég héldi á míkrafóni,
opnaði munninn og gaf frá mér hljóð sem í mínum eyrum hljómaði sem
söngur.
En vissi að lét í eyrum annarra sem garg og gól.
Þá fann ég að hönd var lögð mjúklega á öxl mína og um leið var sem ég
væri rifinn niður af sviðinu og bílljósin hættu að vera flóðljós og urðu á ný
venjuleg bílljós.
Höndin merkti að tími minn væri útrunninn og ég þyrfti að fara að sofa.
Gæti ekki lengur staðið við gluggann og horft á bílana þjóta hjá og baða mig
ljósi sínu.

MIÐILSFUNDUR

Hún fór á miðilsfund og átti von á að upplifa eitthvað stórfenglegt.
Eins og allir höfðu sagt að hún ætti að gera. En hún sat einungis í sæti sínu
og leið bara nokkuð vel.
Sagði hún sjálf.
En hin stórfenglega upplifun lét á sér standa.
Hvað er að mér? spurði hún sjálfa sig er hún gekk út.

ENDALOK

„…og við sem áttum svo fjandi margt sameiginlegt,” sagði hann og skrúfaði
lokið fast á kistuna.
„Ætli ég endi svona?” hugsaði hann svo og sá fyrir sér gatið á enninu.

FJALLGANGA

Feta mig í átt að fjallstindinum sem ég hef svo oft horft á úr
stofuglugganum mínum. Látið mig dreyma um að standa á toppi hans og
horfa yfir byggðirnar.
Ég er einn á ferð. Vinur minn ætlaði að koma með mér en þegar ég hringdi
í hann í morgun, sagðist hann vera orðinn veikur og treysti sér ekki.
„En þú skalt samt fara,” sagði hann.
„Já,” sagði ég.
Geng á nýju gönguskónum mínum, með stafina sem einnig eru nýjir og í
bakpokanum eru aukaföt og nesti.
Hann er ekki nýr.
Með hverju skrefi þokast ég nær og nær tindinum langþráða.
Gæti þess að fara rólega, eins og mér var sagt að ég ætti að gera, svo þetta
yrði ekki eins erfitt.
Nýt þess að láta kyrrðina umlykja mig.
Tek ekki eftir þokubakkanum sem læðist varlega niður hlíðar fjallsins, eins
og hún spretti upp úr tindinum langþráða, fyrr en hún umlykur mig.
Vefst utanum mig svo ég tapa áttum.
Veit ekki hvar ég er né heldur hvert ég á að stefna.
Þó ég setjist á stein og fái mér að borða, í þeirri von að þokunni létti, er hún
jafn þétt og áður.
Ef ekki þéttari.

BIÐ

Mennirnir tveir sem sátu á bekknum og horfðu til hafs, sögðu ekki orð.
Augu þeirra voru einbeitt og athugl. Eins og þeir biðu ein-hvers sem ætti að
birtast á hafinu eða koma upp úr því.
„Það kemur ekki,” sagði annar þeirra eftir margra tíma setu, vonbrigðin
augljós í röddinni.
„Nei, ekki í dag,” sagði hinn þurrlega en þó ekki alveg laus við vonina sem
var það eina sem hann átti eftir.

VATNIÐ

Eftir sextán daga göngu um rökkvaða skógarstíga gengum við loks út í
rjóðrið þar sem vatnið blasti við okkur.
Það glampaði svo á það að við fengum næstum ofbirtu í augun.
Öll þrjú.
Sólin skein á vatnið fyrir framan okkur og yfir því flögruðu ótal fuglar. Enn
fleiri syntu á því. Gátum ekki með nokkru móti gert okkur grein fyrir hve
margir þeir voru.
Við námum staðar á bakkanum, litum hvort á annað og brostum.
Vorum næstum komin á leiðarenda.
Settumst niður á vatnsbakkanum og borðuðum það sem eftir var af nestinu
okkar.
Gættum þess að skilja ekkert eftir á bakkanum. Þess höfðum við gætt
vandlega þá sextán daga er við höfðum verið á ferðinni. Kærðum okkur ekki
um að nein ummerki sæjust eftir okkur.
Þegar við vorum öll orðin mett, stóðum við upp og héldum út á vatnið.
Lengra og lengra og fuglarnir viku fyrir okkur.
Stefndum yfir vatnið.
Þangað var för okkar heitið.

HÖLLIN

Þegar við höfðum gengið veginn á enda varð fyrir okkur stór höll sem
lokaði leiðinni.
Hún stóð þarna og varnaði okkur vegarins svo við gátum ekki haldið áfram.
Urðum að láta ferð okkar lokið.
Engin leið var að ganga meðfram múrum og síkjum hall-arinnar í þeim
tilgangi að komast fyrir hana.
Sú leið var lokuð.
Við ræddum því málin fyrir framan hallarhliðið.
Nokkuð margir í hópnum lögðu til að snúið yrði við:
„Hvað annað getum við svo sem gert?” spurðu þeir.
Okkur hinum fannst það nú ansi hart, vorum ekki sátt við að hafa gengið
alla þessa leið til þess eins að halda til baka.
„Við gætum bankað uppá í höllinni og fengið að fara gegnum
hallargarðinn,” sögðum við full bjartsýni.
Félagar okkar sem vildu snúa við hlógu að þessum orðum, sögðust aldrei
hafa heyrt aðra eins vitleysu.
Þeir voru enn að hlæja þegar hliðið opnaðist og hallareigandinn birtist í
eigin persónu og spurði hví í ósköpunum við stæðum hérna úti fyrir en
kæmum ekki inn.

INNILOKAÐUR

Ég er lokaður inni. Sit á gólfinu sem er bæði kalt og hart.
Hvergi gluggi, aðeins dyrnar sem eru rammlæstar. Heyri enn í huganum
hljóðið þegar hún féll að stöfum og háværan smellinn í lásnum, þegar þeir
læstu mig hérna inni.
Ég skelf og titra, reyni þannig að fá smá hlýju í kroppinn.
Efast þó um að það takist.
Niður úr loftinu hangir ljósapera. Ein og stök en þó nægilega sterk til að
varpa birtu um allt herbergið. Svo hvergi er skugga að finna.
Ég sit einn á köldu og hörðu gólfinu og hef ekki hugmynd um afhverju þeir
lokuðu mig hér inni.
Ekki minnsta grun.

