Um stundarsakir -2010

MAÐURINN GLOTTIR


Maðurinn
sem leggur
mótorhjóli sínu
skammt frá
glottir
þegar
hann sér
mig
túristann
sitja
við hliðina
á gamalli konu

og skrifa

UM STUNDARSAKIR

BORGIN SEM HEF ÞRÁÐ AÐ HEIMSÆKJA

 Geng um götur
 borgarinnar
 sem ég hef
 svo lengi
 þráð að heimsækja

 Hitinn kæfandi
 þrátt fyrir golu

 Sólin brennandi
 svo hörundið roðnar

 Og um allt
 fólk
 með kort í hönd

 Rýnir í þau
 og horfir
 kringum sig

 Talar saman
 á mörgum
 og ólíkum
 tungumálum

 GATAN FYLLIST AF FÓLKI

 Smátt og smátt
 fyllist gatan af fólki
 sem gengur
 fram og aftur

 Sumir með kort
 og myndavélar
 aðrir ekki neitt
 nema kannski dagblað
 og tylla sér á bekk
 til að lesa það

 Ég sest niður

 Horfi á mannlífið
 og fólkið streyma hjá

 eins og læk
 sem rennur
 í báðar áttir

 Á TORGI VIÐ DROSSNESGÖTU

 Gömlu konurnar
 sitja ýmist
 eða standa
 á torginu

 Tala saman

 Sumar meira
 og hærra
 en aðrar

 svo
 heyrist
 langar leiðir
 í logninu

 hlýjunni

 Og rökkrið
 sígur yfir
 um leið og
 gamlir karlar
 í misjöfnu ástandi
 staulast
 inn á torgið

 Sumir hrumir
 af elli
 aðrir óstöðugir
 af drykkju

 Finna stóla
 eða bekki
 og tylla sér

 fjarri konunum

 Og þegar
 sú sem
 mest og hæst
 talar
 fer

 styðst við
 stafinn sinn
 er hún
 heldur
 heim á leið

 þá
 er eins og
 þagnartjald leggist
 yfir torgið

 Allt dettur
 í dúnalogn
 utan umferðarniðinn
 frá breiðgötunni
 sem torgið stendur við

 SIT Á BEKK OG HUGLEIÐI STAÐ OG STUND

 Sit á bekk
 í borginni
 sem ég dvel í
 um stundarsakir

         allsstaðar
         dvelur maður
         um stund
             aðeins mislengi
             á hverjum stað

 og greinar trjánna
 slúta fyrir ofan
 eins og þau
 hengi haus

 að baki múrar
 einhvers
 sem ég held
 að sé klaustur

         samt ekki viss
             aldrei viss um neitt 

 MAÐUR STENDUR Á BRYGGJU

 Stendur á bryggju
 í borginni
 sem hann heimsækir

 Horfir á sjóinn
 og fiskana
 er borða brauð
 sem til þeirra
 er hent

 Stendur einn
 á bryggjunni

 finnst
 hann sjálfur
 vera fiskur

 sem étur
 brauðmolana
 sem til hans
 er hent

 SÁLIN LENDIR LÍKA

 Og svo
 allt í einu

 eftir
 tveggja sólarhringa
 dvöl í
 borg undranna

 er sem
 sálin
 lendi líka

 Já:
 hún
 ferðast hægar
           eins og indíánarnir sögðu

 ÞÚ SEST Á BAR

 Meðan 
 sólin
 bakar
 borgina
 sest þú
 inn á bar

 í skugga

 þar sem
 hún
 nær ekki
 til þín

 PAR VIÐ NÆSTA BORÐ

 Horfi á
 spænska parið
 á næsta borði
 kyssast
 og láta vel
 hvort að öðru

 Hann
 í fótboltabol
         ítalska landsliðsins
             held ég

 Hún
 í rauðum bol
         stutterma
 með ögn
 af kögri

 STERKUR VEFUR

 Tungumálið
 svo framandi
 svo ólíkt
 að ég skil
 ekki
 eitt einasta orð

 Kannski eins gott:
 tapa mér þá
 frekar í vef
 orðanna
 sem ég spinn
 utan um mig
 og er svo
 sterkur
 að honum
 fær ekkert
 grandað