GAMALL MAÐUR HORFIR ÚT UM GLUGGA

Gamli maðurinn stóð við gluggann, hallaði sér út og horfði á börnin leika
sér í garðinum.
Hann vissi ekki hvaða börn þetta voru. Fannst þó að hann ætti að þekkja
þau eða í það minnsta kannast við þau. En í heila hans, þar sem átti að vera
pláss fyrir þau, var engu líkara en væri eyða eða tóm blaðsíða sem hann gat
ekki fyllt með orðum.
Eins og áður fyrr.
Hann þekkti þau ekki. Kom þeim ekki fyrir sig en var eigi að síður glaður
og ánægður með að garðurinn hans væri fullur af lífi. Að enn á ný væri hann
orðinn fullur af börnum sem hlupu um og léku sér, kát og glöð.
Það hafði ekki gerst lengi.
Hann mundi vel þá tíma er hans eigin börn fylltu garðinn af lífi og fjöri.
Mundi hvernig þau hlupu á eftir boltanum sínum, fóru í snú snú eða sippuðu
og skoppuðu áhyggjulaus um garðinn. Oft þegar hann sat inni í herberginu
með þennan sama glugga opinn og skrifaði bækur sínar, sem voru um
eitthvað allt annað en kát og glöð börn í garði, bárust hljóð þeirra inn til hans.
Nú var hann hættur að skrifa.
Hugurinn orðinn galtómur og börnin orðin stór, farin að heiman og
kannski hafa þau sjálf eignast sín eigin börn.
Hann mundi það ekki.
En gladdist yfir börnunum sem léku sér í garðinum.

HÖFUÐ FULLT AF MINNINGUM

Hendurnar bundnar svo hann getur ekki hreyft þær. Böndin reyrð
þéttingsfast um úlnliðinn, skerast inn í holdið. Blóðið hættir að streyma fram í
fingurna sem blána.
En hann getur ekkert við því gert. Verður að sætta sig við þetta.
Og það hefur engan tilgang að hrópa á hjálp. Hún berst ekki, jafnvel þó
hann æpi og gargi í margar klukkustundir.
Engin kærir sig um að hjálpa og hann efast einnig um að nokkur heyri til
sín.
Og smátt og smátt deyja hendurnar, úr þeim er allur lífsmáttur.

Dyrnar opnast og inn gægist skeggjað karlmannsandlit.
Athugar hvort allt sé með felldu.
Sér að svo er ekki.
Undrast hve illa maðurinn í rúminu lætur í svefninum.
Vaktmaðurinn gengur alveg inn í herbergið, skilur dyrnar eftir opnar að baki
sér og ýtir við þeim sem í rúminu liggur og hefur sparkað sænginni út á gólf.
Hann er allur rennsveittur, byltir sér til og frá í rúminu og stynur í svefninum.
En það eru ekki ánægjustunur heyrir vaktmaðurinn strax, eins og hann sé
að dreyma eitthvað ljúft og ánægjulegt.
Nei.
Þetta eru hræðslu og sársaukastunur sem benda til óþægilegra draumfara.
Vaktmaðurinn ýtir aftur við þeim sem í rúminu liggur. Vekur hann og talar
blíðlega til hans. Eins og hann hefur vanist.
Veit orðið hvað hæfir best.

Hann man vel þegar þessi maður kom inn fyrst.
Dag nokkurn, fyrir fáeinum vikum, stóð hann bara fyrir utan og barði að
dyrum. Þó útidyrnar væru ólæstar. Eins og venjulega þrátt fyrir að aðrar séu
alltaf læstar með tveim lásum að minnsta kosti.
Þessi maður stóð og bankaði á ystu dyr. Vaktmaðurinn hljóp fram þegar
hann heyrði bankið og opnaði. Honum dauðbrá þegar hann sá manninn sem
stóð fyrir utan og hríðskalf, þrátt fyrir að sólin skini hátt á lofti og þetta væri
einn heitasti dagur sem komið hafði lengi. Auk þess var maðurinn
rennblautur eins og hann hefði lent í grenjandi rigningu.
Vaktmaðurinn komst að því síðar að hann hefði hent sér í sjóinn og ætlað
að drekkja sér en hætt við. Guggnað og ekki þorað að ganga alla leið, þegar til
kom. Og því synt til lands, þrátt fyrir að það væri erfitt í fötunum, sem
þyngdu hann verulega.
En sem betur fór var þetta ekki langt.
„Ég heiti Jón,” sagði maðurinn svo lágt að varla heyrðist, „höfuð mitt er að
springa af minningum. Þið verðið að hjálpa mér.”
Vaktmaðurinn vísaði honum inn og aðstoðaði hann við að fara úr blautum
fötunum og í slopp sem hann fann handa honum.

Vaktmaðurinn ýtir enn einu sinn við Jóni, sem rumskar og tekur andköf í
svefnrofunum.
„Jón minn, vaknaðu nú,” segir hann um leið og hann beygir sig niður og
tekur upp sængina.
„Dreymdi þig illa?” spyr vaktmaðurinn en áttar sig um leið á hve fáránlega
spurningin hljómar.
Jón opnar augun en segir ekkert. Starir bara upp í loftið, eins og hann átti
sig ekki alveg á því hvar hann er staddur.
Vaktmaðurinn stendur við rúmið en segir ekkert. Horfir einungis á Jón
vakna, gengur síðan að vaskinum í herberginu, skrúfar frá og fyllir glas af
vatni.
„Þig dreymdi illa,” segir hann meðan hann gengur að rúminu aftur.
Jón lítur á hann en segir ekki neitt. En reisir sig upp þegar hann sér
vatnsglasið í hendi vaktmannsins og réttir út aðra hendina eftir því.
„Gerðu svo vel,” segir vaktmaðurinn.
Jón tekur við glasinu og teygar úr því. Lætur svo fallast aftur á rúmið.
„Þetta var nú fínt,” segir vaktmaðurinn. „Nú skaltu reyna að sofna aftur.
Góða nótt og dreymi þig vel,” bætir hann við um leið og hann gengur að
dyrunum, fer út úr herberginu og lokar á eftir sér.
Jón liggur í rúminu með opin augun. Starir út í loftið og finnur fyrir
sársaukanum í höndunum sem eru reyrðar fyrir aftan bak svo þétt að böndin
skerast í holdið.
Og veit að höfuðið sem er fullt af minningum mun brátt springa og þær
dreifast um allt herbergið sem hann er ekki viss um hvort er herbergi eða
klefi.

KAFFIKONAN

Í svefnrofunum á morgnana vissi hún aldrei hvort hún var að vakna eða
sofna fyrr en hún fann kaffiilminn berast inn um gluggann til sín.
Dag nokkurn, þegar enginn kaffiilmur barst inn, vegna þess að gamla konan
á neðri hæðinni var dáin, lagðist hún aftur á koddann og hélt áfram að sofa.
Og svaf þar til önnur gömul kona flutti inn á neðri hæðina og fór að hella
upp á kaffi á morgnana.

GENGIÐ Á HAFI

Vinkonurnar óaðskiljanlegu minnast oft mannsins sem þær sáu ganga á
hafinu forðum.
Þegar þær voru ungar.
Morgunn einn voru þær á göngu niðri í fjöru og sáu manninn stíga út úr
bátnum og ganga á hafinu.
Hann gekk spölkorn frá bátnum, sneri svo við og fór í hann aftur.
Eins og hann væri að athuga hvort hann gæti gengið á hafinu
Þær þekktu hann ekkert.

MAÐUR Í ÍBÚÐINNI

Flugþreytan sat enn í mér þegar ég steig út úr leigubílnum fyrir framan
húsið sem ég bjó í, enda hafði flugið sem ég var að koma úr verið óvenjulangt
og strembið.
Ég stökk upp tröppurnar full tilhlökkunar yfir að geta loks lagst í baðið
mitt, áður en ég skriði upp í rúmið mitt stóra, sem ég hafði ekki sofið í svo
lengi.
Allt of lengi.
Lyklarnir voru á sínum stað í litla rennda hólfinu í handtöskunni minni. Ég
fann þá og opnaði forstofudyrnar, tók síðan lyftuna upp á efstu hæðina þar
sem íbúðin mín var. Notalegur straumur vellíðunar fór um mig þegar ég kom
inn í blokkina og sá að allt var óbreytt. Liturinn á veggnum var jafn
rjómagulur og áður og teppið á gólfinu jafn brúnt. Lyktin í stigaganginum var
meira að segja sú sama.
Það var notalegt og þægilegt að finna að eitthvað var eins og það átti að sér
að vera, eftir að hafa flogið milli ólíkra staða og sofið í mörgum mismunandi
rúmum allan þann tíma sem ég hafði verið í burtu.
Að ekki sé nú talað um alla ólíku lyktina sem ég hafði fundið. Hún var
stundum ólýsanleg.
Lyftan bar mig fljótt upp á efstu hæðina og ég renndi lyklinum í skrána að
íbúðinni minni og opnaði.
Þegar ég steig inn í forstofuna mína missti ég næstum andlitið, því í stað
þess að sjá gamalkunnugt anddyrið mitt, með öllum skónum mínum í
skóhillunni, þá blöstu við mér karlmannsskór.
Aðeins einir stórir karlmannsskór.
Og í stað kunnuglegrar lyktarinnar sem ég vildi hafa í íbúðinni minni þá
fann ég framandi og ókunna lykt.
Ég gekk hægt inn í íbúðina en staðnæmdist í eldhúsdyrunum þegar ég kom
auga á karlmann sem sat við eldhúsborðið, las blað og drakk kaffi.
Hann sat við eldhúsborðið mitt og drakk kaffi úr einum bollanum mínum.
En þegar ég leit yfir eldhúsið sá ég að það hafði ekki breyst neitt, eins og
forstofan, þarna var kaffivélin mín, brauðristin, örbylgjuofninn, eldavélin.
Maðurinn virtist ekki verða mín var því hann sýndi engin viðbrögð fyrr en
ég spurði:
„Hver ert þú?” Forviða á þessari innrás á heimili mitt.
Hann hrökk við og starði á mig og andartak fannst mér ég greina ótta í
annars fallegum augum hans.
En einungis andartak.
„Hver er ég?” spurði hann á móti, horfði á mig og fékk sér sopa af kaffinu.
Hann mældi mig alla út, að mér fannst, þar sem ég stóð í eldhúsgættinni í
flugfreyjubúningnum mínum.
„Mikilvægari spurning er þó,” sagði hann þegar hann hafði lagt kaffibollann
frá sér, „hver ert þú?”
Ég gapti af undrun yfir þessari ósvífni. Hér sat hann í eldhúsinu mínu, við
eldhúsborðið mitt og drakk kaffi úr kaffibollanum mínum en vissi ekki hver
ég var.
„Hver er ég?” hváði ég, rétt eins og hann skömmu áður.
Hann kinkaði kolli.
„Það vill nú svo til að ég á heima hérna,” sagði ég og það var aðeins farið að
þykkna í mér yfir því að þessi maður sem sat á stólnum mínum í eldhúsinu
mínu skyldi ekki segja mér hreint út hver hann væri og hvað hann væri að
gera í íbúðinni minni.
Ekki minnkaði bræði mín þegar hann fór að skellihlæja að orðum mínum.
„Átt þú heima hérna?” tókst honum að stynja upp milli hláturrokanna, eins
og ég hefði sagt þann fyndasta brandara sem hann hefði nokkru sinni heyrt.
„Já, ég á heima hérna.”
Hann hætti að hlæja líkt og ýtt væri á takka og hreinlega slökkt á hlátrinum.
„Ég líka,” sagði hann hvass, svo mér dauðbrá við þessi umskipti.
„En þú,” hélt hann áfram ögn mildari þó, „áttir heima hérna.”
Og hann lagði mikla áherslu á orðið „áttir.”
Um leið lyfti hann blaðinu svo við mér blasti frétt um flugslys, þar sem
sagði að flugvél hefði hrapað og áhöfnin öll farist en stór hluti farþeganna þó
lifað af.