 LÍKT OG…

 Líkt og
 birti
 í huganum
 eftir því
 sem lækkar
 í glasinu

 En bara:
 líkt og

 ANDVARINN AF HAFINU

 Og hér
 er andvarinn
 af hafinu
 hlýr

 næstum
 notalegur

 Ekki
 napur
 og kaldur

 eins og
 heima

 GARÐUR HINNA STEINRUNNU ORÐA

 Hvað verður
 um öll
 óortu ljóðin
 sem suða
 stundum í
 kollinum á þér
 en nærð
 ekki að
 grípa
 eða höndla?

 Hvað verður
 um öll
 ósögðu orðin
 sem eru
 á kreiki
 í huganum
 og enginn
 hefur kjark
 til að segja

 sleppa út
 af ótta

 Ótta við orðin

 Hvað verður
 um öll þessi
 orð
 sem daga uppi
 eins og tröllin
 í þjóðsögunum?

 Ætli til sé
 garður hinna
 steinrunnu orða?

 Sé hann til
 er þá hægt að
 heimsækja hann
         eins og garðinn
         sem ég heimsótti
         í dag

 og finna
 orðin
 sem voru
 aldrei sögð

 ljóðin
 sem voru
 aldrei ort

 DROPI Í HAFI

 Berst með
 mannfjöldanum
 eftir götunni

 og veit
 varla
 hvort ég fer
 afturábak
 eða áfram

 Finn þó
 að ég hreyfist
 svo ekki
 stend ég í stað

 Mannhafið
 eins og
 fljót
 sem steymir
 í báðar áttir

 og ég
 aðeins
 dropi
 í því hafi

 BARNSGRÁTUR

 Grátur barns
 að baki
 kallar á athygli

 Heyrist
 það kalla
 pabbi, pabbi

 Sé
 þegar ég
 sný mér við
 barnið
 í fangi
 móður sinnar

 vill
 komast
 til ömmu

 Enginn
 pabbi í sjónmáli

 GÖTUSPILARAR

 Sitja á götuhornum
 eða upp
 við húsveggi

 með
 hljóðfæri í hönd
 og húfu
 fyrir framan sig

 Spila
 og syngja
 jafnvel
         sumir eiga það til
 í von um að
 einn og einn
 aur
         eða evra
 detti í húfuna

 ÁGENGAR DÚFUR

 Dúfurnar
 ágengar

 Koma jafnvel
 á útikaffihúsið
 í garðinum

 og
 ein þeirra
 trítlar undir borðið
 sem ég
 sit við

 Óttast
 að hún
 narti í
 fótleggi mína

 Bíð
 eftir bitinu

 sem aldrei kemur

 Í GARÐI SPÍTALANS SEM ARKITEKTIN FRÆGI TEIKNAÐI

 Situr á steinkanti
 í hálfgerðri
 fósturstellingu:
 fæturnir þétt
 að líkamanum
 og hendurnar
 utanum hnén

 Er í hvítum slopp
 Efast þó um
 að hann sé læknir
         minnir frekar á sjúkling

 Horfir á
 túristana sem
 streyma inn í
 spítalagarðinn
 til að forvitnast
 um byggingarnar
 sem arkitektinn frægi
 teiknaði á sínum tíma

 Andlitið
 svipbrigðalaust
 svo ég
 hef ekki hugmynd
         ekki grun
 um hvað hann hugsar
 eða finnst
 um alla þessa túrista

 Sé hann aðeins
 sitja á steinkanti
 í garði spitalans
 sem ég geng um

 eins og hinir túristarnir

 Í SKUGGA EÐA SÓL

 Magnað:
 að sitja
 í skugga
 eða sól
 á bekk
 undir trjám

 heyra
 ekkert

 nema
 framandi
 tungumál
 og það
 fleiri en eitt
         skilja varla orð

 dúfurnar
 flögra um
 og trítla
 við fætur þína

         umferðarniður í fjarska

 og skrifa

 MAÐUR MEÐ HVÍTAN HATT

 Sest
         einu sinni sem oftar
 á bekk í borg undranna

 Þar situr eldri maður
 í stuttbuxum
 með hvítan hatt á höfði

 og lítur á mig
 þegar ég nálgast

 Tekur undir
 kveðju mína
 er ég heilsa

 Hreyfir
         í það minnsta
 varirnar

 Myndar orð
 sem ég hvorki
 heyri né skil

 TUNGUMÁLAERFIÐLEIKAR

 Barþjónninn
 á litla barnum
 á í erfiðleikum
 með að skilja
 pöntun mína

 á ensku

 en sé
 ljósið kvikna
 í andlitinu
 þegar
 hann áttar sig á
 að ég ætla aðeins
 að fá einn bjór

 SKUGGI AF TRJÁM

 Skugginn
 af trjánum
 sem þú
 gengur undir
 ekki einu sinni
 svalur

 veitir
 þó skjól
 fyrir sólinni

 brennheitri

 ÓÞÆGILEGT

 Óþægilegt
 að sitja á bekk
 þegar maður
 sest við
 hlið þína
 og horfir
 á þig

 án þess
 að fara
 dult
 með það

 GÖMUL HJÓN Á TORGI

 Sest á bekk
 á torgi
 sem ég hef
 komið á áður
         en veit ekki
         hvað heitir

 og skammt frá
 sitja gömul hjón
 á stólum

 Reikna
 í það minnsta
 með að þau
 séu hjón
 fyrst þau sitja
 svona nálægt
 hvort öðru
 án þess
 að talast við

 Konan
 niðursokkin
 í að rekja upp
 saum á
 gallabuxum
 eða tösku
 
 Maðurinn
 les
 ljósrituð blöð

 Líta upp
 rétt í svip
 þegar ég
 geng hjá
 og sest
 á bekkinn

 SUMIR STAÐIR

 Ótrúlegt
 hvað sumir
 staðir
 hafa mikil
 áhrif:

 ná að
 leysa
 úr læðingi
 öll þessi
 orð
 sem virðast
         stundum
 sitja föst
 í huganum

 eins og
 botnfrosin

 GAMALL MAÐUR BÍÐUR

 Gamli maðurinn
 situr nokkuð lengi

 þó ekki
 óþolinmóður
         að séð verður

 Bíður
 konu sinnar
 sem kemur loks

 segir eitthvað
 við hann
 sem dregur upp
 gamlan stóran
 farsíma
         sem þau hafa
         örugglega
         átt lengi

 og
 réttir henni

 Hún
 reynir að hringja
 en ekki svarað
 nema
 síminn
 sé í ólagi

 KONAN Í HERBERGINU VIÐ HLIÐINA

 Spænsku konunni
 í herberginu
 við hliðina
 liggur svo
 hátt rómur
 að mér finnst
 hún vera
 inni í mínu

 Talar
 um eitthvað
 sem ég skil ekki

 og maður
 með djúpa
 drynjandi rödd
 svarar

 einhverju
 sem ég skil
 ekki heldur

 AUÐVELT AÐ GANGA UM BORGINA

 Svo
 auðvelt
 að ganga um
 þessa borg

 Fylgja
 strætum
 hennar
 án þess
 að villast

 Og þó
 þú villist
 gerir það
 ekkert til

 Finnur
 réttu leiðina
 fyrr en varir

 ÁGÆTIR FÉLAGAR

 Þvælist um
 borgina
 í félagsskap
 San Miguel
 og Estrellu

 Þau tvö
 ágætir félagar

 Þöglir
 að vísu

 en
 þannig
 vil ég
 hafa það

 að
 þessu sinn

 SÓLFUGLINN

 Horfi á
 Sólfuglinn
 og velti
 fyrir mér
 hvort hægt
 sé að setjast
 á bak hans

 Láta hann
 bera sig
 upp til
 sólar

 sem
 ég hef svo
 lengi þráð
 að komast til

         Alveg síðan
         á menntaskólaárum
         er ég skrifaði
         ritgerð
         í stjörnufræði