TEIKNINGARNAR

Aldrei hef ég trúað á það sem kallað er yfirnáttúrulegt og hef alla tíð talið
draugafræðin hið mesta rugl og vitleysu.
Það fólk sem þykist sjá látna, segist geta læknað sjúka með „aðstoð að
handan” eða fengið fólk til að upplifa „sín fyrri líf,” eða hvað það nú er sem
svo kallaðir miðlar gera, er einungis að spila með trúgrini fólks og narra það.
Hingað til hef ég verið á þessari skoðun. Nú getur hins vegar verið að ég
þurfi að taka hana til endurskoðunar.
Fyrst verð ég þó að geta þess að ég hef aldrei getað teiknað.
Og rifjast þá upp fyrir mér atvik frá því ég var í barnaskóla.
Í teiknitíma áttum við að teikna fugl. Kennarinn, lágvaxinn maður en svo
strangur við vorum öll hálfhrædd við hann, kom með eina uppstoppaða
fuglinn sem til var í skólanum. Hann stóð á steini og breiddi úr vængjunum
eins og hann væri í þann mund að hefja sig til flugs.
„Teiknið” skipaði kennarinn með sinni þrumuraust, sem ótrúlegt var að
kæmi frá svona litlum líkama, og við þorðum ekki annað en hlýða.
Sumum gekk vel.
Öðrum illa.
En engum eins og mér.
Ég reyndi eins og ég gat. Dró misheppnuð strik á blaðið, strokaði þau út.
Reyndi aftur, strokaði út, þar til blaðið mitt var orðið dökkt af
blýantsstrikum, sem voru ekkert í líkingu við fuglinn uppstoppaða sem stóð á
kennaraborðinu fyrir framan mig, og útþurrkunum.
Kennarinn gekk valdsmannslegur um stofuna og skoðaði myndirnar. Hældi
þeim sem gerðu vel og leiðbeindi þeim sem voru á réttri leið. Þegar hann
kom að borðinu tíl mín leit hann á subbulegt blaðið mitt, horfði reiðilega á
mig, tók það upp og hélt því svo allir gætu séð.
„Sjáið þessa mynd,” sagði hann háðslega, „þetta er aldeilis fallegur fugl!”
Krakkarnir hlógu.
Svo reif hann blaðið, fyrst í tvennt, svo í fernt og hélt áfram að rífa það þar
til ekki var annað eftir af því en litlir pappírsmiðar. Þá fleygði hann þeim á
borðið mitt og sagði:
„Þú kannt ekki að teikna og munt aldrei geta það.”
Síðan hef ég ekki reynt að teikna.

Ég sat í stólnum mínum í stofunni, nýkominn heim úr vinnunni, og las
blaðið, þegar ég fann þrýsting á öxlunum. Líkt og einhver stæði fyrir aftan
stólinn, sem reyndar stóð upp við vegg, og ýtti mér þéttingsfast niður eins og
til að koma í veg fyrir að ég stæði upp.
Um leið svifu fyrir framan mig ótal teikningar og áhöld til teikninga:
blýantar, strokleður og pappír.
Ég sat agndofa og horfði á og um leið gerðist eitthvað undarlegt inni í mér.
Eitthvað sem ég skil ekki: ég fékk gríðarsterka löngun til að teikna. Setjast
niður með blýant í hönd og búa til myndir.
Svo þegar þrýstingurinn á öxlunum minnkaði, vissi ég hvað ég átti að gera.
Ég stóð upp og fann blað og blýant sem ég veit ekki hvernig komst í eigu
mína, settist við borð með blýantinn í hönd og blaðið fyrir framan mig. Man
að ég skalf og titraði meðan ég bar blýantinn að blaðinu og lét hann snerta
það.
Og svo veit ég ekki af mér fyrr en löngu seinna. Man ekki hvað gerðist frá
því blýantsoddurinn snerti blaðið og þar til ég rankaði við mér löngu síðar.
Engu líkara en ég hafi sofnað og sofið nokkuð lengi.
En ég sofnaði ekki. Það veit ég.
Þegar ég kom til sjálfs mín aftur lágu heilmargar teikningar á borðinu fyrir
framan mig og jafnvel á gólfinu.
Teikningar sem ég gerði sjálfur.
Þó var ekki mitt nafn skrifað undir þær, heldur önnur, eins og Dürer,
Mattisse, Ingres og fleiri nöfn sem ég hafði aldrei heyrt nefnd.
Samt teiknaði ég myndirnar, það var hönd mín sem hélt um blýantinn. En
svo virðist sem einhver eða einhverjir aðrir hafi stjórnað henni og huga
mínum.
Nú veit ég hvað ég á að gera ef ég sit í stólnum mínum og finn þrýsting á
öxlunum: finna blað og blýant, setjast niður og teikna.
Aðeins þá get ég það.
Aldrei annars.
Það hef ég reynt.

Í DRAUMAVERKSMIÐJUNNI

Maðurinn sem vann i draumaverksmiðjunni stakk alltaf einum og einum
draumi undan og geymdi handa sér og sínum.
Til allrar hamingju komst aldrei upp um hann.