         um sólgos

 UNG KONA TALAR Í SÍMA

 Ung kona
 í hvítum doppóttum kjól
 talar af miklum ákafa
 í símann
 og er svo stressuð eða ör
         að því er virðist
 að hún getur ekki staðið kyrr

 Gengur fram og aftur
 meðan á símtalinu stendur

 Kærastinn bíður
 hinn rólegasti

 með
 mótorhjólahjálminn á höfðinu

 TVEIR MENN Á BEKK

 Þeir sitja
 tveir á bekknum

 í hrókasamræðum

 Þegar ég
 lít aftur
 í átt til þeirra

 er sá
 með gráa
 þykka yfirvaraskeggið
 horfinn

 en
 hinn
         gráhærður með gleraugu
 situr einn eftir

 GÖMUL KONA MEÐ HÆKJUR

 Þegar
 gamla konan
 með hækjurnar
 nálgast bekkinn
 stendur
 gamli maðurinn
 á fætur

 Hraðar sér burt

 Líkt og
 hann vilji ekki
 eiga samskipti
 við hana

 eða
 sitja við
 hlið hennar

 MAÐURINN GLOTTIR

 Maðurinn
 sem leggur
 mótorhjóli sínu
 skammt frá
 glottir
 þegar
 hann sér
 mig
 túristann
 sitja
 við hliðina
 á gamalli konu

 og skrifa

 SKIL EKKI

 Hún
 ætlast til
 að ég
 skilji sig
 gamla konan
 sem situr
 við hlið mína
 og talar
 við mig

 Kannski
 um reiða manninn
 sem gekk hjá
 rétt í þessu

 eða
 eitthvað
 allt annað
 En
 mikilvægt
 virðist það vera

 Í huga
 hennar
 að minnsta kosti

 Í GARÐI BÓKASFNSINS

 Yfir höfði mínu
 í garði
 bókasafnsins
         þó ekki
         hinna gleymdu bóka
 svífa
 páfagaukar

 sem
 ég hef
         fram að þessu
 aðeins séð
 í búrum

 Í EIGIN HEIMI

 Hún
 er algjörlega
 í eigin heimi
 stúlkan
 í marglita
 kjólnum

 sem
 gengur
 yfir torg
 heilags Mikjáls
 með headfóna
 á eyrunum

 og
 syngur með
 tónlistinni

 SEGIR EKKI NEITT

 Ungu
 indversku
 konunni
 sem situr
 við hlið mína
 með kornabarn
 í burðarpoka
 framan á sér
 þykir óþægilegt
 þegar ég
 lít á barnið
 og brosi
 til þess

 Segir þó
 ekki neitt

 STUNDUM GOTT

 Stundum gott
 að skjótast
 inn í verslun
 safn
 kaffihús
 eða bar

 einungis
 til að
 kæla sig

 Losna undan
 kæfandi hitanum
 og brennandi
 sólinni

 um stund

 OF MARGT FÓLK

 Stundum
 alltof margt fólk
 í kringum þig

 Lokast inni í hóp
 sem ber þig áfram
 eins og straumur
 sem þú
 ræður ekki við

 Þá er ráð
 að smeygja sér
 inn i hliðargötu
 þar sem fáir
 eru á ferli

         Slíkar götur finnast
         jafnvel hér í þessari borg

 ÞRJÁR KONUR TALA SAMAN

 Geng upp brekkuna
 og heyri
 háværa skræka
 kvenmannsrödd

 Kem auga á
 þrjár eldri
 konur standa
 í hnapp

 Sú sem hæst
 talar heldur í
 hundaól

 hinar standa
 og hlusta

 Rödd hennar
 hljómar eins og
 hún sé að rífast
 ellegar skamma
 hinar tvær

 og þær
 þannig á svipinn
 að mér þykir það
 ekki ólíklegt

 Þegar ég er
 farinn hjá
 þagnar hún
 og ég heyri
 hinar tvær
 reka upp skellihlátur