SÁ SÍÐHÆRÐI OG SKEGGJAÐI

Ég var þreyttur og lúinn eftir að hafa verið á stanslausu ferðalagi í tvo
sólarhringa. Hugsaði því ekki um annað en finna mér gistingu. Stað þar sem
ég gæti lagst upp í rúm og mér var slétt sama hvernig það var. Hvort það væri
mjúkt eða hart, hreint eða ekki.
Það skipti ekki máli. Bara að ég kæmist í rúm og gæti lagst í það og sofnað.
Ég þvældist um í nágrenni lestarstöðvarinnar og fór að lokum inn í hús
nokkurt, sem var þar skammt frá.
Veit eiginlega ekki hvað fékk mig til að stíga upp þessar tvær tröppur sem
lágu að dyrunum, því ekki var neitt skilti þar sem benti til að þetta væri
gististaður. Hugsanlega var það fólkið sem gekk þarna um sem vakti forvitni
mína. En svo virtist sem stöðugur straumur væri bæði inn í húsið og út úr því.
Ég steig því upp tröppurnar tvær, tók ákveðið í hurðarhúninn. Venjulega
hefði ég verið hikandi.
En ekki núna.
Við mér blasti langur gangur með köflóttum dregli. Gangurinn lá að stórum
og miklum sal. Innst í honum var lítið upphækkað svið og þar í nokkurs
konar hásæti sat lágvaxinn maður sem horfði út í salinn. Hann var með sítt og
mikið hár og langt skegg sem fangaði athygli mína í fyrstu.
Hann virtist taka eftir mér. Fannst sem augu hans staðnæmdust við mig
einan. Enda skar ég mig talsvert úr öðrum sem þarna voru. Bæði í útliti og
klæðaburði.
Ég gekk nær, líkt og hann drægi mig til sín með augnaráðinu. Fannst ég allt í
einu vera fiskur sem hafði bitið á agnið og hann veiðimaðurinn sem dró
línuna inn.
Þegar ég var kominn að sviðinu, reis hann á fætur og benti mér að fylgja sér.
Ég gerði það. Gat ekki annað.
Hann vísaði mér inn í herbergi baksviðs og benti mér á að setjast í stól.
Hann settist á móti mér.
Horfði á mig.
„Ég nenni þessu ekki lengur,” sagði hann.
„Hverju?” spurði ég.
„Að sitja í þessu fjandans hásæti og láta fólk horfa á mig eins og einhverja
styttu eða guð. Eða ég veit ekki hvað.”
„Nei, það getur ekki verið skemmtilegt,” sagði ég undrandi á hvert þetta
samtal stefndi.
„Það var það kannski fyrst,” sagði hann, „mig minnir það,” hann brosti.
„En ekki lengur. Auk þess finnst mér ég hafa glatað hæfileikanum.” Hann leit
í augu mín, svo djúpt fannst mér að það var sem hann sæi mína innstu þanka.
„Mig langar út á meðal fólks, geta gengið um göturnar eins og venjulegur
maður, hitt fólk, jafnvel reynt við kvenfólk og sofið hjá. Það hef ég ekki gert í
mörg ár,” sagði hann alvarlegur í bragði.
Ég brosti hughreystandi til hans. Vissi ekki hvað ég gæti sagt. En hugsaði
um stelpuna sem ég svaf hjá í lestinni á leið til borgarinnar. Við skelltum
okkur bara inn á klósettið og gerðum það þar.
Fas síðhærða og skeggjaða mannsins breyttist skyndilega, eins og hann
hefði skynjað eða hreinlega lesið hugsanir mínar og misboðið þær. Hann ýti
stólnum harkalega aftur og reis snöggt á fætur. Augu hans sem áður höfðu
verið mild og blíð, allt að því sorgleg, hörðnuðu og urðu reiðileg. Hann
togaði í skegg sitt og hár sem virtist hvort tveggja losna af við það, beindi
höndum sínum ógnandi að mér og þá var sem bæði skeggið og hárið
yfirfærðist á mig. Eins og það festist á mér, þar sem ég sat þreyttur og lúinn í
stólnum.
Hann var nú bæði orðinn skegg- og hárlaus en ég kominn með meira hár og
síðara skegg en ég hafði nokkurn tíma haft áður.
Hann snerist á hæli og gekk út um aðrar dyr en þær sem við höfðum komið
inn um.
Ég fór hins vegar út um þær og inn í salinn stóra á ný. Þar sem ég settist í
hásætið og naut þess að leyfa fólkinu að horfa á mig.
Fólkinu mínu sem dýrkar mig og dáir.

TRÉN Í SKÓGINUM

Honum fannst trén í skóginum tignarlegri en oft áður, eins og þau stæðu
beinni og væru jafnvel hærri en venjulega. Þetta þótti honum reyndar
undarlegt, því hann hafði farið þennan sama stíg kvöldið áður.
Þegar hann gekk heim á leið.
Hve skynjunin getur blekkt mann, hugsaði hann með sér, meðan hann
horfði á trén og hélt áfram ferð sinni um skóginn með farminn á bakinu.
Hann þekkti orðið leiðina undur vel, því hann fór hana tvisvar á dag, fyrst
að morgni og síðan að kvöldi til baka, og hafði gert í mörg ár. Í hvert einasta
sinn virti hann trén lítillega fyrir sér en þetta var í fyrsta skipti sem honum
fannst þau öðruvísi en venjulega.
Beinni og hærri.
Jafnvel í gærkvöldi voru þau minni og kræklóttari.
Hann var sannfærður um það.
Þegar hann var kominn á leiðarenda og búinn að skila byrði sinni af sér,
hafði hann orð á þessari breytingu á skóginum en aðrir hlógu að honum og
sögðu þetta vitleysu.
„Annað hvort ertu fullur eða þú hefur fengið högg á höfuðið,” sögðu þeir,
„skógurinn hefur ekki breyst hið minnsta síðan í gær. Hann er nákvæmlega
eins og hann hefur alltaf verið. Hafi hann breyst eitthvað, er það bara í
höfðinu á þér.”
Hann sneri sneyptur heim á leið um kvöldið.
Í þeirri litlu skímu sem eftir lifði sá hann að skógurinn var eins og um
morguninn: trén voru bein, há og tignarleg.
Þetta var síðasta ferð hans um skóginn.

STAÐUR

Í rifrildinu miðju sem var heiftarlegra en venjulega, skellti hann útidyrunum
harkalega á eftir sér og hélt einn út í nóttina.
Hún stóð eftir með ósögð orð á vörunum.
Hann ranglaði stefnulaust um og hét því að snúa aldrei aftur.
Áður en hann vissi af var hann þó kominn til baka.
En allt var horfið.
Það var ekkert eftir. Rétt eins og aldrei hefði neitt staðið á þessum stað.
Í loftinu lágu einungis ósögð orð hennar, sem hann þráði nú svo ákaft að
heyra, og sannfærðu hann um að hann væri á réttum stað.
Sama stað.

ÚR SKUGGANUM

Þegar mennirnir tveir höfðu staðið í skugganum um aldir voru þeir reknir
burt því skugginn var eina óbyggða svæðið sem eftir var í þessum hluta
borgarinnar og í hann vantaði fleiri hús.
Þeir urðu því að færa sig.
Varlega stigu þeir fram úr skugganum, eins og þeir væru hræddir.
Sólin skein hátt á lofti enda var þetta einn heitasti dagur í borginni í manna
minnum.
Um leið og þeir stigu fram í dagsljósið varpaði sólin sterkum geislum sínum
beint í augu þeirra, svo þeir blinduðust og gátu ekki farið neitt til að finna sér
annan stað til að dveljast á. Þeir stóðu því kyrrir frammi fyrir mannfjöldanum
sem kominn var til að fylgjast með er þeir kæmu fram úr skugganum.
Á enni mannanna tveggja birtust svitadropar. Fáeinir í fyrstu en urðu sífellt
fleiri og fleiri og láku niður andlit þeirra.
Hraðar og hraðar.
Andlit þeirra runnu brott með svitadropunum. Búkarnir fylgdu svo í
kjölfarið, þar til ekkert var eftir af þeim nema svitafljótið sem rann í stríðum
straumum niður götuna og út í sjó.
Og mannfjöldinn fylgdist agndofa með

MAÐUR Í VEGKANTI

Þannig háttar til hjá mér að ég bý nokkuð langt frá vinnustað mínum og
þarf því að keyra til og frá vinnu á hverjum degi. Þessum ferðalögum hef ég
vanist enda búinn að vinna á sama staðnum í mörg ár og þykir þetta ekkert
tiltökumál lengur.
Jafnvel ekki yfir vetrartímann.
Er enda á góðum bíl. Stórum jeppa sem ég fékk mér fyrir nokkrum árum.
Hann kemur mér hratt og örugglega milli staða.
Dag nokkurn þegar ég var á leið til vinnu minnar, tók ég allt í einu eftir því
að vegurinn hafði breyst. Í stað malbiksins var ég kominn á malarveg, að vísu
nokkuð góðan malarveg, en hann var eigi að síður þurr og rykugur.
Ég velti fyrir mér hvort ég hefði beygt óvart útaf veginum án þess að taka
eftir því. Er stundum svo annars hugar þegar ég ek þessa leið, sem er kannski
ekkert skrýtið eftir að hafa farið hana svona oft. En þegar ég leit kringum mig
og sá kunnuglegt umhverfið, sannfærðist ég um að ég væri á réttri leið og
hefði hvergi beygt útaf aðalaveginum.
Meðan ég rýndi gegnum rykmökkinn sem var meiri en svo að hann gæti
einungis komið frá mínum eigin bíl, varð mér litið út í hægri kantinn og sá þar
rauða línu eða strik sem minnti þó meira á brotna miðlínu heldur en heila.
Veit svo sem ekki alveg hvað fangaði athygli mína við þessa rauðu slóð en
hugsaði ekki meira um hana í bili.
Ekki fyrr en ég sá manninn sem skreið á fjórum fótum í vegkantinum. Þá
áttaði ég mig á að þetta var blóð sem rann úr sárum á fótum hans og
höndum.
Ég hægði á mér þegar ég fór framhjá honum. Það hvarflaði meira að segja
að mér að stoppa þegar ég sá hann og forvitnast um ferðir hans. En ákvað að
láta það ógert, þegar ég sá einbeitningarsvipinn og ákveðnina sem skein úr
andliti hans.
Svo ég hélt áfram ferð minni. Jók hraðan þegar ég var kominn framhjá
honum og jós yfir hann rykmekki.
Þegar ég fór heim um kvöldið sá ég hvergi manninn sem skreið í
vegkantinum og vegurinn var aftur orðinn malbikaður eins og hann á að vera.
Á stöku stað sýndist mér ég þó sjá glitta í rauða flekki í vegarkantinum.
En athugaði það ekki nánar.

BÓKIN

Tek bókina úr hillunni, opna hana og legg á gólfið. Hún opnast á síðum
þrjátíu og tvö og þrjátíu og þrjú.
Ég stíg á hana, set vinstri fótinn á fyrri síðuna, þann hægri á hina. Set
hendur niður með síðum og finn hvernig ég sekk inn í bókina, sem líkt og
sogar mig inn í sig og gleypir mig. Þegar ég er allur horfinn inn í hana kemur
bókavörðurinn sem hefur fylgst með mér og veit hvað ég er að gera, tekur
bókina upp af gólfinu, lokar henni og setur hana á sinn stað í hilluna.
Löngu síðar gengur bókavörðurinn að hillunni aftur, tekur bókina út, opnar
hana og leggur á gólfið, svo ég geti enn á ný stigið upp úr henni.
Veit þó aldrei hvar ég verð staddur í bókinni þegar það gerist og
bókavörðurinn ekki heldur. Hann þarf því að fletta fram og aftur þar til hann
finnur mig.
Vill til að hún er ekki mjög löng.