 ÞÝSKIR TÚRISTAR

 Að baki mér
 nemur rúta staðar

 út streymir
 hópur
 þýskra túrista
         endalaus
         að því er virðist

 Að virða
 fyrir sér
 útsýnið yfir
 borgina

 Eins og ég

 OF NIÐURSOKKIN

 Hún
         eins og þau hin
 teiknar
 eftir fyrirmælum
 kennara sins

 og
 kippir sér
 ekki upp við það
 þó ég
 gjói augum
         af og til
 á verk hennar

 of
 niðursokkin
 til að
 taka eftir því

 SVO AUÐVELT
 Svo auðvelt
 að halda áfram
 að þvælast
 hér um

 Leyfa
 borginni
 að gleypa sig

 eins og
 ég hef gert

 En veit:

 fer heim
 á morgun

 NEGLDUR FASTUR Í METRÓINU

 Óþægilegt
 að vera nánast
 negldur fastur
 í metróinu

 af augum
 sem stara
 á þig
 handan
 svartra
 sólgleraugna

 svo þú
 getur ekki
 lesið neitt
 úr þeim

 En veist
         og finnur
 að hún
 starir á þig
 nánast allan
 tímann
 sem lestin
 er á ferð

 og
 þú losnar
 ekki undan
 augnaráðinu
 fyrr en
 þú ferð út

 Hún fer
         reyndar
 út á
 sömu stöð

 TVEIR VINIR KOMA INN Á BARINN

 Koma
 inn á barinn
 tveir
         félagar og vinir

 setjast

 Panta bjór

 Sitja
 góða stund
 þegjandi

 og
 drekka
 rólega

 Annar
 kveikir sér
 þó
 í sígarettu

 Á BARNUM MÍNUM

 Líður
 eins og ég
 sé kominn
 „heim”
 þegar
 ég sest
 í stólinn
 við borðið
 á barnum
 sem ég hef
 komið á
 áður

 Einu sinni

 TÍMINN BRÁTT UPPURINN

 Allt í einu
 og skyndilega
 er tíminn
 sem þú hafðir til
 ráðstöfunar
 að verða liðinn

 Endalokin nálgast
 hraðar en þú kærir
 þig um að vita

 og
 of seint
 að breyta nokkru

 eða endurtaka

 hvað þá
 að gera það
 sem láðist að gera

 ÖLL ÞESSI ORÐ

 Veit
 stundum ekki
 hvaðan þau koma
 öll þessi orð

 sem
 rignir á
 blaðið

 en
 fagna þeim
 eins og
 þurr mold
 rigningunni

 GENGIÐ HJÁ KIRKJUGARÐI

 Geng hjá
 hliðinu að garði
 hinna dauðu

 Ákveð
 að fara ekki inn

 Leyfa þeim
 að fá frið

 fyrir mér

 Túristanum

 HVERF BRÁTT Á BRAUT

 Brátt
 verður ekkert
 eftir af mér

 hér

 nema
 spor mín
 á götum
 borgarinnar

 sem enginn man

 utan
 ég sjálfur
 og ljóð mín

 TÍMI KOMINN TIL AÐ FARA

 Og svo
 þegar borgin
 hættir
         næstum
 að vera framandi

 Ferð í það minnsta
 að átta þig
 á stöðum
         götum og torgum
 og veist
 hvernig þau líta út

 Kemur
         enn einu sinni
 auga á rónann
 sem er ætíð
 á sama torginu

 hóran á horninu
 orðin kunnugleg

 þá
 er tími til að fara

 Yfirgefa borgina

 Koma
 ef til vill aftur
 síðar