HELLIRINN

Maðurinn vaknaði nótt eina og fann löngun til að fara út að ganga. Hann
undraðist þessa gríðarsterku löngun, þar sem hann hafði aldrei verið neinn
sérstakur göngumaður, leiddist það frekar en hitt, og var heldur enginn
næturgöltrari.
En þessi löngun var svo sterk að hann stóðst ekki mátið. Hann klæddi sig í
hlý föt og góða skó sem hann fann inni í skáp.
Vetrarkuldinn tók á móti honum þegar hann kom út.
Hann gekk af stað og brátt stefndi hann upp fjallshlíð. Fór ótroðnar slóðir,
óð snjóinn upp að hné í hverju skrefi. En ekki kom til greina að gefast upp og
snúa við. Hann varð að halda áfram. Þrátt fyrir myrkrið virtist hann sjá hvert
hann gekk og innst inni hafði hann óljósa hugmynd um hvert hann stefndi.
Eftir langa mæðu kom hann að klettum og brátt greindi hann hellisop
skammt frá sér. Hann stefndi þangað líkt og hann væri togaður í áttina að því.
Þegar hann kom inn í hellinn heyrði hann mikla háreysti og sá eldsbjarma
sem flökti um hellisveggina. Hann nam staðar framarlega í hellinum en hélt
svo áfram lengra inn í hann. Eftir fáein skref kom hann auga á eld sem logaði
glatt. Á hellisgólfinu umhverfis eldinn sat hópur fólks sem spjallaði saman eða
söng söngva sem hann kannaðist ekki við en hljómuðu samt sem áður
kunnuglega.
Gömul kona tók eftir honum, stóð á fætur og gekk til hans og um leið
þagnaði fólkið, svo ekkert heyrðist nema snarkið frá eldinum.
„Loksins ertu kominn,” sagði gamla konan við manninn. „Eldurinn sagði
reyndar að þú hefðir átt að koma í gær. En slíkar yfirsjónir eru fyrirgefnar
enda erum við umburðarlynd.”
Maðurinn hlustaði á konuna og kinkaði kolli.
„Nú skalt þú,” hélt hún áfram, „fá þér sæti við eldinn hjá hinum, þar sem
þér er ætlaður staður.”
Maðurinn sá strax hvar hans staður var, gekk þangað og settist.
Hann átti ekki annara kosta völ.

MAÐUR FER INN Í HÚS

Ég var rétt að koma heim að húsinu mínu þegar ég sá á eftir manninum inn
í húsið. Horfði á hann stíga út úr bílnum sem var alveg eins og minn bíll, sá
sem ég var í sjálfur, og ganga að tröppunum. Grípa með vinstri hendi um
handriðið, eins og ég er vanur að gera, lyfta hægri fæti fyrst upp í fyrstu
tröppuna.
Eins og ég geri alltaf.
Ég stöðvaði bílinn og horfði á manninn ganga upp tröppurnar að húsi
mínu. Og mér fannst ég vera að horfa á sjálfan mig koma heim. Ekki einungs
var bíllinn á stæðinu eins og minn og göngulagið það sama, heldur sá ég ekki
betur en fötin sem hann klæddist væru nákvæmlega eins og þau sem ég var í.
Bláar gallabuxur og ljós jakki.
Reyndar sá ég ekki framan í hann, svo ég get ekki fullyrt að þetta hafi verið
ég sem gekk upp tröppurnar en líkindin voru svo sláandi að ég vissi hreinlega
ekki hvað ég átti til bragðs að taka.
Vissi þó að heim gat ég ekki farið.
Gat ekki gengið inn í húsið og átt á hættu að standa augliti til auglitis
frammi fyrir sjálfum mér.
Því setti ég bílinn í gír og keyrði af stað, framhjá húsinu mínu og eitthvert
út í borgina.
Ók stefnulaust um og vissi innst inni að búið var að stela lífi mínu.
Fyrr en varði var ég kominn út fyrir borgina.
Ég átti mér ekkert líf lengur. Ókunnur maður í minni eigin mynd hafði
gengið inn í hús mitt og stolið lífi mínu, sem ég gæti aldrei endurheimt.
Ég hrökk upp þegar ég var kominn inn á fáfarinn sveitaveg við það að
bílinn fór að hökta og hiksta.
Ég áttaði mig strax á hvað var að gerast.
Svo til til um leið og ég leit á bensínmælinn drap hann á sér og ég vissi að
ekki þýddi að reyna að starta honum á ný.

Og hér sit ég, einn á bensínlausum bíl, fjarri mannabyggðum og hef ekki
hugmynd um hvað ég á að gera.
Eina sem ég veit er að ókunnur maður í mínu eigin líki hefur rænt lífi mínu
sem ég mun aldrei enduheimta.
Ég opna bílhurðina og stíg út í rigninguna sem rennbleytir mig á skammri
stundu.
Man eftir klettum hátt uppi í fjallinu og stefni í átt að þeim. Þar verður tekið
vel á móti mér
Er sannfærður um það.

EYÐIBÝLIÐ

Fáfarinn vegurinn hlykkjast um fjallið og þegar hún kemur út úr einni
beygjunni sér hún gamalt eyðibýli framundan.
Húsið stendur enn. Háreist. Þó skellur séu komnar hér og hvar í
málninguna má sjá að það hefur einhverntíma verið hvítt. Rúðurnar brotnar
og sjálfsagt hvín vindurinn og gnauðar í húsinu.
Hún hugsar með sér að ekki væri nú gaman að dveljast þarna inni á dimmri
og kaldri óveðursnótt.
„Nei, það er ekki gaman,” finnst henni sagt við hlið sína. „Enda húsið fullt
af draugum,” nemur hún frá sömu rödd.
„Og brátt verður þú einn af þeim.
Ein af okkur.”
Hún finnur þá eins og tekið sé í stýrið og bíllinn stefnir útaf.
Flýgur í átt að gamla eyðibýlinu sem hún veit að verður sitt framtíðarheimili.
Að eilífu.

HORFIR

Enn á ný kominn morgun.
Ég stend við gluggann og horfi út. Á fólkið sem hraðar sér framhjá. Ýmist
á leið til vinnu eða úr vinnu.
Enginn lítur í átt til mín. Þó vita allir af mér. Það veit ég. Og fólk
dauðlangar sjálfsagt að líta í áttina til mín. Gjóa augunum hingað upp á
gluggann minn til að vita hvort það komi auga á mig. En leggur ekki í það.

Þannig var það þegar ég var lítil.
Við vissum öll hvar maðurinn hafði verið myrtur og að hann sást oft í
glugganum. En aldrei þorðum við að líta upp til hans. Hann gæti verið að
horfa á okkur.
Sumir sögðust hafa séð hann. Þóttust hafa haft kjark til að líta upp í
gluggann og jafnvel horfa í augu hans. Sögðu hann hvíthærðan og skeggjaðan
og í svörtum fötum. Og augun í honum væru hræðileg. Þeir hefðu ekki sofið
þrjár nætur á eftir.
Ég veit að þetta er ekki satt. Vissi það strax. Það þorði enginn að horfa upp
í gluggann til hans. Ekki frekar en upp til mín núna.

Morgunumferðinni á götunni fyrir neðan er lokið. Aðeins einn og einn sem
er seinn fyrir. Svaf of lengi.
Ég sný mér frá glugganum, hlamma mér í stólinn og stari á gluggann.

Kvöld nokkurt að áliðnu sumri, þegar farið var að rökkva, þó ekki væri
orðið aldimmt, var ég á heimleið.
Gekk framhjá húsinu.
Þá rifjaðist upp fyrir mér sagan af manninum myrta í glugganum.
Ég hló að þessari sögu enda vaxin upp úr því að trúa á draugasögur. Til að
sanna það fyrir sjálfri mér leit ég upp í gluggann.

Stóllinn er gamall hægindastóll. Hér er allt gamalt nema ég.

Hann stóð við gluggann og horfði á mig. Hann var ekki gamall og
svartklæddur, heldur miðaldra og í ljósum buxum og jakka. Skegglaus.
Ég sá ekki betur en þetta væri virðulegur miðaldra maður.
Hann horfði stíft á mig. En augnaráð hans var róandi og þægilegt, allt að
því blítt. Alls ekki ógnandi.
Ég gat ekki haft augun af honum og eftir góða stund var eins og hann benti
mér á að koma til sín. Án þess þó að hreyfa sig. Ég fann það einungis á
augum hans að hann vildi að ég kæmi til sín.

Dagurinn líður hægt þar sem ég sit í stólnum, horfi á gluggann og bíð þess
að rökkvi svo ég geti farið aftur að glugganum og fylgst með fólkinu halda
heim úr vinnunni.

Ég gekk að útidyrunum og opnaði, þær voru ólæstar. Gekk upp stigana.
Það var eins og eitthvað vísaði mér leið til hans. Ég hafði auðvitað aldrei
komið inn í þetta hús en samt vissi ég nákvæmlega hvert ég átti að fara.
Hann hafði snúið sér frá glugganum og stóð á miðju gólfi í herberginu
þegar ég kom inn. Sagði ekki orð en benti mér á að setjast í hægindastólinn.
Það hefði ég aldrei átt að gera.
En gerði samt og vissi á sama augnabliki að við höfðum skipt um hlutverk.
Fann að ég var föst í stólnum en hann gekk út í líkama mínum.

Dagurinn líður.
Brátt fer að verða tímabært að standa við gluggann og fylgjast með fólkinu
sem drífur sig heim úr vinnunni.
Athuga hvort ég nái augnsambandi við einhvern svo ég losni héðan.

HURÐIN SEM EKKI VAR

Í heimsókn til mín kom eitt sinn hinn þekkti og ágæti maður Sigurjón
Hafsteinsson, sem, eins og flestir vita, var þekktur fyrir að sjá og heyra fleira
en aðrir menn.
Eftir að við höfðum drukkið kaffi í eldhúsinu, spjallað saman um tíðarfarið,
búskaparhætti og annað þesslegt, bar Sigurjón upp erindi sitt. Hann óskaði
þess að fá að líta á gamla bæjarstæðið, sem var talsvert ofar í hlíðinni en
núverandi bæjarhús. Hann sagði sig langaði aðeins að sjá hvernig þar væri
umhorfs.
Þess ber að geta að gamli bærinn var jafnaður við jörðu fyrir talsvert löngu
síðan, aðeins steynsteypt platan og tvær tröppur sem áður fyrr lágu að
útidyrunum, stóðu eftir.
Það var ekkert nema sjálfsagt að hann fengi að líta á þessar rústir. Ég bauðst
til að ganga með honum og þáði hann það með þökkum.
Þegar við komum að gamla bænum gekk ég upp tröppurnar tvær, stóð á
plötunni og hóf að útskýra herbergjaskipan fyrir Sigurjóni.
Hann kom á eftir mér upp tröppurnar, staðnæmdist á pallinum, lyfti annarri
hendinni og sló þrisvar í loftið með krepptum hnefa.
Líkt og hann dræpi á dyr. Eftir skamma stund færði hann sig ögn aftar, eins
og til að víkja sér undan hurð sem opnast út.
En þannig opnaðist einmitt hurðin á gamla bænum.
Sigurjón steig innfyrir. Rétti út hægri hönd sína og hristi hana ákaft, sem
hann heilsaði einhverjum. Munnur hans gekk upp og niður líkt og hann væri í
hrókasamræðum.
Þó greindi ég ekki orðaskil, stóð aðeins kyrr í sömu sporum og fylgdist
með.
Þessu fór fram um hríð.
Að lokum lyfti Sigurjón hönd að húfu sinni og veifaði í kveðjuskyni. Snerist
á hæli og líkt og opnaði dyrnar sjálfur. Gekk svo út og niður tröppurnar.
Þá var eins og bráði af honum og hann tók eftir mér.
Sagði þetta hafa verið athyglisverða heimsókn og hann hafi fengið að vita
það sem hann var á höttunum eftir.
Ekki vildi hann segja mér hvað það var.